Hin sex ára gamla Olivia Patterson var að leika sér úti þegar hún tók eftir eldi á þaki heimilis síns í North Yorkshire á Englandi. Olivia hljóp inn í húsið þar sem móðir hennar Laura, 29 ára, og yngri systkini Oliviu, Joel-James, eins árs, og Tiffany, tveggja ára, lágu sofandi í sófanum. „Vaknaðu mamma, vektu börnin,“ kallaði Olivia til móður sinnar.
Amma barnanna Sadie Gelder segir Oliviu hetju: „Við erum algjörlega svo stolt af henni. Hún er með ADHD svo hún hefur verið alveg ótrúleg. Við trúum því ekki að Olivia hafi náð Lauru út, hún er sex ára og hljóp inn í brennandi byggingu. Hún leit upp og sá eld loga og hrópaði til móður sinnar: „Vaknaðu mamma, húsið er alelda, vektu börnin.“ Nágrannarnir héldu að enginn væri heima þar sem það var ekki bíl í innkeyrslunni,“ segir Gelder við The Times.
Fjölskyldan missti nánast allar eigur sínar í brunanum og dvelur nú í Airbnb íbúð.
„Þeim tókst að ná í nokkur föt af börnunum en allt annað er farið. Fólk hefur gefið þeim rúm, rúmföt og handklæði. Laura mun fá annað húsnæði frá bænum vonandi, en það eru allir litlu hlutirnir, til að hjálpa henni að byggja lífið upp aftur,“ segir Gelder.
Rannsókn á brunanum stendur yfir en talið er að kviknað hafi í út frá símahleðslutæki sem stungið var í innstungu. Á GoFundMe síðu sem sett var upp til að styðja fjölskylduna af nokkrum af fyrrverandi samstarfsmönnum Lauru hefur safnast um 6300 pund.