Spennandi sýning á myndum ljósmyndarans David Lerch hefur verið opnuð á Borgarbókasafninu Spönginni.
Sýningin, sem nefnist Augliti til auglitis við heimskautarefi, fer með gesti og gangandi í heillandi ferðalag um heimskautasvæðið þar sem fylgst er með heimskautarefnum í heilt ár á túndrunni, frá fyrstu til síðustu sólargeisla.
Sjálfur segir David að það geti verið ansi erfitt verk að ná myndum af heimskautarefnum. Á köflum sé það hreinlega þrekvirki. „Suma daga kemurðu heim á kvöldin án þess að hafa séð nokkuð,“ segir hann, „en svo eru líka ánægjulegar óvæntar uppákomur aðra daga sem minna þig á hvers vegna þú leggur alla þessa vinnu og tíma í verkefnið; til að vekja athygli á þessum dásamlegu verum norðurslóða.“
Á sýningu Davids á Borgarbókasafninu fáum við að fylgja þessari forvitnu og lífseigu skepnu í hinu harðneskjulega og síbreytilega vetrarríki nyrst á heimskautasvæðinu, þar sem aðaláherslan er lögð á að afhjúpa heillandi eiginleika og oft falið líf þessara einstæðu dýra. Því má segja að hér sé á ferð einstök sýning.
David Lerch
David Lerch er ljósmyndari sem sérhæfir sig í norrænum dýralífs- og náttúruljósmyndum. Hann er fæddur árið 1998 og uppalinn í norðvesturhluta Sviss. Allt frá fyrstu ferð sinni til Norðurlandanna hefur hann unnið að umfangsmiklum ljósmyndaverkefnum í óbyggðum norðurslóða og starfar nú sem sjálfstætt starfandi dýralífs- og náttúruljósmyndari á norðurslóðum undir eigin merkjum, AylwynPhoto.