fbpx
Mánudagur 28.nóvember 2022
Matur

Gói elskar útieldhúsið sitt og spasvæðið

Sjöfn Þórðardóttir
Miðvikudaginn 9. nóvember 2022 11:11

Gói Karlsson leikari og konan hans tóku garðinn sinn í gegn og hönnuðu sælureitinn. Gói segist elska útieldhúsið sitt og spasvæðið, ekkert sé betra enn að fara í góða sánu og slaka á eftir amstur dagsins. MYNDIR/VALGARÐUR GÍSLASON.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut á dögunum var garðurinn hans Guðjóns Davíðs Karlssonar leikara,  sem flestir þekkja sem Góa Karls, sælureitur fjölskyldunnar í forgrunni. Þegar Gói leikari og eiginkona hans Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir fjárfestu í nýju húsi fyrir liðlega tveimur árum fylgdi nokkuð stór og gróinn garður sem var kominn í hálfgerða órækt og orðinn jafnframt dálítið villtur. Langaði hjónunum að endurgera garðinn og sníða af óskum fjölskyldunnar svo Gói tók til sína ráða og ákvað að drífa sig í verkið og hannaði sælureitinn með konu sinni og fór í framkvæmdirnar. Áhorfendur fengu að fylgjast með framkvæmdunum frá upphafi til enda og sjá draumagarð Góa og fjölskyldu verða að veruleika.

Elska að horfa á þætti um heimili og hönnun

Gói svipti hulunni af mörgum leyndum hæfileikum í þessu ferli, bæði listrænum hæfileikum sem smiður og í matargerðinni en matarástin slær líka í gegn nýja garðinum. „Ég er náttúrulega bara leikari og áhugamaður um allt milli himins og jarðar. Ég finn það alltaf meir og meir að ég hef aukinn áhuga á allskyns hönnun. Við Inga horfum mikið á þætti um heimili, hönnun og byggingar. Við erum mjög samstillt og elskum að skoða blöð og bækur um fallega hönnun. Ég hef líka alltaf haft gaman af því að stússast í garðinum. Það er ákveðin heilun fólgin í því. Þegar við keyptum svo þetta hús fyrir tveimur árum þá gerðum við þó nokkrar endurbætur og ég naut þess mjög að vera í smíðagallanum og málningarfötunum. Þannig að ég var gríðarlega spenntur að fá að takast á við útisvæðið. Sumarið eftir að við fluttum fór ég í að mála allt húsið að utan og síðan þá höfum við rætt stanslaust um það hvað við vildum gera fyrir garðinn,“ segir Gói.

Gói segir að ástæðuna fyrir því að þau fóru í þessar framkvæmdir vera þá að þau vildu gera sinn sælureit. „Garð sem myndi stækka húsið og gefa okkur möguleika og skapa rými fyrir okkur fjölskylduna að njóta allan ársins hring. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta sjálfur er í raun bæði af sparnaðar sjónarmiðum og líka því við vorum alveg með það á hreinu hvernig við vildum gera þetta.“

Gói stækkaði pallinn sem fyrir var og styrkti með pallaefninu Lunawood frá BYKO sem er viðhaldslétt pallaefni og gránar með tímanum. Pallurinn hefur með því stækkað heimilið út og önnur stofa komin utandyra sem eykur notagildi heimilisins og skapar rómantíska stemningu.

Garðurinn var kominn í órækt

Garðurinn var mjög gróinn en það var komin mikil órækt í hann þegar þau tóku við húsinu. „Kominn tími á grisjun og almenna hreinsun. Ég er rosalega ánægður með það að við ákváðum að bíða með þessar framkvæmdir þangað til núna í sumar því við vildum sjá garðinn í blóma.  Við fluttum inn um vetur þannig að við vildum sjá hvað var á lífi og hvað ekki. Það kom í ljós að hann var í raun verr farinn en við héldum. Mikið af trjám sem voru dauð eða áttu lítið eftir. Þannig að við þurftum að taka heilmikið til.“

