Allt frá fæðingu virtist sem lífið væri hreinlega á móti Grace Packer.
Hún fæddist árið 2001, dóttir hjónanna Rodney og Rose Hunsicker, og var skírð Susan. En barnaverndaryfirvöld fjarlægðu Susan og systkini hennar tvö af heimilinu þegar þau voru afar ung.
Var talið að foreldrar systkinanna gætu ekki séð um þar sem móðir þeirra stríddi við geðræn vandamál og faðir þeirra átti við námsörðugleika að stríða.
Voru þau því sett á fósturheimili í Pennsylvaniufylki.
Ættleiðing til helvítis
Susan var ættleidd af Söru Parker og manni hennar, David Packer þegar hún var þriggja ára og endurnefndu þau hana Grace. Þau ættleiddu einnig eins árs gamlan bróður hennar og virtist lífið loksins brosa við litlu stúlkunni.
Sara og David höfðu verið fósturforeldrar fjölda barna frá árinu 2000. Ekki aðeins voru þau með prýðileg meðmæli frá barnaverndaryfirvöldum heldur starfaði Sara sem ættleiðingarráðgjafi.
Samkvæmt öllu virtust Sara og David vera hinir fullkomnu foreldrar.
Þegar að Sara og David ættleiddu Grace og bróður hennar árið 2004 voru fleiri börn á heimilinu, allt fósturbörn.
En Sara og David gerðu aftur á móti augljóslega upp á milli barnanna, litli bróðir Grace var uppáhaldið en hún var aftur á móti neðst í goggunarröðinni. Hún var lamin, það var öskrað á hana og hún fékk minna að borða en hin börnin. Reyndar var komið illa fram við öll börnin en Söru virtist einstaklega í nöp við Grace.
Símtalið
Næstu sex ár voru Grace, og börnunum öllum, erfið þrátt fyrir glimrandi umsagnir yfirvalda um hæfi Söru og David.
Það breyttist þó árið 2010 þegar að lögregla fékk símtal frá einni af fósturdætrunum. Stúlkan var á táningsaldri og hafði hún ljótar sögur að segja um David, meðal annars að hann legði í vana sinn að binda hana við rúmið, ljósmynda nakta og misþyrma kynferðislega.
Lögregla fann ljósmyndirnar á síma David sem játaði ekki bara að hafa brotið á stúlkunni sem hringdi, heldur svo að segja öllum sínum fósturdætrum. Þeirra á meðal var Grace sem hann viðurkenndi að hafa misnotað frá fimm ára aldri.
David var dæmdur til 18 mánaða til fimm ára fangelsisvistar og Sara umsvifalaust rekin úr starfi sínu sem ráðgjafi við ættleiðingar, henni bannað að starfa sem fósturforeldri og þau fósturbörn sem voru á heimilinu fjarlægð.
Eins illskiljanlegt og það er voru þó Grace og bróðir hennar ekki fjarlægð af heimilinu þar sem Sara hafði ættleitt þau.
Úr einu helvítinu í annað
Sara og David skildu fljótlega eftir dóminn yfir honum.
Sara hóf fljótlega sambúð með nýjum manni, Jacob Sullivan.
Þann 11. júlí 2916 tilkynnti Sara til lögreglu að Grace væri horfin. Hún var þá 14 ára gömul.
Sara sagði Grace erfiðan ungling, þær hefðu rifist heiftarlega og sennilegast hefði Grace hlaupist að heiman og í þokkabót stolið 300 dollurum.
En meira fékkst ekki upp úr Söru og lögreglu fannst eitthvað ekki ganga upp. Af hverju var móðirin þetta áhugalaus um hvarf dóttur sinnar? Af hverju neitaði hún að svara fleiri spurningum?
Nokkrum dögum síðar mætti Sara á lögreglustöðina með bréf sem hún sagðist hafa fengið frá Grace. Í bréfinu sagðist Grace hafa farið að heiman og myndi ekki snúa heim.
En fullir grunsemda létu lögregluyfirvöld kalla bréfið og reyndist skriftin ekkert lík skrift Grace.
Sara gerði sér heldur enga greiða með að sækja örorkubætur Grace um hver mánaðamót.
