The Guardian segir að margir hafi verið lagðir inn á sjúkrahús eftir að hafa fengið hitaslag. Skólar eru lokaðir og á mörgum vinnustöðum hefur vinnutímanum verið breytt til að vernda starfsfólkið.
Fjögurra ára drengur lést á Sardiníu af völdum hita. Í Frakklandi hafa eldar kviknað og þúsundir hektara gróðurs hafa brunnið. Segja yfirvöld þetta vera verstu gróðureldana síðan 1949. Einn er látinn og 25, þar af 20 slökkviliðsmenn, hafa slasast alvarlega.
Spánverjar berjast einnig við elda. Á sjöunda þúsund manns hafa verið flutt frá heimilum sínum eða hafa neyðst til að flýja og eldarnir ógna Las Médulas-svæðinu sem er á heimsminjaskrá UNESCO að sögn B.T.
Cristina Santín Nuno, hjá spænska rannsóknarráðinu, segir stöðuna mjög slæma: „Eins og staðan er núna, erum við með allt það sem þarf í mólótovkokteil. Einn neisti getur kveikt mikinn eld.“
Hún segir einnig að þar sem vorið hafi verið mjög blautt hafi gróðurinn sprottið vel á ökrum og í skógum en nú sé allt þurrt eins og púður. Í blöndu við mikinn hita og sterkan vind, sé hættan mikil.