Það hefur ekki verið vitað með fullri vissu hver tilgangurinn með tíðahvörfum er en vitað er að það er ákveðinn þróunarlegur ávinningur af því að kvendýr glími við tíðahvörf með tilheyrandi hitaköstum, skapsveiflum og andvökunóttum.
NRK segir að þetta komi fram í nýju rannsókninni. Vísindamenn fylgdust með hópi háhyrninga og komust að því að elsta kvendýrið, sem er ekki lengur frjótt, gegnir lykilhlutverki við að vernda ungu dýrin.
„Þau kenna til dæmis yngri fjölskyldumeðlimum hvar þau geta fundið mat og hvernig þau eiga að veiða mismunandi bráð til að auka líkurnar á að lifa af,“ sagði Eva Jourdain, fremsti sérfræðingur Norðmanna í háhyrningum, í samtali við NRK.
Hún sagði að fyrri rannsóknir hafi bent til að möguleikar háhyrninga á að lifa af aukist 4,5 sinnum ef þeir hafa eldri háhyrninga, sem eru ekki lengur frjóir, til að hugsa um þá. Það að háhyrningarnir hafa gengið í gegnum tíðahvörf þýðir að þeir geta beint meiri orku í að hjálpa hópnum frekar en að leita sér að dýri til að makast við.
„Í háhyrningahópum leika kvendýrin lykilhlutverk og það getur hafa valdið því að þau lifa lengur og ganga í gegnum tíðahvörf,“ sagði hún og benti á að háhyrningar geta orðið allt að 90 ára. Þeir eru ófrjóir um helminginn af þessum tíma.
En það eru ekki bara háhyrningar sem hafa þörf fyrir ástríka og verndandi afa og ömmur, því hægt er að tengja hluta af rannsókninni á háhyrningunum við fólk. Við eigum ýmislegt sameiginlegt með háhyrningum. Auk þess að vera meðal fárra dýrategunda sem lifa lengi eftir að við hættum að fjölga okkur, þá eru bæði háhyrningar og fólk greind dýr sem lifa í hópum.