fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
Fréttir

Birting dýraníðsdómsins þótti of þungbær fyrir bóndann

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 7. janúar 2026 17:00

Héraðsdómur Norðurlands vestra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Settur dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra ákvað að dómur yfir bónda vegna alvarlegra brota á lögum um dýravelferð verði ekki birtur opinberlega ekki síst á þeim grundvelli að það yrði bóndanum þungbært og að líklegt væri að hann myndi þekkjast þótt að helstu persónuupplýsingar um hann yrðu afmáðar úr dómnum.

Eins og DV greindi frá fyrr í dag tilkynnti Matvælastofnun um dóminn en stofnunin hafði kært bóndann til lögreglu en hann var síðan ákærður fyrir stórfellt brot á lögum um velferð dýra með því að hafa um nokkurn tíma á tímabilinu frá árinu 2022 til apríl 2024 á búi sínu misboðið og vanrækt á stórfelldan hátt umönnunarskyldur sínar. Þetta gerði hann með því að láta hjá líða að tryggja nautgripum í hans eigu aðgang að fóðri og vatni, að tryggja að gripirnir fengju læknismeðferð eða væru aflífaðir og yfirgefið þá í bjargarlausu ástandi. Afleiðingarnar urðu þær að 29 gripir drápust auk þess sem aflífa þurfti og slátra 49 gripum til viðbótar.

Bóndinn var sakfelldur og dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og jafnframt sviptur heimild til að hafa dýr í umsjá sinni í fimm ár.

Ætla ekki að birta dóm fyrir alvarlegt dýraníð

Þegar DV spurðist fyrir um dóminn kom hins vegar í ljós að viðkomandi héraðsdómstóll ætlaði sér ekki að birta dóminn opinberlega, með vísan til 7. greinar í reglum Dómstólasýslunnar um birtingu dóma á vefsíðum dómstólanna en þar segir:

„Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið er í dómsúrlausn ákveðið að vikið skuli frá ákvæðum 6. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá.“

Samkvæmt 6. grein er almenna reglan sú að dóma og aðrar úrlausnir dómstóla skuli birta á vefsíðum þeirra en þó eru nefndar í greininni ýmsar undantekningar frá því. Mál sem varða við lög um dýravelferð falla hins vegar ekki undir það.

Þungbært

Fram kom í tilkynningu Matvælastofnunar árið 2024 um kæruna á hendur bóndanum að málið væri til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. DV sendi því fyrirspurn um dóminn til Héraðsdóms Norðurlands vestra en með svarinu var staðfest að dómurinn hefði verið kveðinn upp þar.

Í fyrirspurninni var leitað svara við því hvers vegna sú ákvörðun var tekin að birta ekki dóminn og hvað í málinu var talið réttlæta það.

Þorsteinn Magnússon settur dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra, sem tók ákvörðunina um að dómurinn yrði ekki birtur, svaraði því með eftirfarandi hætti:

„Tekin var ákvörðun um að birta ekki umræddan dóm á vefsíðu dómstólsins, með svofelldum rökstuðningi sem var skráður í málaskrá:

„Ákveðið er að gefa dómsúrlausnina ekki út á vefsíðu dómstólsins, sbr. 7. gr. reglna nr. 3/2022 um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla, með hliðsjón af hagsmunum dómfellda þar sem ætla má, miðað við það sem fram hefur komið í málinu, að útgáfan yrði honum mjög þungbær.“

Tilvitnuð heimild í reglunum er háð því að sérstaklega standi á, sem er háð mati hverju sinni og það var mat undirritaðs að í þessu tilviki væru aðstæður svo sérstakar að rétt væri að víkja frá meginreglunni um birtingu dóma. Jafnframt mat ég það svo að afmáning persónuupplýsinga myndi í þessu tilviki ekki nægja til að tryggja umrædda hagsmuni, þar sem líklegt væri að engu að síður yrði unnt að komast að því hver ætti í hlut, ef dómurinn yrði birtur.“

Samanburður

Ljóst er að almenna reglan er sú að birta skuli dóma en dómstjórar hafa þá heimild, sem reglurnar kveða á um, að ákveða að birta þá ekki.

Það liggur einnig fyrir að dómar í viðkvæmum málum hafa margsinnis verið birtir opinberlega og velta má því fyrir sér hvort í einhverjum þessara mála það hafi ekki verið hægt að færa rök fyrir því að, með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið var í dómsúrlausn eins og segir í áðurnefndum reglum, að ekki ætti að birta viðkomandi dóma.

Þarna má til dæmis nefna dóma í kynferðisbrotamálum þar sem oft er að finna lýsingar á brotunum en iðulega hefur verið farin sú leið í dómum í málum sem þykja sérstaklega viðkvæm að afmá helstu persónuupplýsingar um brotaþola eða hinn dæmda. Í fyrirspurn DV var spurt um hvort eitthvað í þessu máli, sem snýr að umræddum brotum á dýravelferð, væri ólíkt öðrum viðkvæmum málum þar sem dómar hafa verið birtir en ýmsar persónuupplýsingar afmáðar úr þeim og nefndi sem dæmi nýlegan dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli sem snerist um kynferðisbrot gegn stúlku en helstu persónuupplýsingar um hana voru afmáðar úr dómnum, en eftir sem áður lýsingar á brotinu birtar.

Andrés sakfelldur fyrir nauðgun gegn stúlku undir 15 ára aldri – Brotaþoli gat lýst íbúðinni hans

Þorsteinn dómstjóri var hins vegar ekki tilbúinn til að fara út í slíkan samanburð:

„Ég tel í þessu sambandi ekki rétt að fara út í samanburð við önnur einstök mál, svo sem það mál sem þú vísar til.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kjaftaglaði starfsmaðurinn rekinn og kærður

Kjaftaglaði starfsmaðurinn rekinn og kærður
Fréttir
Í gær

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Selfyssingur þvættaði 10 milljónir – Sagðist hafa fengið peningana með því að selja skálar og Pokemon-spil

Selfyssingur þvættaði 10 milljónir – Sagðist hafa fengið peningana með því að selja skálar og Pokemon-spil
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svört skýrsla um húsnæðiskerfið – Verð hækkar tvöfalt hraðar en laun og unga fólkið fast í foreldrahúsum

Svört skýrsla um húsnæðiskerfið – Verð hækkar tvöfalt hraðar en laun og unga fólkið fast í foreldrahúsum