Líkfundur hefur orðið á stórri einkalóð í rannsókn lögreglu á hvarfi hinnar 23 ára gömlu Nathalie Minuth í Slesvík-Holstein í Þýskalandi. Talið er að líkið sé af konunni en það hefur ekki verið staðfest.
Nathalie er 23 ára gömul, á 24. ári, og er frá bænum Stadum, rétt utan við Flensburg í Slesvík-Holstein. Það sást til hennar í heimabænum Stadum nálægt leikskólanum í bænum laugardaginn 17. ágúst. Um kvöldið fór hún tæplega 10 kílómetra leið í bæinn Shafflund með strætisvagni. Ekki er vitað til að hún eigi neina ættingja eða vini þar og enginn áttar sig á því hvaða erindi Nathalie gæti hafa átt í þennan bæ.
Persónuskilríki Nathalie fundust í Shafflund sem gerir ráðgátuna enn dularfyllri. Sumir hafa velt fyrir sér hvort hún hafi látið sig hverfa og hafið nýtt líf undir öðru nafni. Þetta þykir þó öllum sem þekkja til hennar mjög ólíklegt vegna þess að Nathalie er talin vera mjög ábyrg og áreiðanleg.
Lögregla útilokar ekki að einhver hafi numið konuna á brott og skilið skilríki hennar eftir á almannafæri.
Lögreglan hefur nú handtekið 46 ára gamlan vörubílstjóra vegna málsins. Tjáir hann sig ekki við lögreglu. Talið er að Nathalie hafi kynnst manninum á internetinu. Þess má geta að Nathalie sóttist eftir starfi við umhirðu hesta og lögregla útilokar ekki að henni sé haldið fanginni – þetta eru á meðal þeirra upplýsingabrota sem birtast í fjölmiðlum um stúlkuna. Það skýrist vonandi í næstu viku hvort maðurinn í haldi lögreglunnar veit eitthvað um hvarf Nathalie.
Lífundurinn varð á lóð mannsins sem situr í haldi lögreglu vegna málsins.