Hjónin undirbjuggu sig vel áður en farið var í af stað í framkvæmdirnar, bæði hvað var á óskalistanum og hvernig þau vildu skipuleggja garðinn. „Við vorum dugleg að skoða blöð og pinterest. Ég safnaði myndum af netinu og svo var bara að velja og hafna. Svo er náttúrulega þvílíkur fengur að eiga vin eins og Magga smið sem við töluðum við og sögðum frá okkar hugmyndum og hann tók þær lengra og við fórum á algjört flug. Þannig að síðasti vetur fór í mjög mikið skipulag. Hvað við vildum og hvar. Það var í raun þannig að við vorum alveg á því að við vildum, að garðurinn væri sannkallaður sælureitur fyrir okkur öll á heimilinu. Við vildum spasvæði, pott, útisturtu og sána. Gott leiksvæði, útisvæði fyrir kaffibolla og að borða úti, útieldhús og garðskúr.“

Meistaralega vel gert hjá Góa að slá tvær flugur í einu höggi og nýta garðskúrinn til að útbúa útieldhús með pitsaofninum Bertello. Garðskúrinn heitir Brekka 34 og er frá Kofar og hús.

Hönnuðu útieldhús við garðskúrinn

„Forgangsröðunin var alveg skýr, við fórum yfir aftur og aftur hvernig við vildum gera þetta. Hvar hvert svæði ætti að vera. Svo er náttúrulega að fara í að skoða fjármagnið. Hvað má þetta kosta og þá er bara að vaða í að skoða alla möguleika og fara í búðir og velja hvað við vildum. Við vildum líka passa upp á að allt væri til. Þannig að við vorum snemma í því að panta pallaefni, heitan pott og annað sem var á listanum. Við kolféllum fyrir hitameðhöndlaða greninu, Lunawood, hjá BYKO. Þetta er geggjað pallaefni og við settum það á pallinn, í kringum pottinn og klæddum útisturtuna með því.Við gætum ekki verið ánægðari með efnisvalið. Við stækkuðum pallinn um einhverja 88 fermetra og fengum jarðvegsskrúfur hjá BYKO sem nýi pallurinn situr á. Þetta er snilldar lausn, losna við að steypa og moka. Svo völdum við Grettislaug hjá NormX sem er frábær pottur. Tókum allan pakkann hjá þeim, með hitastýringu og hvað þetta heitir allt saman. Þegar kom að garðskúrnum þá fengum við æðislegan skúr hjá Kofar og hús. Þessi skúr er 9 fermetrar og heitir Brekka 34. Kofar og hús veitti okkur frábæra þjónustu og svo ákváðum við að hanna útieldhús sem við gerðum með Magga smið,“ segir Gói. En útieldhúsinu var bætt við skúrinn með því að lengja þakið út og slá upp skjólvegg á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn þannig að skúrinn breyttist í fúnkerandi svæði. „Svo kom Elli hjá Allt fyrir garðinn eins og stormsveipur, fjarlægði stubba og rætur slétti flötina og tyrfði allt.“

Gói segir að framkvæmdirnar hafi ekki tekið langan tíma og náðst hafi að klára garðinn á einu sumri. „Þetta gekk sjúklega vel. Þetta tók í raun ekki langan tíma ef maður tekur út sumarfríið. Við fórum í útilegu og til útlanda. Ég er líka svo ánægður með alla þá sem hjálpuðu okkur. Maggi smiður, Siggi, Elli, Kristinn pípari og Sölvi rafvirki sem mættu alltaf þegar ég þurfti á þeim að halda. Það er náttúrulega það sem skiptir höfuð máli. Ég fikta ekki í rafmagni eða pípulögnum. En ég saga, skrúfa og smíða en var með Magga sem kenndi mér réttu handtökin. Sagði mér hvar ég ætti að byrja o.s.frv. sem er ómetanlegt.“ Gói segir að það eina sem kom honum á óvart í framkvæmdaferlinum hafi verið hvað þetta hafi verið sjúklega gaman. „Nú er ég bara í alvöru að velta því fyrir mér að fara í húsasmíði í Tækniskólanum.

