fbpx
Fimmtudagur 26.maí 2022

Hryllingur í Hyman – Líkamsleifarnar fundust eftir ellefu mánuði – Hlutuð niður í „meðfærilega bita“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 1. desember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvöldið á heimili Breanne Autry, í Hyman í Utah-fylki í Bandaríkjunum, var öðrum kvöldum líkt þann 24. júní, 2000. Breanne tók á sig náðir klukkan hálf þrjú um nóttina, en fimmtán ára systir hennar, Trisha, hékk enn yfir tölvunni. Næsti morgun gat þó ekki talist venjulegur því klukkan sex sást hvorki tangur né tetur af Trishu.

Reyndar brá öllum íbúum smábæjarins í brún, því alla tíð höfðu þeir talið Hyman öruggt og vandræðalaust vé. Allir þekktu alla og gátu borið öllum gott vitni. Lögreglan hóf þegar í stað rannsókn.

Lítill, rauður bíll

Þegar rætt var við nágranna kom í ljós að í vikunni áður höfðu þeir sumir hverjir séð lítinn, rauðan bíl sem ekið var ítrekað framhjá heimili Autry-fjölskyldunnar. Einnig hafði Trisha sést stíga út úr litlum, rauðum bíl nokkrum dögum áður en hún hvarf.

Trisha Autry
Hvarf sporlaust snemma morguns.

Sama dag og Trisha hvarf sá afgreiðslumaður í Welcome Mart-verslun, í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Hyman, stúlku sem svipaði til lýsingar af Trishu, í versluninni.

Að hans sögn stóð hún við gluggann, líkt og hún biði eftir einhverjum. Afgreiðslumaðurinn hafði spurt hana hvort allt væri í lagi og hún kvað já við og fór án þess að kaupa nokkuð.

Öskur í morgunsárið

Þetta þótti hin mesta ráðgáta og næstu daga bárust frásagnir af því að Trisha hefði mögulega sést hér og hvar í Utah og voru þær kannaðar í þaula.

Foreldrar Trishu sögðu að ólíklegt væri að ókunnug manneskja hefði getað farið inn á heimilið og haft hana á brott með sér án þess að vekja athygli. Ekki var að sjá að brotist hefði verið inn á heimilið og því klóruðu menn sér í hausnum.

Eldri hjón töldu sig hafa heyrt öskur rétt fyrir dögun og eitt vitni sagðist hafa heyrt vein sem bárust frá rauðum bíl sem hafði verið ekið hjá árla þennan morgun.

Tíminn leið og ekkert spurðist til Trishu og voru foreldrar hennar orðnir úrkula vonar um að þeir sæju hana aftur á lífi.

Skafin bein

Sá ótti reyndist ekki ástæðulaus því ellefu mánuðum eftir að Trisha hvarf fundu leitarhundar lögreglu sundurhlutað lík hennar í í tveimur djúpum gryfjum í Millville, skammt frá rannsóknarstöð vegna sléttuúlfa.

Beinin báru með sér óhugnanlegan vitnisburð; skurði og för eftir hníf, öxi og járnsög. Talið var öruggt að allt hold hefði verið fjárlægt áður en líkið var sundurhlutað.

Í annarri gryfjunni fann lögreglan eitthvað af fatnaði Trishu og neðra kjálkabein, nánast heilt og skafið hreint.

Shannon Novak
Sérfræðingur í sögu mannáts í Bandaríkjunum.

Shannon Novak, sérfræðingur sem kannað hafði sögu mannáts í Bandaríkjunum, sagði að líkamsleifarnar bæru öll merki þess að hafa verið bútuð niður í „meðfærilegri bita.“

Rafrænn póstur og spjallþráður

Hvað sem öllum þeim vangaveltum leið þá var tölva Trishu tekin til gaumgæfilegrar skoðunar. Í henni var að finna nokkur netföng og samskipti sem átt höfðu sér stað á spjallþráðum.

Greinilegt var að Trisha hafði eytt slatta af rafrænum pósti daginn áður en hún hvarf, en lögreglu tókst þó að finna eitthvað af honum aftur. Sá póstur innihélt nokkrar skuggalegar orðsendingar frá Cody Lynn Nielsen, 28 ára karlmanni sem bjó ekki langt frá.

Um Cody þennan var margt hægt að segja, fæst fallegt. Hann átti fjögur börn með tveimur konum og höfðu bæði hjónaböndin endað með skilnaði.

