Þann 23 maí síðastliðinn var Vyvianna Quinonez farþegi í flugi Southwest frá Sacramento til San Diego. Þegar flugvélin fór að nálgast áfangastað og byrjaði að lækka flugið bað flugfreyja Quinonez um að festa sætisbeltið sitt, setja borðið sitt upp og setja grímuna sína almennilega á sig. Quinonez tók vægast sagt ekki vel í þessar skipanir frá flugfreyjunni en hún stóð upp, ýtti flugfreyjunni frá sér og kýldi hana í andlitið.
Maður sem var farþegi í fluginu steig þá á milli þeirra beggja og sagði Quinonez að setjast aftur niður. Í myndbandi sem náðist af atvikinu má sjá flugfreyjuna með blóðugt andlit eftir höggin frá Quinonez. Flugfreyjan þurfti að láta sauma fjögur spor eftir höggin en þá voru þrjár tennur hennar einnig brotnar, skipta þurfti út tveimur þeirra fyrir krónur.
Quinonez, sem er 28 ára gömul, hefur nú játað að hafa ráðist á flugfreyjuna, hún gat eflaust lítið annað gert þar sem í myndbandinu má sjá hana gera nákvæmlega það. Árásin hefur afleiðingar fyrir hana en búist er við að hún muni þurfa að sitja í fangelsi í fjóra mánuði auk 6 mánaða í stofufangelsi. Þá verður henni líklega bannað að stíga fæti um borð í almenningsflugvélar í þrjú ár.
Myndband af barsmíðunum má sjá hér fyrir neðan: