„Nei, ég kvíði þessu ekki neitt. Þetta verður bara skemmtileg tilbreyting,“ segir Manuela Ósk Harðardóttir, athafnakona og samfélagsmiðlafræðingur, með bros á vör. Manuela hefur nýjan lífsstíl í dag og er búin að einsetja sér það að vera vegan allan febrúar. Manuela ætlar að vera dugleg að leyfa fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með lífsstílsbreytingunni. Ástæðan fyrir þessari U-beygju er einstaklega falleg.
„Ég tók þessa ákvörðun fyrir nokkrum dögum og aðalástæðan er að mig langar að styðja dóttur mína í verku. Hún tók sjálfstæða ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum að verða grænmetisæta,“ segir Manuela, en dóttir hennar, Elma Rós, er að verða níu ára. „Hún tók þessa ákvörðun algjörlega sjálfstætt af ást sinni á dýrum. Ég var viss um að þetta myndi ekki endast svona lengi hjá henni, en hún hefur ekki enn gefið sig og virðist mjög hamingjusöm grænmetisæta. Ég passa að sjálfsögðu að hún taki vítamín og fái próteinskammtinn úr öðrum fæðutegundum.“
Manuela segir þetta skemmtilega áskorun í leiðinni, en þeir sem þekkja þessa atorkumiklu konu vita að hún hræðist ekki að fara út fyrir þægindarammann.
„Ég vildi í leiðinni taka á mig enn stærri áskorun og fara skrefinu lengra og prófa vegan-mánuð. Ég hef alla tíð borðað frekar lítið kjöt og mikið grænmeti, þannig að það væri ekkert svakalegt stökk fyrir mig að taka út kjöt og fisk. Vegan er hins vegar áskorun, þar sem ég elska ost og súkkulaði, en ég prófa bara vegan-útgáfuna,“ segir hún og brosir.
Nú er janúar liðinn, sem gengur oft undir nafninu Veganúar þar sem margir prófa að vera vegan í janúar. Af hverju ætli Manuela hafi ekki hoppað á Veganúar-lestina?
„Ég vissi ekki af því að janúar væri vegan mánuður. En kannski var undirmeðvitundin við stjórnina þar sem febrúar er bara 28 dagar,“ segir hún og hlær. „En markmiðin mín eru einföld – að standast 28 daga í vegan-mataræði. Ég er spennt að sjá hvernig mér mun líða, bæði andlega og líkamlega,“ bætir hún við.
Samfélagsmiðlasjéníið segir það mjög mikilvægt fyrir sig sem móður að styðja börnin sín í hverju því sem þau taka sér fyrir hendur.
„Mér finnst fátt eins mikilvægt eins og að virða börnin mín sem einstaklinga. Ég er hér til að leiðbeina þeim og miðla minni reynslu, en þeirra skoðanir og tilfinningar eru það mikilvægasta. Ég hvet þau til þess að standa með sjálfum sér og vera óhrædd að hlusta á eigið innsæi. Ég gerði Elmu grein fyrir því að það má alltaf skipta um skoðun og prófa sig áfram, og að það væri alveg hægt að hætta við að vera grænmetisæta, og engin skömm í því. Ég vildi vera viss um að henni findist hún ekki búin að festa sig í þeirri ákvörðun og að hún væri meðvituð um að þetta væri algjörlega hennar val,“ segir Manuela.
Manuela er ekki búin að undirbúa sig mikið fyrir mánuðinn sem blasir við en hlakkar til að byrja.
„Ég er ekki búin að undirbúa mig mikið en ég mun lesa mér til á netinu og finna einhverjar góðar lausnir. Ég er frekar nægjusöm þegar kemur að mat og er álíka hamingjusöm að snarla á hráu grænmeti, alveg eins og súkkulaði,“ segir hún og bætir við að súkkulaði sé einmitt hennar helsti veikleiki.
„Ég er miklu meiri nammigrís en matgæðingur og ég glími við þann slæma ávana að borða nammi á hverjum degi. Það verður því erfiðast, að sleppa namminu. Ég gæti hreinlega lifað á nammi einu saman – eins hræðilega og það hljómar,“ segir Manuela. Það kemur því lítið á óvart að henni finnst skemmtilegra að baka sætabrauð en að elda mat.
„Mér finnst ekki gaman að elda en ég elska að baka. Segir allt um mig,“ segir hún og skellihlær. „Ég fór í Húsmæðraskólann fyrir nokkrum árum og lærði helling þar, en ég er ekki þessi týpa með ástríðu eða áhuga á matargerð. Ég er miklu meiri áhugamanneskja um gott súkkulaði eða gómsætan eftirrétt.“
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hver síðasta kvöldmáltíðin hafi verið í hefðbundnu mataræði athafnakonunnar.
„Ég ætla að viðurkenna að ég pantaði pítsu og ostagott í kvöldmatinn í gærkvöldi,“ segir hún og glottir. „Ég fékk samt fljótlega þær fréttir að Domino’s býður upp á vegan-pítsur þannig að ég er búin að ákveða að prófa það einhvern tímann í febrúar.“
En gæti farið svo að vegan-tímabilið yrði lengra en mánuður, jafnvel lífsstíll til frambúðar?
„Ég ætla ekki að segja nei, vegna þess að ég hef ekki prófað, en mér þykir samt ólíklegt að vegan verði minn framtíðarlífsstíll. Ég vil njóta eins og ég mögulega get og trúi á jafnvægi og hófsemi í öllu. Ég hlusta líka vel á líkamann og forðast þær fæðutegundir sem láta mér líða illa. Hver veit nema vegan breyti lífi mínu og ég fari aldrei tilbaka? En ef ekki, þá er allt í lagi að vera vegan þegar mann langar.“