Daily Star segir að Carter hafi komist í samband við konu í gegnum stefnumótaapp og hafi boðið henni og unnusta hennar, Tim Ivy, heim til sín í Evansville í Indiana þann 19. október 2019. Þau drukku áfengi og notuðu fíkniefni áður en þau byrjuðu að stunda kynlíf.
Þegar kynlífið stóð yfir gekk Carrey Hammond, unnusti Carter, inn á þremenningana. Hann reiddist mjög. Að sögn gestkomandi konunnar þá greip hann í Ivy og byrjaði að lemja hann með hafnarboltakylfu.
Hammond notaði síðan límband til að festa hendur þeirra og fætur. Því næst lamdi hann þau og misþyrmdi klukkustundum saman.
Konan sagði fyrir dómi að Carter hafi hjálpað honum og hafi ítrekað hótað að drepa þau og beint byssu að þeim. Hún sagði einnig að Carter hafi beint byssu að höfði hennar á meðan Hammond nauðgaði henni ítrekað og hafi Carter sagt honum að gera „það sem hann vildi við hana“.
Carter er síðan sögð hafa yfirgefið húsið í nokkrar klukkustundir en á meðan hélt Hammond áfram að lemja þau og nauðga konunni. Að lokum notaði hann belti til að kyrkja Ivy eftir að hann reyndi að flýja.
Upp komst um ódæðisverkin þegar kona, sem hafði verið ráðin til að þrífa húsið, fann konuna bundna og illa farna.
Hreingerningarkonan fékk sér sæti á því sem hún hélt vera teppahrúgu en reyndist vera teppi sem hafði verið breytt yfir lík Ivy.
Þegar lögreglan kom á vettvang tók Hammond á móti lögreglumönnum utanhúss. Hann hélt á hlut sem líktist skammbyssu og brugðust lögreglumenn við með því að skjóta hann til bana.
Carter var handtekinn og hefur verið í varðhaldi síðan. Í yfirheyrslum sagðist hún hafa þóst hjálpa Hammond og hafi beint byssunni að fórnarlömbunum til að friða hann.
Hún var nýlega fundin sek um fjölda ákæruatriða og á áratugalangan fangelsisdóm yfir höfði sér.