
Íslenskur málaliði í Úkraínuher, Kjartan Sævar Óttarsson, lét lífið í drónaárás Rússa í Úkraínu skömmu fyrir áramót. Kjartan var nýgenginn til liðs við Úkraínuher og hafði verið við heræfingar í tæplega þrjár vikur er hann lét lífið.
Kjartan heitinn var 51 árs gamall og bjó seinni árin í Svíþjóð. Hann lætur eftir sig eina dóttur.
Bróðir Kjartans, Hörður Harðarson, segir aðspurður að ekki sé farið að huga að því að sækja lík Kjartans til Úkraínu og óvíst sé hvort það muni yfirleitt takast, vegna stríðsástandsins.
„Það er ekki búið að sækja líkið. En þrátt fyrir það höfum við fengið staðfestingu á því að hann sé látinn. Þetta eru flóknar og hættulegar aðstæður þar sem átökin eru í Úkraínu og menn eru ekki að hætta lífi sinu til að sækja lík enda myndum við aldrei vilja það,“ segir Hörður í samtali við DV.
Fjölskyldan nýtur aðstoðar borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
„Borgaraþjónustan er að aðstoða okkur við að fá tengilið i Úkraínu svo hægt verði að ganga frá ýmsum málum sem eru nokkuð hefðbundin þegar fólk lætur lífið i öðrum löndum, eins og að fá persónulega muni, dánarvottorð og þess háttar. Annars eru þetta aðstæður sem við höfum ekki staðið í áður og fáir á Íslandi, svo við tökum bara eitt skref í einu og sýnum þolinmæði,“ segir Hörður ennfremur.