Þriðjudagur 09.mars 2021
Pressan

Hryllingurinn í ísbúðinni – „Hef aldrei upplifað neitt þessu líkt“

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 20. janúar 2021 05:24

Frá brunavettvangi. Skjáskot/CBS

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frosin jógúrt hefur á síðustu áratugum sótt í sig veðrið á Norðurlöndunum sem hollari valkostur en ís. Fyrirbærið á bak við þessa hugmynd á rætur að rekja til Bandaríkjanna en 1977 var keðjan „I Can‘t Belive It‘s Yogurt!“ stofnuð í Austin í Texas. 14 árum síðar dróst nafn keðjunnar inn í hræðilegt mál þegar fyrsta búð keðjunnar brann en það gerðist þann 6. desember 1991. Þegar tekist hafði að slökkva eldinn gerði lögreglan hryllilega uppgötvun í brunarústunum, þar fundust fjögur lík. Áratugum saman hefur málið verið kallað „The Austin Yogurt Shop Murders“.

Vinkonur

Jennifer og Sarah Harbison, voru 17 og 15 ára systur fæddar í Texarkana. Bæjarnafnið er dregið af nálægð hans við nágrannaríkið Arkansas. Þegar foreldrar þeirra skildu 1979 flutti móðir þeirra til Austin með systurnar. Þær hófu nám við kristinn einkaskóla en Jennifer vildi meiri spennu í lífið og skipti um skóla og fór í opinberan skóla. Þar kynntist hún jafnöldru sinni, Eliza Thomas, og urðu þær nánar vinkonur. Tveimur árum síðar hóf Sarah nám við sama skóla. Allar þrjár stúlkurnar voru virkar í ungmennasamtökunum Future Farmers of America. Í þeim kynntust þær Amy Ayers, 13 ára, en hún gekk í annan skóla.

Jennifer vissi hvað hún vildi og var dugleg. Hún byrjaði að vinna með námi til að geta fjármagnað nám sitt í framtíðinni. Hún tók vaktir í matvöruverslun en fljótlega benti Eliza henni á starf í ísbúð, „I Can‘t Believe It‘s Yogurt!“, í bænum þar sem frosið jógúrt var selt.

Nú voru þær saman í skóla og unnu á sama stað. Eliza hafði unnið í ísbúðinni í marga mánuði áður en Jennifer hóf störf.

Dularfullir menn

Þegar tæpar þrjár vikur voru til jóla og aðeins um vika í jólafrí í skólanum áttu vinkonurnar kvöldvakt, þetta var 6. desember 1991. Þær áttu að sjá um að loka ísbúðinni og ganga frá eftir lokun. Sarah og Amy ætluðu að hjálpa þeim en þær ætluðu að gista saman þessa nótt og ætluðu heim með Jennifer eftir lokun.

Margir viðskiptavinir komu um kvöldið. Sarah og Amy keyptu sér pitsu og fóru með í ísbúðina. Um klukkan 21.30 kom móðir Eliza þangað og keypti frosna jógúrt og stoppaði í nokkrar mínútur og talaði við stúlkurnar. Hún kvaddi þær síðan, óafvitandi um þann hrylling sem átti sér stað um 90 mínútum síðar.

Stúlkurnar fjórar sem voru myrtar.

Síðustu skráðu viðskiptin í sjóðvélinni voru klukkan 22.42, 17 mínútum fyrir lokun. Síðustu viðskiptavinirnir voru ungt par. Þau tóku eftir að ein af stúlkunum setti stóla upp á borð áður en hún byrjaði að skúra. Þau sáu einnig tvo menn sem sátu í einu horni ísbúðarinnar. Annar var frekar grannur en hinn frekar karlmannlegur í vexti.

Eldur

Þegar leið að miðnætti sá ungur lögreglumaður, sem var á eftirlitsferð, reyk stíga upp frá ísbúðinni. Þetta var klukkan 23.47, um klukkustund eftir að síðustu viðskipti kvöldsins áttu sér stað í ísbúðinni. Slökkviliðið kom á vettvang. Þegar slökkviliðsmenn komu að húsinu var skilti í útidyrahurðinni sem á stóð „CLOSED“ og ljósin voru slökkt. Slökkviliðsmenn brutu sér leið inn og hófu slökkvistarfið. Þegar logarnir fóru að minnka fengu þeir betri yfirsýn yfir ísbúðina. „Er þetta fótur?“ spurði einn þeirra.

