fbpx
Mánudagur 26.júlí 2021

Íslensku sparibaukarnir: Trölli, Sammi, Paddington og apinn með starandi augnaráðið

Myntsafnið heldur utan um íslensku sparibaukana – Erfitt að finna góð eintök af Trölla og Trínu

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 11. febrúar 2018 22:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að geyma mynt í sparibauk er hefð sem nær aftur til annarrar aldar fyrir Krist. Forngrikkir geymdu peninga í baukum sem litu út eins og musteri. Á miðöldum geymdu Evrópubúar mynt í baukum úr svokölluðum „pygg-leir“ sem þróaðist út í að farið var að tala um sparigrísi. Fyrstu eiginlegu sparigrísirnir komu einnig fram á miðöldum í Indónesíu í líkneski villisvína.

Erlendis hefur svínsformið á sparibaukum fest í sessi en hér á Íslandi heyrir það til undantekninga ef sparibaukur er svín. DV heimsótti Myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafnsins til að fræðast um íslenska sparibauka sem framleiddir hafa verið í gegnum tíðina.

Dyggð að spara

Sigurður H. Pálmason er safnstjóri hjá Myntsafninu en hann rak áður Safnaramiðstöðina við Hverfisgötu. Nýlega var ráðist í átak hjá safninu að ná í þá bauka íslenska sem í boði hafa verið hér á landi. Sigurður segir: „Við tókum af skarið og reyndum að ná í sem flesta bauka meðan þeir eru enn þá til. En aðeins þá sem gefnir voru út af bönkunum.“ Nokkuð hefur safnast af baukum en enn er mikið verk óunnið og Sigurður veit um marga sem vantar í safnið. „Ég veit um þrjá safnara sem safna þeim og ég er með nokkra safnara sem eru með augun opin fyrir mig og láta mig vita af baukum sem okkur vantar.“

Víkingurinn Búnaðarbankinn á níunda áratugnum.

Hér á Íslandi var það innprentað í almenning í áratugi, bæði af stjórnvöldum og bönkum, að sparnaður væri megindyggð. Skortur var á lausafé og lánsfé og kynslóðir ólust upp við skömmtunarmiða. Árið 1957 voru sett lög um 15 prósenta skyldusparnað fólks á aldrinum 16 til 25 ára. Sá hluti launanna var greiddur út í svokölluðum sparimerkjum sem límd voru í bók og innleyst við 26 ára aldur. Hægt var þó að fá undanþágu vegna giftingar, íbúðarkaupa eða náms. Þessi löggjöf var ekki afnumin fyrr en árið 1993.

Til að hvetja börn til að spara gripu bankarnir til þess ráðs að hanna líflega og glæsilega sparibauka sem urðu eiginlegar persónur með baksögu, rödd og viðveru. Á sjöunda og áttunda áratugnum hófst samkeppni milli bankanna um sparnað barnanna og var miklu til kostað í auglýsingaherferðum. Sigurður sýndi okkur merkustu baukana.

Oddfellow-baukurinn og Bankabókin – Landsbankinn

Oddfellow-baukurinn var sá fyrsti sem gefinn var út hér á landi, árið 1903, og var hann langt á undan sinni samtíð því að eftir hann er stórt gat í sparibaukaframleiðslu. Baukurinn var úr kopar og framleiddur í samstarfi við Oddfellow-regluna. „Hver baukur var með sitt númer. Ég veit um fjögur eintök af þessum bauk sem hafa varðveist.“ Baukurinn kostaði 10 krónur sem var mikið fé á þeim tíma. Bankastarfsmaður kom heim að dyrum til að losa baukinn og greiða þurfti 5 aura fyrir vikið.

Seinna gaf Landsbankinn út bauka sem voru í laginu eins og bankabók og urðu mjög vinsælir. „En aðeins var hægt að opna þá í bönkunum. Þeir voru rammfastir og það voru tennur sem læstu fyrir þegar peningur var settur ofan í þá.“

Trölli – Útvegsbankinn

Fuglinn Trölli kom fram í upphafi áttunda áratugarins og varð einn vinsælasti sparibaukur sögunnar. Einnig var kvenkyns útgáfa sem lengi var nafnlaus en fékk síðan nafnið Trína í verðlaunaleik Æskunnar árið 1972. Útvegsbankinn notaði Trölla og Trínu fram yfir gjaldmiðilsbreytinguna árið 1980 þegar verðmæti smámyntar hundraðfaldaðist. Trölli var einna þekktastur fyrir letilegt kántrílag sem notað var í auglýsingum og hefst á textanum:

„Í kolli mínum geymi ég gullið, sem gríp ég höndum tveim.
Svo fæ ég vexti og vaxtavexti, og vexti líka af þeim“

Sigurður segir erfitt að finna góð eintök af Trölla eða Trínu í dag: „Nánast allir áttu Trölla en einhverra hluta vegna er mjög erfitt að finna hann. Annaðhvort lætur fólk hann ekki frá sér eða að flestum baukunum hefur verið hent þar sem hann var svo algengur. Krakkarnir voru að bursta á honum hárið og ég hef séð hann með svakalegar hárgreiðslur, með slaufur og alls konar.“

Máni, Bjössi og Sammi – Samvinnubankinn

Sammi Voldugur og sver.

Máni og Bjössi voru baukar Samvinnubankans á sjöunda áratugnum. Máni var hálfgerður broskall í jakkafötum en Bjössi bangsi í rauðum smekkbuxum. Báðir áttu þeir ódauðleg slagorð. Máni segir: „Meiri vandi er að gæta fengins fjár en afla þess“ og Bjössi: „Betri er króna í Bjössa en tvær í sjoppu.“

Sammi var baukur bankans á níunda áratugnum. Hann var stór og þéttur karl í jakkafötum, með hatt og skjalatösku. Næstum eins og karíkatúr af bankamanni eða ríkisbubba. Hægt var að fá Samma í þremur litum, gulan, grænan eða bláan og honum fylgdi óbundinn verðtryggður sparireikningur, Sammabók. Sammi tók mikið pláss á gluggakistum barna úr Framsóknarfjölskyldum.

Skápurinn, apinn og Paddington – Búnaðarbankinn

Peningaskápurinn „Mikill sigur að ná að opna hann.“

Búnaðarbankinn gaf út marga sparibauka sem slógu í gegn. Þá fyrstu á sjöunda áratugnum sem litu út eins og peningaskápar. „Þessi er sígildur. Vinur minn kenndi mér hvernig ætti að pikka hann upp. Maður tosaði og sneri nokkrum sinnum.“ Sigurður sýnir hvernig þetta er gert eins og fimasti innbrotsþjófur. „Þetta er í raun frekar einfalt en þegar ég var lítill var mikill sigur að ná að opna hann.“

Síðar kom út flennistór baukur í líki simpansa. Hægt var að fá hann í rauðum og bláum lit. „Hann var með svo starandi augnaráð. Það var eiginlega nokkuð óþægilegt að horfa á hann.“

Á níunda áratugnum gaf bankinn út fjölmarga vinsæla bauka. Meðal annars víkinginn, kengúruna, húsið, krókódílinn og hundinn úr Eldfærunum. Sá vinsælasti var þó sennilega Paddington-bangsi sem hægt var að fá í tveimur stærðum. Á tíunda áratugnum tóku svo snjófólkið Snæfinnur og Snædís við.

 

Króni og Króna – Sparisjóðirnir

Króni og Króna Handmáluð eintök.

Krakkar sem aldir voru upp í viðskiptum við Sparisjóðina þekktu Krónu og Króna vel enda voru þau notuð um langa hríð. Þau komu fyrst fram í Stundinni okkar árið 1991 þar sem þau börðust við Eyðsluklærnar. „Króni og Króna voru gefin út í alls konar útgáfum og litum. Sumar útgáfurnar voru meira að segja handmálaðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Pepsi Max-deild karla: Gríðarlega óvænt úrslit í Keflavík – Víkingur og Valur í harðri titilbaráttu eftir sigra

Pepsi Max-deild karla: Gríðarlega óvænt úrslit í Keflavík – Víkingur og Valur í harðri titilbaráttu eftir sigra
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Parið sem kveikti skógareld með kynjaveislu ákært fyrir manndráp

Parið sem kveikti skógareld með kynjaveislu ákært fyrir manndráp
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Vilja breyta sögufrægu húsi í klósett fyrir túrista af skemmtiferðaskipum

Vilja breyta sögufrægu húsi í klósett fyrir túrista af skemmtiferðaskipum
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Varane færist nær Manchester United

Varane færist nær Manchester United
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Fékk eiginhandaráritun hjá Haaland í miðjum leik

Sjáðu myndbandið: Fékk eiginhandaráritun hjá Haaland í miðjum leik
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Pepsi Max-deild kvenna: ÍBV með heimasigur

Pepsi Max-deild kvenna: ÍBV með heimasigur
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum
Aron lék í jafntefli