Föstudagur 24.janúar 2020

Eiturbyrlarinn frá Rugeley

Ritstjórn DV
Mánudaginn 17. desember 2018 15:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður er nefndur William Palmer. William þessi fæddist í Rugeley í Staffordskíri á Englandi árið 1824 og var eitt átta barna foreldra sinna. Faðir Williams dó þegar William var tólf ára og segir sagan að móðir hans hafi dekrað hann í hengla, eða þannig. Lýkur hér með þætti foreldra og systkina Williams í þessari frásögn.

Ófeðraður barnafjöldi

Sautján ára að aldri vann William sem lærlingur hjá lyfsala í Liverpool. Ekki varð dvöl hans þar ýkja löng því eftir þrjá mánuði fékk hann reisupassann, grunaður um að hafa stolið fé.

Hvað sem þessu leið komst William í læri hjá ónefndum lækni og segir sagan að hann hafi á þeim tíma náð að feðra fjórtán börn, sem skráð voru óskilgetin. Einnig er sagt að hann hafi einkum og sér í lagi sinnt fóstureyðingum, sem þá voru ólöglegar.

Drykkjukeppni og dauði

Síðar fékk hann vinnu á sjúkrahúsinu í Staffordskíri og að sögn prófaði hann þar að byrla manni strikníni til að kanna áhrifin. Hann lauk læknisnámi sínu í London árið 1846 og gerðist í kjölfarið læknir í heimabæ sínum, Rugeley.

William Palmer
Læknirinn var veikur fyrir veðreiðum.

Kvöld eitt hitti William pípulagningarmann, George Abley, á kránni Lamb and Flag og skoraði á hann í drykkjukeppni. George Abley tók áskoruninni og var borinn heim klukkustund síðar og andaðist síðar það sama kvöld. Ekki voru færðar sönnur á að William hefði átt þar sök að máli, en fólk af svæðinu hafði á orði að hann hefði haft mikinn áhuga á laglegri eiginkonu Georges.

Fimm börn, fjögur dauðsföll

Ekki var hægt að kvarta yfir William sem lækni, hann naut ágætis velgengi í starfi, en hann glímdi við kostnaðarsama fíkn; veðreiðar. Áður en langt um leið hafði hann sólundað 9.000 sterlingspunda arfi.

Í október, árið 1847, kvæntist William konu að nafni Anna Thornton. Saman eignuðust þau fimm börn. Fjögur barnanna dóu áður en þau náðu eins árs aldri og eru áhöld um hvort William hafi komið þar nærri. „Krampaköst“ voru sögð hafa dregið börnin til dauða. Aðeins fyrsta barn þeirra hjóna, sonur, komst á legg og gott betur og lifði föður sinn.

Lán og andlát

Sem fyrr segir þá varð veðreiðafíkn Williams honum dýrkeypt og lausafjárskortur því nokkuð tíður. William brá á það ráð að fá lán hjá tengdamóður sinni, Mary Thornton, samtals um 8.000 sterlingspund.

Réttarhöldum gerð skil
Illustrated Times fjallaði um mál eiturbyrlarans.

Eins og gefur að skilja þá varð ávöxtun þess fjár engin.

Í desember 1848 sótti Mary dóttur sína og tengdason heim og hálfum mánuði síðar, í janúar 1849, var hún öll.

Lánardrottnar falla frá

Fjárhagslega var það þó skammgóður vermir og í maí, 1850, var komið að skuldadögum hjá William vegna láns sem hann hafði tekið hjá Leonard nokkrum Bladon. Um var að ræða verulega upphæð og William sá sig knúinn til að koma Leonard fyrir kattarnef, sem hann síðan gerði með eitri.

Annar lánardrottinn hlaut sömu örlög vegna 800 sterlingspunda skuldar og frændi Williams lést í kjölfar fyllerís í félagsskap hans.

Banvæn líftrygging

Tíminn leið, eins og hans er von og vísa, en lítið vænkaðist fjárhagur Williams. Árið 1854 sá hann í hendi sér að róttækra aðgerða var þörf. Í þetta sinn leitaði hann ekki langt yfir skammt og líftryggði eiginkonu sína fyrir 13.000 sterlingspund.

Hann innti af hendi fyrstu iðgjaldagreiðsluna, en síðan ekki söguna meir enda andaðist eiginkona hans í september það ár – úr kóleru, samkvæmt dánarvottorði. Síðar fékkst staðfest að banamein hennar var eitrun.

