Þetta vopn eru 300 milljarðar dollara sem Vesturlönd hafa lagt hald á, peningar sem Rússar eiga. Reuters segir að 207 milljarðar séu í evrum, 67 milljarðar í dollurum og 37 milljarðar í breskum pundum auk annarra gjaldmiðla og skuldabréfa.
Hugmyndir hafa verið uppi um að veita Úkraínu aðgang að þessum fjármunum til að kaupa vopn og til að kosta uppbygginguna í landinu þegar stríðinu er lokið.
Rússar hafa ekki tekið þessum hugmyndum vel og hefur Dmitry Peskov, talsmaður Vladímír Pútíns forseta, sagt að Rússar muni hefna sín ef Vesturlönd láta Úkraínu fá þessa peninga. „Ef einhverjar af eigum okkar eru gerðar upptækar, munum við skoða hvað við getum haldlagt og við munum gera það samstundis,“ sagði hann nýlega.
Úkraínumenn gætu eflaust notað þessa 300 milljarða dollara en upphæðin er fjórum sinnum hærri en nemur stuðningi Bandaríkjanna við þá síðan stríðið hófst.
En það er ekki einfalt mál að láta einu ríki haldlagða fjármuni í eigu annars ríkis í té. Rússar hafa gert Vesturlöndum ljóst að þeir munu berjast gegn slíkri aðgerð fyrir dómstólum en einnig geta þeir hugsanlega gert Vesturlöndum, með Bandaríkjunum í fararbroddi, stóra skráveifu.
Robert Shiller, hagfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi, ræddi þetta nýlega við ítalska dagblaðið La Repubblica og sagði það siðferðilega rétt að láta Úkraínumenn fá peningana en Bandaríkjamenn þurfi að hugsa sig vel um því margt sé óljóst um afleiðingarnar ef þetta verður gert.
Eitt af því sem gæti gert Vesturlöndum, sérstaklega Bandaríkjunum stóra skráveifu, er gildi dollarans sem öruggs gjaldmiðils. „Ef Bandaríkin beita þessari aðferð gegn Rússum núna . . . þá geta þeir gert það sama gegn öðrum. Þetta myndi eyðileggja þá öryggistilfinningu sem umlykur dollarann og þetta væri fyrsta skrefið í afdollaravæðingunni sem margir halla sér að með vaxandi sjálfsöryggi, allt frá Kína til þróunarríkja og auðvitað Rússland,“ sagði Shiller.
Þetta þýðir einfaldlega að staða dollarans sem alheimsgjaldmiðils, sem er öruggur, gæti verið að veði og þar með einn af máttarstólpum valda Bandaríkjanna á heimsvísu.