Góa fannst algjörlega ómissandi að vera með útieldhús. „Því ég er ástríðukokkur og finnst gaman að nota dótið mitt, grillið, Muurika pönnuna mína og svo er nýi pitsaofninn Bertello frá Bakó Ísberg sem er algjör snilld. Það er dásamlegt að vera með borðpláss og þak og geta staðið við pitsaaofninn og/eða grillið þótt það snjói eða rigni.“ Gói segir að það þurft að hafa ákveðna hluti í huga þegar útieldhús sé hannað. „Þú vilt borðpláss, og rými fyrir það sem þú ert með. Hillur fyrir maríneringar eða álegg á pitsuna. Það er grundvallaratriði að hafa þak og skjól þannig að grillið tapi ekki hita,“ segir Gói.

Gói heldur mikið upp á spasvæði í garðinum og þar kemur sánatunnan frá Blikkás – Funa sterkt inn. Hún passar vel inn á pallinn og svarti liturinn steinliggur og hlið hennar er síðan útisturtan.

 Spasvæðið og útieldhúsið uppáhalds

Þegar Gói er inntur eftir því hvað standi upp úr eftir framkvæmdir sumarsins stendur ekki á svari. „Hvað það er dásamlegt að húsið okkar flæðir nú út í sælureitinn sem var grunnpæling. Þetta tókst og krakkarnir eru að elska nýja garðinn okkar. Það eru þvílíkar gæðastundir að vera öll saman í pottinum og ræða um allt milli himins og jarðar,“ segir Gói og bætir við að spasvæðið og útieldhúsið séu hans uppáhalds staðir í garðinum. „Ég get ekki gert upp á milli þeirra, til að mynda er ekkert betra en að fara í góða gufu og njóta þess að vera þar í kyrrðinni, einstök hugleiðsla og þessi saunatunna er stórkostleg. Saunan er viðarkynnt sem gefur extra notalega stemningu og ilmurinn er svo góður.“

„Nú þegar veturinn er kominn erum við að þróa lýsinguna í garðinum. Við erum búin að setja kastara til að lýsa upp nokkur tré. Ekki endilega til að lýsa garðinn heldur til að skapa stemningu. Því við viljum auðvitað njóta norðurljósanna og stjarnanna. En svo reddaði Bessi hjá S. Guðjónssyni okkur geggjuðum ljósastaurum og veggljósum fyrir bílaplanið. Þetta er íslensk hönnun frá Stansverk og ljósin heita Askja, ótrúlega falleg ljós. Svo settum við seríu úr BYKO á skúrinn og útieldhúsið sem er ótrúlega rómantískt og kósí. Eins og garðurinn á að vera.“

Gói segir að það hafi verið mun hagkvæmara að reyna gera sem mest sjálfur. „En ég ráðlegg öllum sem eru að fara í svona hvort sem er í garðinum eða inni að og þú vilt komast í gegnum þetta án þess að tæma algjörlega budduna þá er mikið atriði að ná að gera eins mikið og hægt er sjálfur, þó það sé ekki nema að fara í búðir og sækja þetta og hitt, taka til og gera klárt fyrir næsta dag. Þannig er hægt að spara heilan helling,“ segir Gói að lokum alsæll eftir framkvæmdir sumarsins.

Hægt er sjá þáttinn með Góa hér:

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/fasteignir-og-heimili/mh-25-oktober-2022-goi-karlsson/

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

HelgarmatseðillMatur
Fyrir 2 vikum

Eyþór býður upp á syndsamlega góðan sælkerahelgarmatseðil sem steinliggur

Eyþór býður upp á syndsamlega góðan sælkerahelgarmatseðil sem steinliggur
Matur
Fyrir 2 vikum

Nýkrýndir sigurvegara fyrir Eftirrétt ársins og Konfektmola ársins 2022

Nýkrýndir sigurvegara fyrir Eftirrétt ársins og Konfektmola ársins 2022
HelgarmatseðillMatur
Fyrir 4 vikum

Berglind sviptir hulunni af sínum ómótstæðilega og ljúffenga helgarmatseðli

Berglind sviptir hulunni af sínum ómótstæðilega og ljúffenga helgarmatseðli
Matur
27.10.2022

Hrekkjavökukaka eins og þær gerast bestar – dásamlega mjúk súkkulaðikaka í hrekkjavökubúning

Hrekkjavökukaka eins og þær gerast bestar – dásamlega mjúk súkkulaðikaka í hrekkjavökubúning