Focus og Bild Zeitung skýra frá þessu og segja að á föstudaginn hafi saksóknari í Kassel tilkynnt að tvítugur maður hafi verið handtekinn, grunaður um að hafa banað stúlkunni, sem hét Marie Sophie. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin fyrir minniháttar afbrot. Hann hafði ítrekað komið heim til stúlkunnar og gefið sig að henni.
Fyrstu yfirheyrslur yfir honum og rannsókn á högum hans og heimili styðja kenningu lögreglunnar um að hann hafi myrt Marie Sophie. Þess utan var hann með síma hennar í fórum sínum þegar hann var handtekinn.
Móðir Marie Sophie sagði í samtali við RTL að hana hafi allan tímann grunað manninn um aðild að hvarfi hennar. „Ég sagði um leið að þetta hlyti að vera hann. Hann var heltekinn af henni,“ sagði hún og sagði erfitt að sætta sig við að hann hafi meira að segja tekið þátt í leitinni að henni.
Hún sagði að Marie Sophie og maðurinn hafi hist en þau hafi ekki verið vinir.
Íbúar Bad Emstal eru að vonum í miklu áfalli vegna málsins sagði Stefan Frankfurht, bæjarstjóri.
Morðið vakti upp minningar um morðið á hinni 14 ára Ayleen frá Freiburg í sumar. Lík hennar fannst í vatni eftir margra daga leit. Þrítugur maður hefur verið dæmdur í ævilangt fangelsi vegna þess máls.