fbpx
Fimmtudagur 21.október 2021
Matur

Sigríður komst ekki sjálf í brjóstahaldarann – Nýtt mataræði breytti lífinu

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 9. júlí 2021 15:30

Sigríður Pétursdóttir. Mynd/Sunna Ben

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir þremur árum var Sigríður Pétursdóttir undirlögð af bólgum í líkamanum og greindist um haustið með sjálfsofnæmissjúkdóminn liðagigt. Í kjölfarið breytti hún um lífsstíl og hætti að borða margt af því sem hún var vön, en var þó áfram sælkeri. Í dag er hún einkennalítil og án lyfja svo lengi sem hún heldur sig á mottunni.

Sigríður hefur opnað vefsíðuna Sæluréttir Siggu, purelysigga.com með uppskriftum að grænmetisréttum, sjávarréttum og sykur- og glútenlausu góðgæti. Á síðunni skrifar hún líka um upplifun sína af því að vera byrjandi í grænmetisrækt.

„Það er ógaman að þurfa hjálp til að klæða sig í brjóstahaldarann og eiga erfitt með gang, en þannig var minn veruleiki í ársbyrjun 2018. Ég gat ekki sofið fyrir verkjum og lífið var farið að ganga út á að reyna að grípa þær stundir sem hlé varð á verkjunum til að gera eitthvað gagn eða skemmta sér. En liðagigt er bara svo lúmsk og ekki hægt að skipuleggja neitt fram í tímann því köstin gefa manni engan fyrirvara. Ég vissi aldrei hvort dagurinn yrði góður,“ segir hún.

Víða um heim er verið að gera rannsóknir á tengslum mataræðis og sjúkdóma, ekki síst bólgusjúkdóma, og sífellt fleiri verða meðvitaðir um gildi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu. Því má segja að Sæluréttir Siggu henti líka þeim sem hafa áhuga á að forðast sykur eða vilja auka hlut grænmetis í fæðunni. Eldamennskan gengur út á að maturinn sé úr ferskum hráefnum án íblöndunarefna, sé ekki bólguvaldandi og fyrst og fremst góður fyrir heilsuna.

Mynd/Sigríður Pétursdóttir/Purelysigga.com

Nokkrum mánuðum áður en Sigríður greindist var hana farið að gruna hvað væri í gangi og fór á fyrsta námskeiðið sem Hildur M. Jónsdóttir hélt til að hjálpa þeim sem glímdu við sjálfsofnæmissjúkdóma að ná betri heilsu. Sjálf hafði Hildur verið veik árum saman en náð sér með þessari aðferð. „Hún rekur nú Heilsueflingu Hildar og hefur á þessum árum hjálpað fjölda fólks að breyta um lifnaðarhætti. Rétt að taka fram að þetta er ekki skyndilausn sem tekur nokkrar vikur heldur löng og ströng breyting, auk þess að sem það er mjög persónubundið hvað hentar. Það er líka mikilvægt að taka fram að þó ég hafi náð að vera lyfjalaus í hátt á annað ár ætti enginn að hætta á lyfjum án samráðs við lækni,“ segir Sigríður.

Enginn sykur, meira grænmeti

„Þó þessi strangi lífsstíll henti mér væri ég síðasta manneskjan til að segja að hann væri fyrir alla. Fólk er svo mismunandi. Hins vegar vona ég að Sæluréttir Siggu geti hjálpað þeim sem hafa ýmis konar mataróþol, eða þjást af bólgum í líkamanum. Uppskriftirnar eru líka fyrir þá sem hafa áhuga á að forðast sykur eða vilja auka hlut grænmetis í fæðunni. Fyrst og fremst vona ég að réttirnir rati til sinna og gleðji bragðlauka fólks á öllum aldri,“ segir hún.

Sigríður telur líklegt er að þeir sem þurfi mest á þessum uppskriftum að halda hafi lítið á milli handanna vegna heilsubrests. „Því er mér mikið í mun að notendur þurfi ekki að greiða fyrir þjónustuna. Þess í stað vonast ég til að fá kostun, allavega til að standa undir rekstri síðunnar,” segir hún.

