Dr. Ásthildur Jónsdóttir er sýningarstjóri sýningarinnar en hún hefur sérmenntað sig í möguleikum lista í menntun til sjálfbærni. Árið 2017 lauk hún doktorsgráðu í myndlist frá Lapplandsháskóla og doktorsgráðu í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði HÍ. Sýningarhönnuður Viðnáms er Axel Hallkell Jóhannesson.

„Við skipulagningu sýningarinnar Viðnáms nýtti ég niðurstöður rannsókna minna. Í rannsóknunum studdist ég við þann skilning að kjarni sjálfbærni felist í jafnvægi á milli „hins góða lífs“ og virðingar fyrir þeim takmörkunum sem náttúran setur. Skilgreiningin á hugtakinu sjálfbærni ræður því vali á verkunum og þeim miðlunarleiðum sem lagðar eru fram í Safnahúsinu,“ segir Ásthildur.

„Ég hef aðhyllst aðferð sem kallast gagnrýnið listrænt grenndarnám. Leiðarstef sýningarinnar byggir á mikilvægi þess að leggja áherslu á dyggðir og gildismat annars vegar og hins vegar á mikilvægi þátttöku. Þátttaka er mikilvæg til að þróa með nemendum getu til aðgerða og að tengja markvisst við reynslu sýningargesta með ígrundun þegar mætt er í leiðsögn eða safnfræðslu. Til að stuðla að virkri þátttöku gesta eru gagnvirkar þrautir á öllum hæðum sem kallast á við verkin sem eru öll í eigu Listasafns Íslands. Framsetning og umgjörð sýningarinnar er öll með þeim hætti að bjóða fólki upp á þátttöku, með það fyrir augum að safnið sé griðastaður í einu fallegasta húsi landsins,“ segir Ásthildur.

„Verkin á sýningunni gefa okkur tækifæri til að velta vöngum yfir tilverunni, náttúrunni og öðru fólki. Hvernig fólk kýs að lifa lífinu og hvaða áhrif það vill hafa. Til að skapa forsendur fyrir góðu lífi þarf að hlúa að fjölmörgum þáttum og ekki síður samspili þeirra. Að lifa lífinu á þann hátt að maður viðhaldi góðu lífi án þess að skerða lífsgæði annarra eða ganga á náttúruna er lykillinn að sjálfbærni,“ segir Ásthildur. Hún bætir við að myndlist geti vakið áleitnar spurningar og að listræn nálgun geti breytt því hvernig fólk lítur á heiminn.

Hjartað (1968), eftir Jón Gunnar Árnason (1931-1989).

Sýning á fimm hæðum

Sýningin Viðnám er á fimm hæðum sem hver er með sitt þema. Þemun eru loft, láð, lögur, lögmál og leikur. Á hverri hæð eru viðtöl við fjölbreytta fræðimenn sem tengja markvisst við málefni sýningarinnar.

„Á 4. hæð er ferðast um háloftin og fjalllendi Íslands sem er í stöðugri mótun sem virkt eldfjallasvæði. Eldgosum geta fylgt miklar hamfarir og landslagsbreytingar. Í daglegu lífi gleymast smám saman eldstöðvarnar sem lifa undir jöklunum og landslagið skipar aðalhlutverkið með fjölbreyttum litbrigðum jökulsins sem ólík birtuskilyrði kalla fram,“ segir Ásthildur.

Á hæðinni er heimur jöklanna sýndur í samvinnu við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn. Þar má einnig sjá verk og finna fróðleik tengdan veðri og loftslagi með tengingu við geiminn. Á þessari hæð geta gestir meðal annars búið til stop motion-mynd með skuggabrúðum sem þeir skapa undir áhrifum sýningarinnar. Þeir læra með gagnvirkni um ólíkt skýjafar og skapa sitt eigið himinhvolf með hjálp tölvutækninnar. Gestir upplifa undur íshella í tengslum við fróðleik frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn. Auk þess sem hægt er að baða sig í RGB-ljósi, upplifa marg lita skuggana og leika sér með ljósbrot prismaglers.

Verk Önnu Rúnar Tryggvadóttur Geymd og Ókerfisbundin kortlagning, á fyrstu hæð safnahússins.