Fasteignamógúllinn Donald Bren, auðkýfingur sem er metinn á 28 milljarða dala, sem nemur tæpum 3,5 billjónum króna, hefur afneitað fullorðnum syni sínum með mjög opinberum hætti.
Sonurinn er 33 ára og heitir David Bren, en hann hefur verið sakaður um að svíkja hundruð milljóna frá fasteignum með gervifyrirtæki. Gervifyrirtækið kallaðist The Bunker og þóttist vera lúxusbílaklúbbur fyrir auðmenn. Í gegnum áskriftargjald átti fólk að geta fengið aðgengi að lúxusbifreiðum frá Ferari, Bugatti og Porche sem og aðgang að lúxusveitingum, víni og vindlum.
Faðir Davids, Donald Bren, er 93 ára gamall og hefur nú sent fjölmiðlum stutta yfirlýsingu vegna svika sonar síns. Þau voru eftirfarandi:
„Við eigum hvorki persónulegt né viðskiptatengt samband við þennan einstakling.“
Þetta þykja frekar köld skilaboð til sonarins, en það hefur verið kalt á milli feðganna í rúmlega tvo áratugi en árið 2003 reyndi móðir David að stefna Donald fyrir dóm til að heimta hærra meðlag. Donald hafði betur og virðist lítið sem ekkert vilja vita af syni sínum eftir þetta.
David reyndi þó að fá inn fjárfestingu með því að þykjast eiga í góðu sambandi við frægan föður sinn. Fannst fjárfestum eins og David hefði getað tekið upp símann og hringt í föður sinn hvenær sem er, þó að raunin væri önnur. Síðan tók hann peninga sem fjárfestar töldu að væru að fara í lúxusbílaklúbbinn og notaði þá til að fjármagna sitt eigið lúxuslíf.