Dauði drykkfellds bróður

Árið 1855 gekk í garð og William líftryggði bróður sinn Walter fyrir 82.000 sterlingspund. Sá var drykkfelldur með eindæmum og vonaði William að drykkjan yrði honum að aldurtila innan skamms. En áralöng neysla bróður hans hafði aðeins eflt eiginleika hans til taumlausrar neyslu og William brást þolinmæðin. Hann sá að hér dygði ekkert annað en blásýra og vænn skammtur af henni og í ágúst þetta ár var Walter liðið lík.

Frá réttarhöldunum
Ekki var hægt að sanna nema eitt morð á William Palmer.

Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið og William til mikillar skapraunar neitaði tryggingafélagið að greiða út líftrygginguna og, til að bæta gráu ofan á svart, setti tvo fulltrúa sína í að rannsaka málið.

Stjórnlaus skuldasöfnun

Þegar þarna var komið sögu var William í tygjum við vinnustúlku sína, Elizu Tharme. Eliza hafði undir lok júní fætt son þeirra, sem fékk nafnið Alfred. Ekki bætti fæðing Alfreds úr fjárhagsstöðu Williams en skuldasöfnun hans var þá orðin gjörsamlega stjórnlaus.

Þá fékk læknirinn þá snilldarhugmynd að myrða vin sinn, John Parsons Cook. John Parsons var heilsulítill, ungur maður sem hafði erft formúu.

Þann 13. nóvember, 1855, fóru vinirnir á veðreiðar saman. John Parsons hafði heppnina með sér, en heilladísirnar hundsuðu William. John Parsons vann 3.000 sterlingspund.

Æskuvini fórnað

Vinirnir héldu upp á velgengni Johns og fengu sér í glas á Raven-kránni. Daginn eftir hafði John á orði að ginið sem hann innbyrti á Raven hefði brennt á honum hálsinn. Síðar varð John alvarlega veikur og trúði tveimur vinum sínum fyrir því að „hann héldi að helvítið hann Palmer hefði verið að byrla honum einhvern andskotann.“

John Parsons skánaði og þeir félagarnir fengu sér drykk saman 17. nóvember og varð John fljótlega í kjölfarið fárveikur og lést, veinandi af sársauka, 19. nóvember.

Sakfelldur fyrir eitt morð

Þann 18. desember, 1855, var William Palmer handtekinn fyrir morð. Lík Önnu, eiginkonu hans, og Walters, bróður hans, voru grafin upp, en ekki var hægt að úrskurða með fullri vissu að banamein þeirra hefði verið eitur.

William hengdur
Samtímamynd sem sýnir aftöku læknisins.

William Palmer var sakfelldur fyrir morðið á John Parsons Cook og dæmdur til dauða. Hann varð fyrsti Englendingurinn sem sakfelldur var fyrir að myrða með strikníni.

William var hengdur fyrir utan Stafford-fangelsið 14. júní 1856. Þegar hann steig upp á aftökupallinn leit hann niður á fallhlerann og spurði: „Eru þér viss um að hann sé öruggur?“, segir sagan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Mane hefur ekki hringt í Klopp – ,,Ég krosslegg fingur“

Mane hefur ekki hringt í Klopp – ,,Ég krosslegg fingur“
433
Fyrir 2 klukkutímum

Newcastle fékk öflugan vængmann frá Inter

Newcastle fékk öflugan vængmann frá Inter
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Vísindafélag Íslands vill 800 milljónir á ári

Vísindafélag Íslands vill 800 milljónir á ári
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Nýir sjálfsalar hjá Olís valda uppnámi: Of háar upphæðir virðast teknar af debetkortum – Tæknivilla sem verið er að lagfæra

Nýir sjálfsalar hjá Olís valda uppnámi: Of háar upphæðir virðast teknar af debetkortum – Tæknivilla sem verið er að lagfæra
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Tjarnarbíó fær 20 milljónir frá Reykjavíkurborg

Tjarnarbíó fær 20 milljónir frá Reykjavíkurborg
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Taugaveiklaður bílstjóri kom upp um sig – Farmurinn metinn á hálfan milljarð

Taugaveiklaður bílstjóri kom upp um sig – Farmurinn metinn á hálfan milljarð
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er nýja kærasta Kolbeins Sigþórs: „Heppnust í heiminum með bóndann“

Þetta er nýja kærasta Kolbeins Sigþórs: „Heppnust í heiminum með bóndann“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Fyrrverandi leikmaður Southampton og Portsmouth í verulega vondum málum

Fyrrverandi leikmaður Southampton og Portsmouth í verulega vondum málum