Játningin
Í október sama ár fannst búkur og höfuð í skógi utan við bæinn. Reyndust það vera líkamsleifar Grace.
Lögregla fékk enn meiri áhuga á Söru í kjölfarið og fékk húsleitarheimild. Á heimilinu fannst kvittun fyrir öflugri sög og tveimur aukablöðum og eftirlitsmyndavélar sýndu að Sara hafði keypt sögina í júlí. Það var augljóst að líkami Söru hafði verið sagaður í sundur. Aftur á móti fannst sögin hvergi.
Þá barst allt í einu símtal frá konu sem sagðist vera í fjölkæru sambandi við Söru og Jacob. Var hún stödd á heimili þeirra og væru þau bæði meðvitundarlaus.
Sjúkrabílar voru sendir á staðinn og reyndust bæði Sara og Jacob hafa reynt að taka líf sitt með svefntöflum.
Það var pumpað upp úr þeim og þegar að Jacob fékk meðvitund játaði hann skelfilegan verknað. Sagðist hann hafa farið, ásamt Söru, með Grace í eina af þeim íbúðum sem parið átti og leigði út, byrlað henni ólyfjan, lamið hana, bundið og keflað.
Jacob nauðgaði síðan Grace á meðan að Sara horfði á.
Þau skildu síðan stúlkuna eftir, lyfjaða og bundna, með stórfellda áverka.
Kynferðislegar fantasíur
Daginn eftir fóru þau að kanna hvort Grace væri ekki örugglega látin, eins og þau vonuðu. En svo var ekki. Grace hafði á einhvern undraverðan hátt náð að losa sig og flýja. Hún hafði aftur á móti ekki komist langt og var parið fljótt að finna Grace, fara aftur með hana í íbúðina þar sem Jacob kyrkti stúlkuna.
Parið fór heim með líkið af Grace og huldi það kattasandi til að koma í veg fyrir að nályktin fyndist. Sara keypti þá sögina og skar parið líkið af Grace í sundur og fór með út í skóg þar sem það fannst þremur mánuðum síðar.
Sara og Jacob voru handtekin og við yfirheyrslur viðurkenndu þau að hafa lengi rætt sín á milli kynferðislegar fantasíur um morð á Grace.
Þau sögðu Grace hafa verið vanþakklátt og leiðinlegt barn sem þau vildi ekki lengur hafa á heimilinu. Þau voru aftur á móti meira en viljug að halda áfram að fá opinberar greiðslur hennar.
Sara viðurkenndi að hafa boðið Jacob að misnota Grace kynferðislega þar sem hún var hrædd um að hann færi frá henni fyrir yngri konu.
Í tölvu Söru fundust einnig skilaboð á milli hennar og karlmanna þar sem hún bauð þeim „hreina mey“ gegn greiðslu.
Sara játaði að Grace hefði grátbeðið hana um hjálp þegar að Jacob réðst á hana en hún svarað að hún gæti ekkert, það væri of seint.
Dómur og ný löggjöf
Jacob játaði morðið á Grace og var dæmdur til dauða. Hann lést í fangelsi af náttúrulegum orsökum í apríl 2020. Sara játaði einnig á sig morðið og var dæmd í lífstíðarfangelsi. Henni var sleppt við dauðarefsingu þar sem hún vitnaði gegn Jacob.
Í síðasta mánuði komu ný lög til framkvæmda í Pennsylvaníu-fylki sem eiga að auka öryggi fósturbarna.
Meðal þess sem í nýju löggjöfinni er að finna er gerð gagnabanka sem að öll barnaverndaryfirvöld hafa aðgengi að en svo var ekki áður. Til að mynda hafði Sara oft flutt með Grace á milli sýslna í Pennsylvaniu fylki, ekki síst þegar að barnaverndaryfirvöld voru farin að koma of oft í heimsókn, að hennar mati. En sýslurnar deildu ekki með sér gögnum og því kom Sara alltaf tandurhrein út á nýjum stað. Í lögunum er einnig að finna ákvæði um að skýrslur séu varðveittar í 30 ár. Áður var þeim eytt eftir aðeins eitt ár og voru því langflestar skýrslur um grun barnaverndaryfirvalda í garð Söru ekki lengur til.
Lögin eru nefnd í höfuðið á Grace Packer.