Cauchy, sem er 36 ára og starfar sem kennari og tennisþjálfari, bar nýlega vitni fyrir rannsóknarnefnd franska þingsins. Þar sagði hún að Geddes hafi byrjaði að beita hana kynferðislegu ofbeldi tæpum tveimur mánuðum eftir að hann tók við þjálfun hennar. The Sun skýrir frá þessu.
„Ég sagði við hann: „Nei, þú mátt þetta ekki. Þetta er rangt, ég vil þetta ekki“ og hann svaraði: „Þú veist að stundum endar þetta með sambandi á milli þjálfara og nemanda. Við eyðum svo miklum tíma saman, þetta er eðlilegt“. En ég vildi þetta ekki, hann var á aldur við móður mína,“ sagði hún.
Hún sagði að það hafi ekki verið neitt leyndarmál í tennisheiminum að Geddes hafi ekki komið vel fram við ungar stúlkur en það var litið fram hjá því af því að hann náði árangri.
Cauchy ræddi um 15 daga æfingabúðir í La Baule. Það sem hún upplifði þar var svo hræðilegt að hún íhugaði að taka líf sitt. „Þetta voru verstu tvær vikur lífs míns. Ég hugsaði margoft um að taka líf mitt. Hann nauðgaði mér þrisvar á dag. Fyrstu nóttina spurði hann hvort ég kæmi ekki inn í herbergið hans en það gerði ég ekki, svo hann kom inn í mitt. Það var verra. Mér leið eins og ég væri í fangelsi,“ sagði hann.
Frá því að hún var 13 ára þar til hún varð 18 ára hélt hún að hún hefði smitast af HIV af Geddes.
Hún telur að frá því að hún var 12 ára og þar til hún varð 14 ára hafi Geddes nauðgað henni 400 sinnum.
Hann var dæmdur í 18 ára fangelsi 2021 fyrir að hafa nauðgað fjórum stúlkum á aldrinum 12 til 17 ára.