Bundnar og nauðgað

Inni í ísbúðinni fundust stúlkurnar fjórar látnar. ElizaSarah og Jennifer voru við ólæstar bakdyrnar. Lík Eliza og Sarah höfðu verið sett í stafla en lík Jennifer var við hliðina. Lík Amy var framar í búðinni. Allar höfðu þær verið skotnar í hnakkann.

Eliza og Sarah höfðu verið bundnar og keflaðar með eigin fatnaði. Mörgum stúlknanna hafði verið nauðgað. Hendur Jennifer voru fyrir aftan bak en hún var ekki bundin.

Biðlað var til almennings um upplýsingar í málinu. Skjáskot/kvue.com

Lík Amy var mjög skaddað eftir eldinn og hún var með þriðja stigs brunasár á 30% líkamans. Hún hafði verið skotin tveimur skotum í höfuðið því fyrra skotið hafði líklega ekki banað henni. Scott Cary, lögreglumaður, sagði að það sem blasti við í ísbúðinni hafi verið það versta sem hann hafði séð. „Ég hef verið lögreglumaður í 10 ár og búið í Austin í 20 ár. Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt,“ sagði hann fljótlega eftir morðin.

Kenning lögreglunnar var að stúlkunum hefði verið staflað ofan á hver aðra en að Amy hafi náð að skríða á brott og lík Jennifer hafi dottið niður við hliðina á hinum. Allar voru þær látnar áður en kveikt var í.

Rannsóknin

Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að klukkan 23.03, þremur mínútum eftir lokun, var sjóðvélin opnuð. Engin sala var skráð en úr henni hvarf þá öll sala kvöldsins, 540 dollarar.

Eldurinn hafði líklegast verið kveiktur í eldhúsinu og hann var svo mikill og hitinn svo mikill að tennur og skartgripir stúlknanna bráðnuðu. Kveikjarabensín fannst við lík stúlknanna.

Allir stólarnir í búðinni voru uppi á borði þegar slökkviliðið kom á vettvang nema þeir tveir sem mennirnir, sem parið sá sitja úti í horni, höfðu setið á.

Um miðjan desember lýstu lögreglan og alríkislögreglan FBI eftir morðingjunum og opinberuðu þær upplýsingar sem fyrir lágu um þá. Lögreglan var sannfærð um að tveir hefðu verið að verki og að þeir væru staðkunnugir. Mikið af sönnunargögnum eyðilagðist í eldinum og við slökkvistarfið og það gerði lögreglunni erfitt fyrir. Heil átta ár liðu þar til einhver var handtekinn vegna málsins.

Handtökur

Þann 6. október 1999 boðuðu lögreglan í Texas og Vestur-Virginíu til fréttamannafundar um morðin í ísbúðinni tæpum átta árum áður. Tilefnið var að fjórir höfðu verið handteknir vegna málsins. Þetta voru Robert Burns Springsteen Jr., 24 ára, Maurice Pierce, 24 ára, Michael James Scott, 25 ára, og Forrest Wellborn, 24 ára. Þeir voru 17, 16 og 15 ára þegar morðin voru framin.

Í yfirheyrslu þann 9. september hafði Scott játað að hafa tekið þátt í morðunum. „Ég man að ég sá eina af stúlkunum. Síðan heyrði ég byssuskot. Ég hleypti bara einu sinni af. Ég heyrði annað skot. Ég held að ég hafi heyrt fimm skot,“ sagði hann.

Springsteen játaði að hafa skotið eina stúlkuna og að hafa nauðgað henni. Báðir lýstu þeir morðunum í smáatriðum og komu með upplýsingar sem aðeins morðingjarnir hefðu getað vitað.

Robert Burns Springsteen, Jr., Maurice Earl Pierce, Forrest Brook Wellborn og Michael James Scott.

