Réttarhöld hefjast senn í Svíþjóð yfir heilli fjölskyldu vegna morðs á ungri konu í Eskilstuna á síðasta ári. Fólkið er allt upprunalega frá Sýrlandi en hafði búið í Svíþjóð. Konan var gift manni sem hún var skyld en hún sætti ofbeldi og ógnunum af hálfu eiginmannsins og fjölskyldu hans og hafði reynt að skilja við hann. Er talið að um svokallað heiðursmorð hafi verið að ræða en fjölskyldan er sögð hafa verið afar ósátt við hegðun konunnar og þótt hún of vestræn og frjálsleg í háttum og tilraunir hennar til skilnaðar hafi reitt fjölskylduna sérstaklega til reiði.
Fjallað er ítarlega um mál konunnar í Aftonbladet og meðal annars birtar myndir af áverkum sem hún hlaut eftir það ofbeldi sem hún var beitt áður en loks kom að því að hún var myrt.
Hafði konan sagt við vinkonur sínar að tengdafjölskyldan væri vond við hana.
Konan, sem er ekki nafngreind, var 26 ára þegar hún var kyrkt til bana. Hún hafði gifst frænda sínum, sem er 10 árum eldri, í Sýrlandi þegar hún var 17 ára. Hún flutti síðan með manninum til Svíþjóðar þar sem fjölskylda hans bjó. Þau eignuðust í kjölfarið tvo syni. Fjölskyldan beitti konuna alla tíð ógnunum og ofbeldi.
Margsinnis kærði hún eiginmann sinn og tengdaföður fyrir ofbeldi. Eiginmaðurinn tók hana oft kyrkingartaki og tengdafaðirinn hótaði henni ítrekað lífláti.
Fjöldi mynda er til af áverkum eftir ofbeldið, marblettir, för eftir kyrkingar, hár sem rifið var af höfði hennar og í eitt skipti handleggsbrotnaði konan.
Samkvæmt rannsókn málsins var fjölskyldan ekki ánægð með konuna. Þeim þótti hún eyða of miklum tíma með vinkonum sínum, hún var ekki nógu mikið heima, hún vildi fara í nám og öðlast ökuréttindi, auk þess að klæða sig ekki með viðeigandi hætti.
Árið 2022 fór konan fram á skilnað. Það mátti eiginmaðurinn og fjölskylda hans ekki heyra á minnst. Maðurinn fór úr landi, til Grikklands, með syni þeirra og hann leyfði henni að hitta drengina þar eftir að hún samþykkti að draga allar kærur til baka.
Konan hélt hins vegar skilnaðarkröfunni til streitu og samkvæmt ákæru í málinu er það talið hafa leitt til þess að hún var að lokum myrt.
Tengdamóðir konunnar, sem var sem sagt einnig frænka hennar, er grunuð um að hafa boðið manni greiðslu fyrir að myrða hana. Sá maður hins neitaði hins vegar að gera það og er konan sögð þá hafa fengið son sinn, eigimann hinnar myrtu, til að framkvæma ódæðið. Bæði eru þau ákærð í málinu.
Tveir aðrir synir tengdamóðurinnar og kona annars þeirra eru einnig ákærð fyrir aðild að morðinu. Er svilkonan sögð hafa platað hina látnu til að samþykkja að hitta mann sinn með fölskum fullyrðingum um að hann hefði samþykkt skilnað.
Alls eru sjö meðlimir fjölskyldunnar ákærðir fyrir aðild að dauða konunnar. Það liggur ekki fyllilega ljóst fyrir hvernig dauða hennar bar að. Talið er hins vegar að hún hafi verið kyrkt eða kæfð í íbúð sinni í Eskilstuna 15. september á síðasta ári en hún fannst ekki fyrr en tveimur dögum síðar.
Eiginmaðurinn fór strax til Grikklands eftir morðið en var handtekinn þar ásamt móður sinni í október en hin fimm sem eru ákærð í málinu voru handtekin í Svíþjóð sama dag.
Fjölskyldan er grunuð um svokallað heiðursmorð. Öll hin ákærðu neita sök en réttarhöldin hefjast eftir viku.
Umfjöllun Aftonbladet um málið er hægt að nálgast hér.