
Málið varðar unga konu af sýrlenskum uppruna sem var myrt af föður sínum og bræðrum skömmu eftir 18 ára afmæli sitt í maí 2024. Saksóknarar segja að stúlkan, Ryan Al Najjar, hafi verið fórnarlamb hrottalegs „heiðursmorðs“ eftir að hún neitaði að fylgja ströngum reglum föður síns um útlit, hegðun og samskipti.
Daily Mail fjallaði ítarlega um málið á vef sínum í gær en dómur í málinu féll á mánudag.
Al Najjar-fjölskyldan kom til Hollands í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Elsti sonurinn var fyrst sendur einn til Evrópu og fékk hann hæli í Hollandi, en í kjölfarið fékk öll fjölskyldan að sameinast honum.
Yfirvöld tóku vel á móti fjölskyldunni og sveitarfélagið Joure útvegaði henni rúmgott húsnæði. Þau fengu húsgögn, aðgang að skóla- og tungumálanámi og fjárhagslegan stuðning. Faðirinn fékk síðar aðstoð við að stofna fyrirtæki og fjölskyldan var um tíma talin dæmi um vel heppnaða aðlögun flóttafólks.
Árið 2017 birtust meira að segja jákvæðar fréttir af fjölskyldunni í staðarmiðlum, þar sem lögð var áhersla á vonir barnanna um að aðlagast hollensku samfélagi og byggja upp nýtt líf. Sú jákvæða mynd sem þá var dregin upp reyndist ekki endurspegla raunveruleikann.
Það var í maí 2024 sem lík Ryan fannst í læk nærri bænum Lelystad. Búið var að binda hana á höndum og fótum og töldu saksóknarar í fyrstu að hún hefði verið kyrkt og líki hennar svo varpað í lækinn. Rannsókn leiddi í ljós að banamein hennar var drukknum og var hún því á lífi þegar henni var kastað í vatnið.
Á mánudag voru tveir bræður hennar, 25 og 23 ára, dæmdir í 20 ára fangelsi hvor fyrir þátttöku í morðinu. Faðir þeirra, Khaled al-Najjar, var dæmdur í 30 ára fangelsi, en hann flúði land skömmu eftir verknaðinn og dvelur nú í Sýrlandi. Óvíst er hvort hann muni nokkurn tíma þurfa að afplána dóm sinn og þykir það raunar ólíklegt.
Í frétt Daily Mail segir að samkvæmt niðurstöðu dómsins var morðið skipulagt. Fjölskyldan taldi Ryan hafa svert heiður sinn með því að hafna ströngum trúar- og hefðareglum, hætta að bera höfuðklút og umgangast jafnaldran sína af báðum kynjum. Í gögnum málsins komu fram skilaboð þar sem hún var kölluð „byrði á fjölskyldunni“ auk þess sem rætt var um að hún ætti skilið að deyja.
Bent er á að hollensk yfirvöld hefðu haft afskipti af fjölskyldunni árin fyrir dauða Ryan og hún notið verndar vegna ótta um líf sitt. Var hún vistuð á vistheimilum og naut sérstakrar öryggisráðstafana. Þegar hún varð 18 ára hætti hún í verndarkerfinu, af ástæðum sem stjórnvöld hafa ekki skýrt nánar.
Fyrir dómi kom fram að bræður Ryan hefðu ekið til Rotterdam og sótt hana þar sem hún dvaldi hjá karlkyns vini sínum. Sannfærðu þeir hana um að snúa heim til að biðja föður þeirra afsökunar og féllst hún á það. Það reyndist hennar hinsta ferð og telja saksóknarar að hún hafi verið myrt skömmu síðar.
Dómari sagði við uppkvaðningu dómsins að faðirinn hefði brugðist grundvallarskyldu sinni. „Hlutverk foreldris er að styðja barn sitt og leyfa því að blómstra. Hér var hið gagnstæða gert,“ sagði hann.