Þetta eru hvítkölkuð sumarhús þar sem vikudvöl kostar sem nemur um 600.000 íslenskum krónum á háannatímanum. Gestirnir ættu því að geta gengið að því sem vísu að þar sé friður og ró.
En í byrjun mánaðarins fengu gestirnir óvænta upplifun í kaupbæti. Lögreglumenn ruddust inn og eftir skamman tíma leiddu þeir 44 ára Ítala með sér út. Hann var vel þekktur og vel liðinn af heimamönnum og kom þetta fólki því mjög á óvart.
Hann starfaði sem nuddari og einkaþjálfari á Benen-Diken-Hof og hafði búið á Sild í tæp þrjú ár. Gestirnir og vinnuveitendurnir héldu að maðurinn héti Alessio, en það var var ekki nafnið hans. Hann notaðist við falskt nafn að sögn lögreglunnar.
Þetta kom heimamönnum mjög á óvart því þeir töldu sig þekkja hann ágætlega eftir þriggja ára dvöld hans á Sild. En það gerðu þeir ekki því Alessio hafði logið þá fulla.
Maðurinn heitir Valerio Salvatore Crivello og er meðlimur í ítölsku mafíunni Ndrangheta sem er með höfuðstöðvar á suðurhluta Ítalíu. Ekki nóg með það, því hann er leigumorðingi.
Crivello er ekki bara einhver leigumorðingi úti í bæ. Hann er vel þekktur á Ítalíu en þar tókst honum margoft að blekkja lögregluna meðal annars var hann nálægt því að takast að flýja úr hámarksöryggisfangelsi með þyrlu sem hafði verið rænt.
Að hann skyldi hefja nýtt líf á vinsælum þýskum ferðamannastað var eitthvað sem fæstir Ítalir áttu von á.
Langur ferill
Frá því að hann var handtekinn 4. september hafa þýskir og ítalskir fjölmiðlar lagt mikla vinnu í að afla upplýsinga um hann til að geta fundið svar við hvernig honum tókst að leynast svona lengi. Sérstaklega í ljósi þess að hann telst vera „góðkunningi“ lögreglunnar.
Ekki er vitað með vissu hvenær hann gekk til liðs við mafíuna en talið er að hann hafi framið fyrsta morðið fyrir hana árið 2003, þegar hann var 24 ára, í Paola, sem er lítill ítalskur bær. Þar hafði fimmtugur verktaki og mafíuforingi lent upp á kant við Ndrangheta. Verktakinn, sem hét Pietro Serpa, bjó á hóteli í bænum í lok maí. Þegar hann var að ganga að hótelinu var bíl ekið upp að honum og mörgum skotum skotið að honum úr riffli. Hann lést á vettvangi.
Þetta morð hratt af stað miklu uppgjöri innan mafíunnar og nokkrum mánuðum síðar var staðarleiðtogi Ndrangheta myrtur fyrir framan tvö ung börn sín í hefndarskyni.
Morðið á Pietro Serpa var óupplýst árum saman en 2012 var Crivello handtekinn grunaður um það. Hann var þá fluttur heim til foreldra sinna, í bæinn Preganziol sem er norðan við Feneyjar. Í staðinn fyrir að stunda afbrot starfaði hann nú í matvöruverslun. Eftir handtökuna skrifaði Il Gazzetino að hann hafi látið lítið fyrir sér fara en hafi enn verið í sambandi við Ndrangheta sem hann hafði tekið að sér morð fyrir gegn greiðslu. Sagði blaðið að lögreglan teldi hann vera „sofandi leigumorðingja“.
2012 tókst lögreglunni að handtaka æðsta yfirmann Crivello í Ndrangheta. Hann heitir Ettore Lanzino.
Árið 2017 áttu stjórnsýslumistök sér stað og Crivello fékk heimild til að afplána restina af dómi sínum heima hjá foreldrum sínum en hann þurfti að vera með rafrænan eftirlitsbúnað á öðrum fætinum. Hann átti langan dóm yfir höfði sér fyrir morð og skömmu áður en mál hans átti að koma fyrir dóm reyndu yfirvöld að koma honum aftur á bak við lás og slá. En það var um seinan. Þegar lögreglumenn komu heim til hans fundu þeir aðeins rafræna eftirlitsbúnaðinn sem hafði verið sagaður í sundur og skilinn eftir á akri nærri Feneyjum.
Mál hans var samt sem áður tekið fyrir hjá dómstólnum og var hann dæmdur í ævilangt fangelsi en yfirvöld töldu ekki miklar líkur á að hann myndi afplána refsinguna því það var eins og hann hefði horfið af yfirborði jarðar.
Nýtt líf
Þýskir fjölmiðlar segja að hann hafi flúið á brott á reiðhjóli og síðan notað almenningssamgöngur til að komast til Sild.
Hann sagði vinnuveitanda sínum þar að hann hefði verið hermaður í ítalska hernum og hefði tekið þátt í friðargæsluverkefnum allt þar til 2013. Eftir það sagðist hann hafa átt eigin líkamsræktarstöð í Torino en hún hefði farið á hausinn í heimsfaraldri kórónuveirunnar og að hann vildi bara hefja nýtt líf í Þýskalandi.
Og segja má að það hafi honum tekist.
Undir nafninu Alessio fékk hann starf sem lífvörður við á ströndinni á Sild og síðan sem einkaþjálfari og nuddari á Benen-Diken-Hof.
Bild hefur eftir einum gestanna að hann hafi verið mjög vinsæll. Segir blaðið einnig að hann hafi verið mjög nærri því að fá nýtt starf sem forstöðumaður líkamsræktarstöðvar á nýjum lúxusdvalarstað á Sild.