fbpx
Föstudagur 25.september 2020

Skiptir máli að skrá upplýsingar um lýtaaðgerðir á kynfærum?

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. mars 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisstarfsmenn, ljósmæður, kven- og fæðingarlæknar, hafa lýst áhyggjum af því að ýmislegt bendi til þess að tíðni lýtaaðgerða á kynfærum kvenna fari vaxandi. Áhyggjurnar stafa af því að langtímaáhrif slíkra aðgerða á lífsgæði einstaklinga eru lítt þekkt, hvorki áhrif á meðgöngu og fæðingu, né á heilsufar yfir æviskeiðið. Meðan upplýsingarnar fást ekki er erfitt að segja til um hvort ástæða sé til að bregðast við á einhvern hátt. Af sömu ástæðum er það áhyggjuefni, ef rétt reynist, að verið sé að framkvæma lýtaaðgerðir af þessu tagi á börnum undir 18 ára aldri. Einstakir heilbrigðisstarfsmenn vilja meina að slíkt sé barnaverndarmál.

Fyrirspurn

Vorið 2014 lagði ég fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra varðandi fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna. Í svarinu kom fram að ekki lágu fyrir upplýsingar hjá embætti landlæknis um fjölda þeirra aðgerða sem spurt var um. Í frekari umræðu um málið á Alþingi þann 14. mars sl. kom fram að skil lækna á upplýsingum hafa síst batnað.
Landlæknir kallar árlega inn upplýsingar frá öllum sjálfstætt starfandi sérfræðingum á landinu. Skil sérfræðinga á starfsemisupplýsingum til embættisins jukust samhliða innleiðingu á rafrænni sjúkraskrá sem auðveldaði gagnaskilin. Þrátt fyrir það er staðan þannig að upplýsingar vantar frá 10–15% sérfræðilækna á árunum 2012–2014.
Lýtalæknar eru meðal þeirra sérfræðinga sem ekki skila inn upplýsingum til embættisins og því liggja ekki fyrir upplýsingar um aðgerðir á kynfærum kvenna frekar en aðrar lýtaaðgerðir. Einungis einn af níu starfandi lýtalæknum hefur skilað inn umbeðnum starfsemisupplýsingum fyrir árin 2012 og 2013.

Samfélagslegt hlutverk

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir halda heilbrigðisskrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar, starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt er kveðið á um skyldur heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að halda heilbrigðisskrána. Tilgangur skránna er að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með þjónustunni, ásamt því að nota þær við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum. Það er því afar mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem embættið gegnir að þessu leyti.

Sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem ekki hafa veitt fullnægjandi upplýsingar í þágu eftirlitsins hafa sumir borið við persónuvernd. Hér mætast ólíkir hagsmunir, báðir mikilvægir og umhugsunarverðir. Annars vegar hagsmunir heilbrigðiskerfisins og þjóðarinnar af því að embætti landlæknis geti uppfyllt lagaskilyrði sín. Hins vegar hugsanlegir hagsmunir sjúklings og trúnaðarskylda lækna gagnvart sínum sjúklingum, sem á sér stoð í lögum um sjúkraskrár.
Vissulega snýst heilbrigðisþjónusta oftar en ekki um viðkvæmar upplýsingar. En ég á erfitt með að átta mig á því hvernig lýtaaðgerðir sem stundum eru aðgerðir á heilbrigðum vef geta verið vandmeðfarnari upplýsingar en meðferð sjúkdóma. Er brjóstastækkun viðkvæmari en krabbamein í brjósti sem leiðir til brjóstnáms? Er aðgerð á kynfærum viðkvæmari en keiluskurður eða meðferð við kynsjúkdómi? Eins og áður sagði er það mjög mikilvægt fyrir þróun og gæði heilbrigðisþjónustunnar að fyrir liggi hvaða heilbrigðisþjónustu er verið að sinna. Þó að þarna vegist á hagsmunir einstaklinga og samfélagsins þá geta það verið mjög mikilvægir hagsmunir þessara sömu einstaklinga að upplýsingarnar séu skráðar og skili sér á rétta staði í kerfinu, eftir því sem við á. Nýlegt dæmi um það er brjóstapúðamálið.

Brýnir hagsmunir

Landlæknir hefur frá árinu 2010 kallað árlega eftir starfsemisupplýsingum í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Tilmælum um úrbætur hefur verið beint til þeirra lækna sem ekki hafa orðið við innköllun embættisins um upplýsingar. Landlækni ber að skýra ráðherra frá málinu verði rekstraraðili ekki við slíkum tilmælum. Því var erindi sent til ráðherra vegna þeirra sérfræðinga sem ekki bættu skilin. Auk þessa úrræðis getur landlæknir, ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur í bága við heilbrigðislöggjöf landsins, áminnt eða svipt viðkomandi heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi.

Það eru brýnir hagsmunir samfélagsins og einstaklinga af því að lýtalæknar, eins og aðrir læknar, skili starfsemisupplýsingum og því afar mikilvægt að landlæknir leggi áherslu á að nota allar tiltækar leiðir til að fylgja upplýsingagjöf sérfræðilækna eftir. Hversu lengi er stætt á því að sýna þolinmæði í þessum efnum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Keflavík með annan fótinn í efstu deild eftir sigur á Haukum

Keflavík með annan fótinn í efstu deild eftir sigur á Haukum
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Eru dagar ríkisgluggapóstsins taldir? Bjarni leggur til rafrænt pósthólf

Eru dagar ríkisgluggapóstsins taldir? Bjarni leggur til rafrænt pósthólf
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

United reynir að selja sex til að eiga aur fyrir Sancho

United reynir að selja sex til að eiga aur fyrir Sancho
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Kristján hjólar í atvinnurekendur- „Þetta hefur þú aldrei lesið í fréttum“

Kristján hjólar í atvinnurekendur- „Þetta hefur þú aldrei lesið í fréttum“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Samir óttaðist um öryggi sitt í Breiðholti á sunnudag – Þungar refsingar fyrir ofsalega framkomu

Samir óttaðist um öryggi sitt í Breiðholti á sunnudag – Þungar refsingar fyrir ofsalega framkomu
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Krár og skemmtistaðir opna aftur

Krár og skemmtistaðir opna aftur