Sigríður Pétursdóttir. Mynd/Sunna Ben

Skemmta sér saman í eldhúsinu

Allra erfiðast fannst Sigríði að hætta að borða brauðin sem maðurinn hennar bakar.  „Þau fá fólk til að stynja af ánægju. Hann er matreiðslumeistari og heitir Garðar Agnarsson Hall. Þegar ég veiktist bjuggum við í London og hann var að elda í Lávarðadeild breska þingsins. Ég hef alltaf haft mjög gaman af að elda og baka líka og lært mikið af honum. Með tár í augunum reyndi ég að þróa brauðbollur úr þeim hráefnum sem ég mátti borða, bollur sem væru að minnsta kosti ætar.

Þegar hann kom dauðþreyttur heim úr vinnunni studdi hann mig með ráðum og dáð. Meðan ég var of veik til að gera mikið sjálf þreyttist hann ekki á að finna upp á einhverju sem ég mætti borða, en nú skemmtum við okkur saman í eldhúsinu við tilraunamennskuna. Þremur árum eftir fyrstu bollutilraunina spring ég næstum úr stolti þegar gestir sem ekki eru á mínu mataræði hæla þeim. Það tekur dálítinn tíma að ná að baka úr þessum framandi hráefnum, þetta er eiginlega eins og að læra það upp á nýtt. Svo ég vona svo innilega að þeir sem nota síðuna mína gefist ekki upp þó fyrsta atlaga gangi ekki vel,“ segir hún.

Mynd/Sigríður Pétursdóttir/Purelysigga.com

Mennskur matarmælir

Fyrir utan verkjalítinn veruleika segir hún eitt af því besta við breytinguna að hafa losnað algjörlega við sára löngun í allskonar óhollustu. „Það fylgir því ótrúlegt frelsi. Bragðlaukarnir breytast nefnilega svo mikið. Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum að mig myndi langa meira í ætiþistla en ostaköku hefði ég skellt upp úr. Það var ekki auðvelt í byrjun að láta kökuhlaðborð í friði, en valið á milli þess að geta gengið og fá sér marens var ekkert svo erfitt. Ég er eins og mennskur matarmælir. Ef ég borða of mikinn sykur bólgna fingurnir og ég fæ hausverk. Ég get fengið mér lúku af bláberjum eða epli án þess að finna fyrir neinu en ekki mikið meira,” segir hún.

Frá því að Sigríður byrjaði að prófa sig áfram hefur orðið til fjöldi uppskrifta. „Þær hafa verið prófaðar af nokkuð stórum og fjölbreyttum hópi sem er á námskeiðum Hildar ásamt vinum og vandamönnum. Fyrir hvatningu þeirra ákvað ég að rétt væri að leyfa enn fleirum að njóta.

Ég hafði sambandi við vinkonu mína Selmu Hrönn Maríudóttur, sem rekur fyrirtækið Tónaflóð, eitt það elsta í þessum bransa. Við höfum brallað ýmislegt gegnum tíðina, gerðum til dæmis gæludýravef fyrir RÚV um síðustu aldamót, sem naut mikilla vinsælda. Ég spurði hverning henni litist á að útfæra með mér uppskriftavef sem væri ætlaður þeim sem annars vega glíma við sjálfsofnæmissjúkdóma og mataróþol og hins vegar þeim sem vilja prófa nýjar áherslur í matargerð sér til skemmtunar. Við erum báðar giftar matreiðslumeisturum, svo það er nú ekki ónýtt í svona vinnu.”

Smella má hér til að skoða síðuna hennar, Sæluréttir Siggu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
23.05.2021

Bubblurnar sem mælt er með – „Þetta er eins nálægt kampavíni og þú kemst, án þess að kaupa kampavín.“

Bubblurnar sem mælt er með – „Þetta er eins nálægt kampavíni og þú kemst, án þess að kaupa kampavín.“
Matur
22.05.2021

Uppljóstrar leyndarmál um Bic Mac borgarana – „Ég verð rekin fyrir þetta“

Uppljóstrar leyndarmál um Bic Mac borgarana – „Ég verð rekin fyrir þetta“
Matur
20.04.2021

Sóley spáir drykkjatrendum sumarsins – No&Low mjög vinsælt, hollari leið til að fá sér í glas

Sóley spáir drykkjatrendum sumarsins – No&Low mjög vinsælt, hollari leið til að fá sér í glas
Matur
20.04.2021

Tryllt ostapasta sem er fullkomið í nesti daginn eftir

Tryllt ostapasta sem er fullkomið í nesti daginn eftir