fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
FókusKynning

Fyrstu séríslensku myndtáknin: Fözzari, vælubíllinn og Dabbi kóngur

H:N Markaðssamskipti hannaði séríslensk myndtákn, eða emoji

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 5. september 2016 15:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við skorum á stýrikerfa- og appframleiðendur að innleiða þessi tákn svo að Íslendingar geti staðið öðrum þjóðum samfætis í tilfinningatáknatjáningu á 21. öldinni,“ segir Páll Guðbrandsson, hjá H:N Markaðssamskiptum.

Auglýsingastofan H:N Markaðssamskipti hefur hannað fyrstu séríslensku myndtáknin (e. emoji). Í tilkynningu kemur fram að táknin séu þrettán talsins en þar má meðal annars finna tákn fyrir fössara, pulsu, fálkaorðu og „þetta reddast“.

„Erfiðlega hefur reynst að tjá mörg íslensk hugtök með þeim táknum sem boðið er upp á í helstu android- og isímum. H:N Markaðssamskipti hafa því ráðist í gerð séríslenskra emojia til þess að Íslendingar geti tjáð sínar tilfinningar með réttu í símum og á samfélagsmiðlum,“ segir í tilkynningunni en hér að neðan má sjá hvað þessi tákn tákna.

„Við förum þess líka á leit við Íslendinga að þeir leggi sitt af mörkum með því að senda bréf á framleiðendur með áskorun um að koma þessum alíslensku táknum í gagnið – því hvað er verra en fólk sem getur ekki tjáð tilfinningar sínar á samfélagsmiðlum?,“ segir í tilkynningunni. Þá segir að ef stýrikerfa- og appframleiðendur innleiða þessi tákn geti allir (ekki bara Íslendingar) HÚH-að og fözzað sig í gang; og sent vælubíla og fálkaorður eftir því sem við á.

Þá er bent á að emoji sé japanskt hugtak sem þýðir myndtákn. „Upphafsmaður þess er Shigetaka Kurita, starfsmaður hjá japönsku margmiðlunarfyrirtæki sem í lok 10. áratugarins leitaði nýrra leiða til að aðgreina sig frá samkeppnisaðilum. Myndtáknin eru mikið notuð og talið er að um 6 milljarðar emoji tákna berist manna á milli daglega. Táknin hafa náð slíkri fótfestu að gulur broskarl sem grætur úr hlátri var valinn orð ársins árið 2015 í árlegu vali Oxford-orðabókarinnar. Erfiðlega hefur gengið að finna íslenskt orð fyrir emoji en í sjónvarpsþættinum Orðbragði í gær var lagt til orðið tjákn. H:N Markaðssamskipti vill færa íslensku þjóðinni þessi emoji að gjöf og mælist til þess að allir sem vettlingi geta valdið noti þau að vild.“

Táknin þrettán og útskýringar á þeim frá H:N Markaðssamskiptum má sjá hér að neðan:

Ein með öllu

Hvert mannsbarn þekkir pylsuna og þjóðarréttinn pylsu með öllu en þessi herramannsmatur tilheyrir menningu margra þjóða. Hinsvegar spilar pylsan ansi stóra rullu í matarmenningu Íslendinga og hugtakið „að pulsa sig upp” er séríslenskt. Hér er komið myndtákn fyrir athöfnina að pulsa sig upp.

Fálkaorðan

Það er æði fallegt að hrósa einstaklingum og maður verður meiri fyrir vikið. Í myndtáknasamskiptum hefur fólk notast við 100%, bikara, klappandi hendur og fleiri tákn. Loks er komin séríslensk lausn á þessu þjóðþrifamáli. Nú hrósum við samborgurum okkar í gríð og erg og hengjum um þeirra háls fálkaorðuna!

Fözzari

Orðið fössari var orð ársins 2015 að mati lesenda Ruv.is. Fössari er vitaskuld föstudagur en þó ekki eingöngu eiginlegur föstudagur í dagatalinu. Fössari getur verið hugarástand sem lýsir almennu stuði og gleði. Einstaklingur í þrumustuði sem spilar partítónlist út í eitt hefur t.a.m. greint með alvarlegan fössara í blóðinu.

Geysir

Fyrir utan að vera goshver í Haukadal á Suðurlandi er Geysir myndhverfing þess að vera alveg að springa. Springa úr tilhlökkun. Springa úr reiði. Springa úr vanlíðan. Einnig eiga Geysir ásamt Gullfossi þann vafasama heiður að vera samheiti yfir iðrakvef; þ.e. uppköst og niðurgang. Loks gleyma fáir sem sáu Helgu Brögu úr Fóstbræðrum æpa upp við rekkjunaut sinn „Ekki láta Geysi gjósa, ekki láta Geysi gjósa!”. Látum þá merkingu liggja milli hluta.

Víkingaklappið

Skosk/Garðbæska víkingaklappið sem fór sem eldur um sinu hér á landi, breiddist út sem spænska veikin um Evrópu, og loks sem alheimspest, er mögulega í rénun. Margir fagna því – aðrir láta engan bilbug á sér finna og nota hvert tækifæri sem gefst, hvar fleiri en tveir Íslendingar hittast, að rétta upp hendur sínar og öskra „HÚH!“. Notagildi myndtáknsins fer eftir í hvorum hópnum sem þú ert… en notið af vild!

