Göngumennirnir voru flestir í og við dalinn Karma sem liggur að austurhluta Everest-fjalls. Mikið snjóaði á svæðinu um helgina og er talið að um þúsund göngumenn hafi setið þar fastir.
Október er jafnan vinsæll mánuður á meðal þeirra sem freista þess að sigrast á Everest, enda veðurfar yfirleitt hagstæðara en í öðrum mánuðum.
En veðrið undanfarna daga hefur verið óvenjulegt í Himalaya-fjöllunum og í Nepal hafa 47 manns látist í kjölfar aurskriða og úrhellisrigningar.
„Það var svo blautt og kalt og það var veruleg hætta á ofkólnun. Veðrið í ár er ekki eðlilegt. Leiðsögumaðurinn okkar sagðist aldrei hafa kynnst svona veðri í október. Og þetta skall á allt í einu,“ segir ónafngreindur göngumaður í viðtali við Reuters.
BBC ræddi við Geshuang Chen, 29 ára reynda göngukonu, sem lagði af stað frá Qudang-héraði á laugardag og hugðist ganga til Cho Oyu-grunnbúðanna, en það er ganga sem tekur alla jafna fimm daga. Veðurspáin gerði ráð fyrir snjókomu á laugardeginum en í gær átti að létta til og vera bjart. Hélt hópurinn hennar sig því við upphaflega áætlun.
En í fyrrinótt versnaði veðrið mjög snögglega með eldingum, hvassviðri og linnulausri snjókomu. Leiðsögumaðurinn þeirra hjálpaði til við að hrista snjó af tjöldunum og moka í kringum þau til að koma í veg fyrir að þau hrundu.
„Þegar við vöknuðum var snjórinn þegar orðinn um metri á dýpt,“ segir Chen upp og bætir við að hópurinn hefði þá ákveðið að snúa við. Aðstæður voru býsna erfiðar í gær en hópurinn komst að lokum í öruggt skjól.
„Við erum öll reyndir göngumenn,“ segir Chen. „En þetta óveður var samt ótrúlega erfitt viðureignar. Ég var ótrúlega heppin að komast heil frá þessu.“