Jerry Seinfeld, sem þáttaröðin er kennd við, kom fram í Wang leikhúsinu í Boston á laugardaginn með uppistand. Óhætt er að segja að hann hafi komið áhorfendum á óvart.
Hann lét ummæli falla sem má skilja á þann veg að hugsanlega sé þáttaröðin að snúa aftur, að minnsta kosti með nýjan lokaþátt. NBC Boston skýrir frá þessu.
Á uppistandinu bauð Seinfeld áhorfendum að spyrja spurninga. Barst umræðan þá að þáttaröðinni vinsælu og þeirri staðreynd að áhorfendur voru almennt séð ekki mjög hrifnir af lokaþættinum. Einn áhorfendanna spurði Seinfeld því hvað honum fyndist sjálfum um lokaþáttinn.
„Já, ég er með smá leyndarmál fyrir þig um lokaþáttinn. En ég get eiginlega ekki sagt þér frá þessu, því þetta er leyndarmál. En það sem ég get sagt, mátt þú ekki segja neinum. Það mun eitthvað gerast sem tengist lokaþættinum, sem hefur ekki gerst enn,“ sagði Seinfeld.
Lokaþátturinn var sýndur í tveimur hlutum og sneru margir af fyrri persónum þáttanna aftur í þeim. Þátturinn hefur oft verið sagður versti endirinn á nokkurri þáttaröð.