Colleen, sem var 68 ára, og Mike höfðu keypt sér sjö vikna köfunarfrí ásamt fimm vinum sínum. En fríið endaði hörmulega því Colleen lést en talið er að hákarl hafi banað henni. New York Post skýrir frá þessu.
Leitað var að henni í átta daga, án árangurs. En nokkrum dögum eftir að leitinni var hætt sigldi sjómaður einn fram á hákarl sem virtist ekki vera í góðu standi. Hann aflífaði hann og tók með í land.
„Ég hélt að hákarlinn hefði gleypt plast eða net,“ sagði sjómaðurinn í samtali við The New York Post.
Þegar hann risti kvið hákarlsins upp, sá hann líkamsleifar í svörtum blautbúningi. Samanburður á fingraförum leiddi í ljós að þetta var lík Colleen.
Ferðafélagar hennar eru sannfærð um að hákarlinn hafi ekki banað henni, heldur hafi hún látist af öðrum orsökum og hákarlinn síðan gleypt hana.
Rick Sass, sem var með þeim hjónum í fríinu, sagðist telja að það hafi hvorki verið hákarlinn né aðstæðurnar í sjónum sem hafi orðið Colleen að bana. Þau hafi kafað saman í 30 ár og að Colleen hafi vitað hvað hún var að gera.
Hákarlinn fannst við Austur-Tímor, um 120 kílómetra frá staðnum þar sem Colleen hvarf.