Konan, sem heitir Elliana Madrid, birti myndband á TikTok þar sem hún sést í vinnu sinni við að þrífa hótelherbergi. Hún gengur um og bendir á hluti sem henni hefur aldrei verið sagt að þrífa.
Þessir fimm hlutir eru kaffivélin, yfirdýnan, rúmteppið, púðarnir og koddarnir.
Myndbandið vakti strax mikla athygli á TikTok og fékk mörg hundruð þúsund áhorf og mörg hundruð manns tjáðu sig um það.
„Þetta vil ég ekki vita,“ skrifaði einn.
Fólk, sem segist einnig starfa við þrif á hótelum, hefur einnig tjáð sig og staðfest það sem Elliana segir.
„Ég hef unnið við þrif á fimm stjörnu hótelum og get staðfest að þetta er rétt. Notið aldrei glösin. Það er þurrkað af þeim en þau eru aldrei þrifin almennilega,“ skrifaði einn fyrrum hótelstarfsmaður.
„Ég starfaði áður við þrif og við þrifum ekki teppin, bara lökin og handklæðin. Þetta er bara þvegið ef það eru sýnileg óhreinindi,“ skrifaði annar.
En það er auðvitað rétt að hafa í huga að það er eflaust mikill munur á hótelum þegar kemur að þrifum.