Krabbameinsfélagið og SÍBS, í samvinnu við embætti landlæknis hafa opnað matarvefinn gottogeinfalt.is. Á vefnum má finna einfaldar, næringarríkar og ódýrar uppskriftir sem byggja á opinberum ráðleggingum landlæknis um æskilegt mataræði. Markmið vefsins er að hafa jákvæð áhrif á mataræði og heilsu þjóðarinnar með því að gera holla og næringarríka kosti aðgengilega öllum.
Á gottogeinfalt.is er fjöldi fjölbreyttra uppskrifta sem fylgja opinberum næringarleiðbeiningum. Á vefnum geta notendur skipulagt sinn eigin vikumatseðil með örfáum smellum.
Þegar matseðillinn er tilbúinn býr vefurinn sjálfkrafa til innkaupalista. Auðvelt er að aðlaga uppskriftina og innkaupalistann að þeim fjölda fólks sem elda á fyrir og ef hráefnin eru þegar til staðar þá er auðvelt að haka þau af innkaupalistanum.
Hægt er að leita að uppskriftum á vefnum út frá þeim hráefnum sem til eru í eldhúsinu, sem dregur úr matarsóun og gerir notkun hráefna hagkvæmari.
Á Íslandi er umfang heilsufarsskaða um 1000 milljarðar króna á ári. Þar er bæði um að ræða beinan kostnað heilbrigðiskerfisins og glataðar framleiðslustundir vegna skertrar heilsu. Vitað er að mataræði er einn stærsti einstaki áhrifaþáttur heilsu. Hollt og næringarríkt mataræði dregur úr líkunum á krabbameinum og öðrum lífsstílstengdum sjúkdómum.