Jóhanna Sig

Sögnin að „Jóhanna Sig” er ekki formlega komin í gildi en við leggjum til að merking þeirrar sagnar sé sú að maður átti sig á því að tími manns muni koma síðar. Ekki gefast upp. Þinn tími mun koma! Ef vinur þinn er að niðurlútum kominn eða bugaður að einhverjum sökum, sendu þá Jóhönnu myndtáknið og fáðu viðkomandi til að „Jóhanna Sig”. Tími hans eða hennar mun koma!

Davíð

Allir þekkja Davíð Oddsson. Einfaldlega vegna þess að hann er kóngurinn. Dabbi kóngur. Hvað sem hverjum þykir um hans pólitík þá hefur hann gengt mörgum af mikilvægustu stöðum okkar samfélags. Borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri og næstum forseti. Hvar hefur hann ekki drepið niður
fæti. Það er því ljóst að Davíðs-myndtáknið mun verða vinsælt við misjafnar aðstæður.

Kjamminn

Kjamm’ er snilld! Sviðakjammi er auðvitað ekkert annað en sviðinn kindahaus en hann getur staðið fyrir svo margt annað. Það er vitaskuld fátt íslenskara en íslenska sauðkindin. Svið eru nauðsynlegur þáttur af sögu íslenskrar matarhefðar og vísa í horfna lifnaðarhætti. Það væri hægt að heimfæra kjammann á hinu leiðinlegu orðræðu um höfuðborg og landsbyggð en við sleppum því og hlökkum til að sjá hvernig kjamminn plummar sig í samskiptum fólks.

Lundinn

Einhverra hluta vegna hefur blessaður lundinn lent í því að vera táknmynd græðgi og yfirgangs í ferðamannaiðnaðinum. Eins hefur hann væri fjári áberandi í ýmsum söluvörum eins og lyklakippum, böngsum, kveikjurum og svuntum. Fáir eru jafn pirraður yfir uppgangi lundans á Íslandi og blessuð sauðkindin. Hún hefur varla lent á ísskápssegli.

Stolt

Gleðiganga hefur lengi verið hápunktur Hinsegin daga í Reykjavík. Í henni hafa m.a. sameinast hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum og vinum. Gangan hefur síðustu misseri verið sameiningartákn stolts og gleði og heiðrað rétt allra til þess að fá að vera eins og maður er. Einhyrningur Páls Óskars er verðugur fulltrúi gleði og stolts.

Vælubíllinn

Það þarf að bregðast við þeim sem kvarta og kveina yfir hinu og þessu á netinu. Vælubíllinn er þekkt fyrirbæri sem kemur þá til bjargar. Númerið er 113 en nú er óþarfi að hringja, myndtáknið ætti strax að stela glæpnum.

Þetta reddast!

Það er einungis eitt íslenskt hugtak eða orðtak sem ekki finnst í neinu öðru tungumáli. Ef það er eitthvað sem lýsir hugarfari landsmanna eða almennu fasi þá er það þetta mikilvæga orðtak „Þetta reddast!”. Ef við ekki hefðum þennan frasa þá værum við ekki lengur stödd á þessu skeri.

Læda slæda

Það er vissulega margt í þjóðfélaginu sem maður getur pirrað sig yfir og sumir vilja meina að tuð sé mikið þjóðarsport. Hinsvegar er hægt að láta hitt og þetta eins og vind um eyru þjóta og stundum er bara miklu betra að láta hlutina „slæda”. Ég er alveg að tryllast yfir verðlaginu á Íslandi… en ég „læda slæda”. Ég er alveg komin með nóg af handbolta í sjónvarpinu… en ég „læda slæda”.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Kynning
12.06.2020

Matarbakkar frá Reykjavik Asian: Séreldað í hvern bakka og handgert sushi

Matarbakkar frá Reykjavik Asian: Séreldað í hvern bakka og handgert sushi
Kynning
05.06.2020

Stígðu út fyrir mörkin með LIMITLESS

Stígðu út fyrir mörkin með LIMITLESS
Kynning
23.05.2020

Húseining er frumkvöðull í tilbúnum húsum á Íslandi

Húseining er frumkvöðull í tilbúnum húsum á Íslandi
Kynning
23.05.2020

Innréttingar og tæki eru með lausnirnar fyrir sumarhúsið

Innréttingar og tæki eru með lausnirnar fyrir sumarhúsið
Kynning
06.05.2020

Snilldarnámskeið Smárabíós: Stútfull af afþreyingu fyrir hressa krakka í sumar

Snilldarnámskeið Smárabíós: Stútfull af afþreyingu fyrir hressa krakka í sumar
Kynning
20.04.2020

Hljómsveitin SUÐ með Stillimynd: Hlustaðu á lagið

Hljómsveitin SUÐ með Stillimynd: Hlustaðu á lagið
Kynning
06.04.2020

GeoSilica: Styrkir ónæmiskerfið og engin skaðleg aukaefni

GeoSilica: Styrkir ónæmiskerfið og engin skaðleg aukaefni
Kynning
03.04.2020

Ekki láta þér leiðast í sóttkví: Kynlífstækjaverslunin Hermosa er með fría heimsendingu

Ekki láta þér leiðast í sóttkví: Kynlífstækjaverslunin Hermosa er með fría heimsendingu