Til eru þeir sem játa að þeir laðist að öðru fólki þrátt fyrir að þeir séu í föstu sambandi og svo eru þeir sem halda því fram að þeir laðist ekki að öðru fólki þegar þeir eru í föstu sambandi. En sem betur fer er langt frá hugsun til framkvæmda og það er líklega gott fyrir karla og maka þeirra.
Niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Swansea háskólann í Wales sýnir að karlar verða áhugasamari um skyndikynni þegar þeir eru kynferðislega örvaðir og gildir þá einu þótt þeir séu í föstu sambandi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá háskólanum að sögn Videnskab.dk. Fram kemur að vísindamennirnir hafi gert ýmsar tilraunir til að rannsaka hvaða áhrif kynferðisleg örvun hafði á óskir karla um rekkjunaut.
Sumum þykja niðurstöðurnar væntanlega sláandi því þegar karlarnir örvuðust kynferðislega jókst áhugi þeirra á afslöppuðum kynferðislegum samböndum (skyndikynnum) og um leið dvínaði áhugi þeirra á föstum maka.
Vísindamennirnir könnuðu ýmsa þætti, til dæmis hvort karlarnir væru í föstu sambandi, klámnotkun þeirra og persónuleika. En ekkert af þessu skipti máli hvað varðaði niðurstöðuna.
Aukinn áhugi karlanna á skammvinnu kynferðislegu sambandi var eingöngu afleiðing af að blóðið streymdi frá einu höfði til annars.