Financial Times segir að kínversk fyrirtæki séu dugleg við að senda vörur til Bandaríkjanna í gegnum þriðja land. Með þessu geta þau leynt uppruna varanna og þannig tryggt að lægri tollur sé lagður á þær.
„Tollurinn er of hár en við getum selt vörurnar til nágrannalandanna sem selja þær síðan til Bandaríkjanna og þá verður tollurinn lægri,“ sagði sölumaður hjá kínverska fyrirtækinu Baitai Lighting.
Kínverjar nota lönd á borð við Malasíu og Víetnam við þetta. Þar fá vörurnar ný, fölsuð upprunavottorð áður en þær eru sendar til Bandaríkjanna.
Fyrirtæki sem bjóða upp á þessa þjónustu eru farin að auglýsa á kínverskum samfélagsmiðlum.