fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fókus

Í samtali við samfélagið og umheiminn

Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur hlýtur Menningarverðlaun DV

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 12. mars 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er heimildamyndin Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur sem hlýtur Menningarverðlaun DV 2015 í flokki kvikmyndalistar.

„Í þessari kraftmiklu heimildamynd varpar Halla Kristín leikstjóri ljósi á skrautlega og gróskumikla kvennabaráttu níunda og tíunda áratugarins,“ segir í rökstuðningi dómnefndar. „Með húmor og hnyttni að vopni tryggja leikstýran Halla Kristín og framleiðandi Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að saga íslenskra kvenna sé ekki aðeins áhugaverð, heldur einnig stórskemmtileg. Byltingarandi tímabilsins er fangaður með einstökum hætti í þessu mikilvæga innleggi í íslenska kvennasögu.“

Fannst þessar myndir vanta

Halla Kristín hefur áður skoðað kvennabaráttuna í heimildamyndinni Konur á rauðum sokkum sem fjallaði um íslensku rauðsokkahreyfinguna. „Þessu saga tekur við þar sem sú mynd endar. Þetta var næsti sjáanlegi hluti íslensku kvennabaráttunnar sem hægt var að taka út. Mér fannst þessar myndir einfaldlega vanta, og þar sem það var enginn að gera sig líklegan þá ákvað ég bara að sjá hvað ég kæmist langt með þetta,“ segir Halla Kristín.

Í myndinni tekur Halla Kristín viðtöl við margar af þeim konum sem voru áberandi í kvennahreyfingunni á þessum tíma, meðal annars Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Salome Þorkelsdóttur, Þórhildi Þorleifsdóttur, Kristínu Ástgeirsdóttur, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur, auk þekktra listakvenna á borð Ragnhildi Gísladóttur og Eddu Björgvinsdóttur.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir samfélagið að gleyma ekki því sem ákveðnir einstaklingar þurftu að leggja á sig til þess að nútíminn yrði eins og hann er. Mannréttindi verða ekki til af sjálfum sér, heldur þarf einhver að krefjast þeirra,“ segir Halla Kristín.

„En Kvennalistinn var líka mjög merkileg lýðræðistilraun sem á fullkomlega erindi við samtíma okkar og þær hræringar sem eru í pólitík í dag. Það er ákveðið bergmál í fortíðinni við þá hluti sem við erum að upplifa núna.“

Heimildamyndin ekki endanlegur sannleikur

Ég lít ekkert á heimildamyndir sem endanlegan sannleik – skapandi heimildamyndir eru samtal við samfélagið og umheiminn.

Gerð myndarinnar dróst nokkuð á langinn vegna hrunsins – en það hentaði þó ágætlega að hún var loks frumsýnd á aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. „Fyrsta viðtalið var tekið árið 2011 en aðalupptökurnar fóru fram í kringum 2013 en það var erfitt að fjármagna myndina, svona rétt í kjölfar hrunsins þegar allt var í járnum. Þetta er líka svolítið staðbundið efni svo fjármögnunin tók sinn tíma,“ segir hún.

Auk viðtala notaði Halla Kristín hreyfimyndir til að koma sögunni til skila. „Þegar maður er að búa til heimildamyndir um fortíðina getur maður auðvitað ekki verið á staðnum til að taka upp atburði. Þá verður maður að finna leiðir til að koma sögunni í mynd. Ég hafði verið að vinna með Unu Lorenzen hreyfimyndagerðarkonu sem býr í Bandaríkjunum. Við ákváðum að skella í hreyfimyndir, en þær eru byggðar á myndheimi tímans sem um ræðir. Við notuðum þær bæði til að endurvekja ákveðna stemningu og til að sýna svolítið flippaðri hlið á baráttunni.“

En af hverju heimildamyndir? „Þetta er mjög spennandi og frjálslegt form í mikilli þróun. Af einhverjum ástæðum er heimildamyndaformið miklu frjálsara en leiknu myndirnar, og hægt að komast upp með alls konar hluti sem maður getur ekki í leiknum myndum. Þegar maður er að fjalla um hluti sem hafa gerst í raun og veru hefur þetta náttúrlega tengingu sem leiknar myndir hafa ekki – jafnvel þótt það geti verið mjög loðið. Ég lít ekkert á heimildamyndir sem endanlegan sannleik – skapandi heimildamyndir eru samtal við samfélagið og umheiminn.“

Hvað er svona merkilegt við það? hefur hlotið Edduna í flokki heimildamynda, áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg, var tilnefnd til Nordisk Panorama og hlýtur nú Menningarverðlaun DV.

„Þessi verðlaun skipta máli upp á það að maður fær staðfestingu á því að vinnan sé að skila sér til áhorfenda. Það er gott að fá staðfestingu á því að maður sé að segja sögur sem skipti máli – og kemur manni eflaust vel þegar maður sækir um styrki fyrir næstu mynd,“ segir Halla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því