Í tilkynningu frá hirðinni kemur fram að starfsmaðurinn sé á þrítugsaldri og hafi verið einn af um 80 starfsmönnum keisarafjölskyldunnar.
The Independent segir að komist hafi upp um starfsmanninn í mars þegar rannsókn hófst á misræmi á milli bókhalds og stöðu reiðufjár í peningaskáp fjölskyldunnar.
Í lok mars hurfu 30.000 jen úr peningaskápnum og þegar rætt var við fyrrgreindan starfsmann, sem hafði nýlokið næturvakt, játaði hann að hafa stolið peningunum. Sagðist hann eiga í fjárhagsvandræðum og þess vegna hafi hann stolið frá keisarafjölskyldunni. Hann játaði að hafa stolið 3,6 milljónum jena frá nóvember 2023 þar til í mars á þessu ári. Hann endurgreiddi peningana um miðjan apríl.
Þjófnaðurinn þykir mjög vandræðalegur fyrir hirðina en eitthvað þessu líkt hefur ekki gerst á síðari tímum.