
Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem var framin aðfaranótt laugardagsins 3. júní 2023, bak við Hafnargötu 9 í Grindavík.
Mennirnir þrír eru sakaðir um að hafa í félagi veist með ofbeldi að manni með því að hrinda honum þannig að hann féll í jörðina, og sparka og stappa ítrekað í höfuð hans og búk þar sem hann lá á jörðinni, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut roða og bólgu ofarlega á nefi sem náði upp á enni og yfir augnbrýr beggja vegna, þreifieymsli á rifjum, skrámusár á baki og hruflsár á vinstri síðu.
Hinir þrír meintu árásarmenn eru allir um og yfir tvítugt en brotaþoli á fertugsaldri.
Fyrir hönd brotaþola er gerð krafa um skaðabætur að fjárhæð 300 þúsund krónur og miskabætur eina milljón króna.
Aðalmeðferð verður í málinu við Héraðsdóm Reykjaness þann 3. febrúar næstkomandi.