Á sakaskrá hans var að finna nokkrar nauðganir og ákærur vegna tilrauna til slíks og fórnarlömbin höfðu öll verið ungar stúlkur.

Kynferðislegt skrímsli

Móðir fimmtán ára vinkonu Trishu sagði að Cody hefði nauðgað dótturinni í baksæti bifreiðar hans. Stúlkan sjálf sagði að Cody hefði byrjað að ofsækja Trishu 10. júní, árið 2000, og hún hefði óttast hann. Hún sagði að Cody hefði meira að segja gefið Trishu símanúmer sitt og að hún hefði varað Trishu við; Cody væri kynferðislegt skrímsli.

Nú fór ýmislegt að gerast. Vitni hafði samband við lögreglu og sagðist hafa séð, skömmu eftir hvarf Trishu, Cody grafandi gryfjur fyrir aftan rannsóknarstöðina í Millville. Á þeim tíma hafði Cody séð um viðhald í rannsóknarstöðinni.

Ódámurinn
Cody ráðfærir sig við lögfræðing.

Cody Lynn Nielsen var handtekinn. Hann játaði sig sekan um morðið á henni og var gert að sæta varðhaldi þar til réttað yrði yfir honum.

Ljósi varpað á atburðarás

Réttarhöldin hófust meira en tveimur árum síðar og innihéldu ákæruatriðin morð að yfirlögðu ráði, mannrán og vanhelgun á líki.

Kjaftaskúmur í fangelsinu þar sem Cody var í haldi gat varpað ljósi á hluta atburðarásarinnar að morgni 24. júní 2000. Umræddur kjaftaskúmur bar vitni við réttarhöldin og sagði að Cody hefði sagt honum að hann hefði tekið Trishu upp í bílinn morguninn þann. Þau hefðu haft samræði sem Trisha hafði verið samþykk.

Enn fremur sagði lögregluþjónn einn að Cody hefði viðurkennt að hafa verið hjá Trishu þegar hún dó. Að sögn Codys hafði verið um slys að ræða.

Svör við ýmsum spurningum fengust ekki, til dæmis hvenær, hvar og hvernig Trisha hafði dáið. Þó var talið víst að banamein Trishu hefði verið öflug höfuðhögg og líkið sennilega hlutað í sundur strax í kjölfarið.

Lífstíð en ekki dauði

Kviðdómur taldi sig ekki þurfa frekari vitna við og kvað upp dóm sinn 21. janúar, árið 2004. Niðurstaðan var að Cody væri sekur og mæltist kviðdómur til að hann fengi lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn. Cody Lynn Nielsen slapp með skrekkinn því aðeins vantaði atkvæði eins kviðdómara til að niðurstaðan hefði orðið dauðadómur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Svona lætur hún börnin sín sofna á 5 mínútum

Svona lætur hún börnin sín sofna á 5 mínútum
Matur
Fyrir 4 klukkutímum

Kryddin sem töfruðu matargestina á Duck & Rose upp úr skónum

Kryddin sem töfruðu matargestina á Duck & Rose upp úr skónum
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Tveir farþegar lúbörðu strætóbílstjóra á Akureyri – „Ég veit ekki hversu oft hann kýldi mig“

Tveir farþegar lúbörðu strætóbílstjóra á Akureyri – „Ég veit ekki hversu oft hann kýldi mig“
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Lenya Rún: „Eitt að gagnrýna, annað að tjá sig með hatursfullum hætti.“

Lenya Rún: „Eitt að gagnrýna, annað að tjá sig með hatursfullum hætti.“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Svona gæti Chelsea litið út eftir að 32 milljörðum hefur verið dælt í liðið

Svona gæti Chelsea litið út eftir að 32 milljörðum hefur verið dælt í liðið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Segir SÁÁ ekki viðurkenna alvarleg stjórnendamistök sín

Segir SÁÁ ekki viðurkenna alvarleg stjórnendamistök sín
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Íslendingaliðin í sérflokki í Noregi

Íslendingaliðin í sérflokki í Noregi
Pressan
Fyrir 19 klukkutímum

Fundu 200 lík í kjallaranum

Fundu 200 lík í kjallaranum
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Zlatan verður lengi frá – Ekki tekið ákvörðun með framtíðina

Zlatan verður lengi frá – Ekki tekið ákvörðun með framtíðina