

Kjörbúðirnar taka nú upp Prís verð og lækka verð á 200 algengum nauðsynjavörum fram að áramótum. Þessar vörur verða fáanlegar í öllum 18 Kjörbúðunum um land allt, sem flestar eru staðsettar í minni bæjarfélögum.
Vörurnar á Prís verði í Kjörbúðunum verða á sama verði og í lágvöruverðsversluninni Prís á Smáratorgi í Kópavogi sem hefur verið ódýrasta matvöruverslunin á landinu samkvæmt mælingum ASÍ frá því hún opnaði.
Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja að fleiri hafi aðgang að nauðsynjavörum á Prís verði um allt land.Einnig að hvetja fólk til að versla í sínu bæjarfélagi og styðja við öfluga verslun í heimabyggð. Kjörbúðirnar og Prís eru bæði í eigu Dranga hf.
„Með því að lækka verðið á helstu nauðsynjavörum lækkar heildar matarkarfan talsvert hjá fjölskyldum og öðrum viðskiptavinum. Hér á Siglufirði er Kjörbúðin eina matvöruverslunin í bænum, svo það skiptir miklu máli fyrir íbúana hér að fá Prís-verð hingað í fjörðinn“, segir Kristinn Kristjánsson, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Siglufirði.
Viðskiptavinir Kjörbúðanna um allt land geta nú fundið vörur á Prís verði sérmerktar í hillum Kjörbúðanna.
Kjörbúðirnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum á landinu: Akureyri, Bolungarvík, Blönduósi, Keflavík, Dalvík, Djúpavogi, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Garði, Grundarfirði, Hellu, Neskaupstað, Ólafsfirði, Sandgerði, Seyðisfirði, Siglufirði, Skagaströnd og Þórshöfn.