Wellborn var 15 ára þegar morðin voru framin en samt sem áður átti að rétta yfir honum sem fullorðnum. Eftir að hafa haldið fram sakleysi sínu í fjögur ár var málið gegn honum fellt niður vegna skorts á sönnunum en áður höfðu saksóknarar tvisvar reynt að ákæra hann. Pierce var einnig laus allra mála 2003 eftir að tvisvar hafði verið reynt að ákæra hann. Það voru því aðeins ákærur á hendur Scott og Springsteen sem voru teknar fyrir dóm.

Springsteen var dæmdur til dauða 2001 fyrir morðin á ElizaAmySarah og Jennifer. Ári síðar var Scott dæmdur í ævilangt fangelsi. Hann slapp við dauðadóm þar sem kviðdómurinn komst ekki að einróma niðurstöðu.

Hæstiréttur breytti dauðadómi Springsteen í ævilangt fangelsi 2005 þar sem lögum var breytt á þá leið að ekki mátti taka fólk af lífi fyrir afbrot sem það framdi áður en það varð 18 ára.

Nýjar vendingar

2008 dró enn á ný til tíðinda í málinu. Þá fóru verjendur Scott og Springsteen fram á DNA-rannsókn því þeir töldu að lögreglan hefði þvingað skjólstæðinga þeirra til að játa á sig sök 1999.

Ný rannsókn leiddi í ljós að erfðaefni úr óþekktum manni var á líki Ayers en engin erfðaefni úr fjórmenningunum fundust á líkum stúlknanna. Lögreglan gat því ekki sannað að þeir hefðu verið í ísbúðinni þegar þær voru myrtar. Fimmtudaginn 24. júní  1999 gengu Springsteen og Scott út úr fangelsinu í Travis í Austin og voru frjálsir menn eftir að hafa setið í fangelsi í tíu ár. Fjórum mánuðum síðar var fallið frá öllum ákærum á hendur þeim.
Lögreglan stóð eftir með lítið sem ekkert til að vinna út frá nema DNA úr karlmanni sem ekki er vitað hver er.

Skotinn til bana af lögreglunni

Maurice Pierce komst aftur á forsíðu bandarískra dagblaða 2010. Þá hunsaði hann stöðvunarmerki lögreglunnar og reyndi að stinga hana af á hlaupum. Lögreglumaður fylgdi honum fast eftir og náði honum. Í átökum dró Pierce upp hníf og stakk hann í hnakkann. Lögreglan skaut hann þá og lést hann síðar af áverkum sínum.

Staða málsins í dag

Nú eru rúmlega 29 ár síðan stúlkurnar fjórar fundust myrtar í ísbúðinni. Lögreglan vinnur enn að rannsókn málsins og reynir að hafa upp á þeim sem erfðaefnið, sem fannst á líki Ayers, er úr. Fyrir fjórum árum fékkst ákveðin svörun úr gagnagrunni FBI þegar leitað var að erfðaefninu. Svörunin er ekki 100% en hún gæti leitt lögregluna til ættingja þess sem erfðaefnið er úr og þannig gæti hún unnið sig áfram á svipaðan hátt og gert hefur verið í nokkrum morðmálum á undanförnum misserum. FBI getur hins vegar ekki veitt lögreglunni í Austin neinar upplýsingar um erfðaefnið eða úr hverjum það er vegna alríkislaga sem banna það. Þetta hefur valdið mikilli óánægju og reiði meðal margra, sérstaklega ættingja stúlknanna fjögurra.

Margir eru þeirrar skoðunar að það hafi verið Scott og Springsteen sem myrtu stúlkurnar fjórar og enn er því velt upp hvaða tveir menn það voru sem sátu við borð í ísbúðinni kvöldið örlagaríka.

Hver myrti stúlkurnar?

 

Byggt á umfjöllun New York PostThe Austin ChroniclePeopleCBS NewsUnresovledThe Lineup og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Uppgötvuðu þrjár nýjar tegundir hákarla – Lýsa í myrkri

Uppgötvuðu þrjár nýjar tegundir hákarla – Lýsa í myrkri
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sérfræðingur óttast að kórónuveirufaraldurinn í Brasilíu opni dyrnar fyrir enn hættulegri stökkbreytt afbrigði

Sérfræðingur óttast að kórónuveirufaraldurinn í Brasilíu opni dyrnar fyrir enn hættulegri stökkbreytt afbrigði