Erin býr í húsinu ásamt tveimur börnum sínum. Hún var algjörlega óþekkt þar til að málið kom upp laugardaginn 29. júlí. Nú er nafn hennar og myndir af henni á forsíðum ástralskra dagblaða og lögreglan reynir að komast að hvað gerðist í eldhúsi Erin þennan örlagaríka dag.
Þrír af matargestunum eru látnir. Þeir létust af völdum sveppaeitrunar. Fjórði gesturinn liggur á gjörgæslu og er í lífshættu.
En svo ótrúlegt sem það nú er, þá kom ekkert fyrir Erin eða börn hennar. Af hverju kom ekkert fyrir þau á sama tíma og þrír gestir þeirra létust og sá fjórði er við dauðans dyr? Það er spurningin sem lögreglan reynir að svara.
Erin segist hafa elskað tengdamóður sína jafn mikið og móður sína og að gestirnir fjórir séu „besta fólkið sem ég hef nokkru sinni þekkt“.
„Ég gerði ekkert. Ég elskaði þau. Ég skil ekki hvað gerðist,“ sagði hún við blaðamenn á mánudaginn en þeir höfðu safnast saman við heimili hennar.
Tengdaforeldrarnir, Gail og Don Patterson sem voru bæði sjötug, bjuggu í litlum bæ í 10 km fjarlægð frá heimili Erin. Don var prestur þar.
Með þeim í för þennan örlagaríka dag voru Heather Wilkinson, 66 ára systir Gail, og eiginmaður hennar, Ian Wilkinson, 68 ára.
Ekki er vitað hvað gerðist nákvæmlega þegar fólkið snæddi hádegisverðinn og ekki liggur fyrir hvað var borið á borð. En hins vegar liggur fyrir að aðeins nokkrum klukkustundum eftir máltíðina voru allir gestirnir fjórir farnir að finna til magaverkja.
Þeir fengu einkenni matareitrunar og heilsu þeirra hrakaði svo að leggja varð þá inn á sjúkrahús á sunnudeginum. Einkennin héldu áfram að versna eftir að á sjúkrahúsið var komið og læknar komust að þeirri niðurstöðu að gestirnir hefðu líklega borðað eitraða sveppi.
Nánar tiltekið þá óttuðust læknarnir að fólkið hefði innbyrt sveppi af tegundinni amanita phalloides en þeir vaxa villtir nærri Melbourne. Þeir eru baneitraðir og fólk á á hættu að deyja þótt það borði bara örlítið af þeim. Ástæðan er að eitrið í þeim eyðileggur lifrina.
Sjúkdómseinkenni fólksins pössuðu við þekkt eitrunareinkenni af völdum sveppsins en það eru niðurgangur, magaverkir, svimi og uppköst í nokkra daga. Þá gerist það yfirleitt að fólk fer að sýna batamerki en þá gerist það oft að lifrin lætur undan og fólk deyr.
Systurnar Gail og Heather létust á föstudaginn og Don á laugardaginn. Ian er enn á lífi en í lífshættu og bíður eftir lifrarígræðslu.
En eins og áður sagði þá amar ekkert að Erin og börnum hennar. Þau hafa ekki sýnt nein einkenni eitrunar.
Hvernig stendur á því að Erin og börnin hafa ekki veikst en gestirnir eru annað hvort látnir eða í lífshættu? Þetta er spurningin sem lögreglan og Ástralar velta fyrir sér.
Dean Thomas, sem stýrir rannsókn lögreglunnar á málinu, sagði á fréttamannafundi á mánudaginn að lögreglan útiloki ekki að eitthvað saknæmt hafi getað átt sér stað.
The Age segir að þegar hann var spurður hvort Erin lægi undir grun, svaraði hann: „Já, það er hún af því að hún eldaði matinn.“
Hann sagði ekki ljóst hvort Erin hafi borðað matinn og ekki er vitað hvort sveppirnir voru í matnum eða hvort gestirnir hafi innbyrt þá á annan hátt.
Lögreglan segir að svo virðist sem börn Erin hafi borðað eitthvað annað en hinir fullorðnu og það skýrir þá af hverju þau veiktust ekki. Þau eru nú í umsjón barnaverndaryfirvalda.
Ástralskir fjölmiðlar hafa reynt að fá Erin til að svara hvað hún bar á borð fyrir gestina en hún hefur ekki svarað því né hvaðan sveppirnir komu.
Lögreglan gerði húsleit heima hjá henni og segir Sydney Morning Herald að hald hafi verið lagt á vél sem er notuð til að þurrka matvæli. Er að sögn verið að rannsaka hana og leita að sönnunargögnum.
Ýmsar upplýsingar hafa komið fram sem hafa kynt undir vangaveltum um hugsanlega ástæðu fyrir morðunum, ef Erin myrti fólkið.
Það heyrir nefnilega til sögunnar að Erin var skilin að borði og sæng. Samband hennar og eiginmannsins, Simon Patterson, var þó að sögn gott og hún átti í góðu sambandi við fjölskyldu hans.
En sumarið 2022 veiktist Simon illa, fékk mikla magaverki, einkennin líktust eitrun. Hann skýrði frá þessu á Facebook á þeim tíma og skrifaði að hann hefði verið nálægt því að deyja: „Ég hrundi niður heima og var haldið sofandi í 16 daga. Á þeim tíma voru gerðar þrjár neyðaraðgerðir á smáþörmunum og ein áður ákveðin aðgerð. Fjölskyldan var tvisvar kölluð á sjúkrahúsið til að kveðja mig því ekki var talið að ég myndi lifa af.“
Hann lá á gjörgæslu í 21 dag en fór þá að batna hægt og bítandi.
Ekki hefur komið fram hver orsök magaverkjanna var og hann hefur ekki tjáð sig við fjölmiðla.
Það er auðvitað ekki hægt að útiloka að tilviljun hafi ráðið því að gestirnir veiktust og létust en flestum þykir ólíklegt að svo sé.