Halla Tómasdóttir forseti Íslands var óvenju hvöss í orðum sínum þegar hún ávarpaði Alþingi við setningu þess, rétt í þessu. Var forsetanum meðal annars tíðrætt um áhrif gervigreindar sem hún taldi hafa verið slæm, minnkandi traust á lýðræðinu í vestrænum samfélögum og nauðsyn þess að kjörnir fulltrúar vönduðu vel til verka til að rýra ekki traust almennings í sinn garð. Halla sem í flestum ræðum sínum hefur lagt meiri áherslu á jákvæðni og hvatningu brýndi fyrir alþingismönnum að vanda orðaval sitt og að vinna saman þrátt fyrir að ágreiningur kynni að vera til staðar. Sagði hún nauðsynlegt að sjá til þess að málþóf eins og á síðasta þingi myndi ekki endurtaka sig.
Sagði Halla virðingu og traust sér ofarlega í huga og að þá þyrfti að gæta orða sinna:
„Þegar ég nefni orðin virðing, traust og ábyrgð er ég að hugsa um þá hatrömu orðræðu sem við verðum í vaxandi mæli vör við víða í samfélaginu, ekki síst á samfélagsmiðlum. Orð hafa kröftug áhrif – þau geta sært en líka frætt og hughreyst. Orð eru jafnframt, nú sem fyrr, til alls fyrst. Þeir einstaklingar sem eru vandir að virðingu sinni yfirvega orð sín og velja þau af nærgætni, minnugir þess að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Saman mynda þær manneskjur, sem vanda sig í samskiptum og sýna sjálfum sér og öðrum virðingu, þau heimili, vinnustaði og samfélög sem njóta trausts.“
Halla sagði að í ljósi þess að Alþingi væri einn mikilvægasti vinnustaður landsins væri svo mikilvægt fyrir þingmenn að gá að því hvað þeir segja:
„Orð í ræðustól þingsins rata samstundis til landsmanna og slá tóninn fyrir okkur hin, setja viðmið um hvað má og hvað má ekki. Sannarlega er þingsalurinn – og á að vera – vettvangur ólíkra skoðana, fundarstaður þar sem óhjákvæmilegt er að slái stundum í brýnu. Það er hins vegar aldrei eins mikilvægt fyrir okkur að vanda orðfærið og einmitt þegar við tökumst á.“
Halla sagði að sjálft lýðræðið ætti í vök að verjast. Hún sagði ekki sammála því að best væri að treysta ekki neinu eða neinum en nauðsynlegt væri að setja djúpfölsunum með gervigreind einhver mörk.
Halla beindi orðum sínum að lokum að alþingismönnum hún sagðist trúa því að þeir vildu allir vinna saman að því að bæta samfélagið en þegar kæmi að umræðum um mál sem mestur ágreiningur væri um yrði að setja einhvern skynsamlegan ramma og taka fyrir allt málþóf:
„Þar sem ágreiningurinn er mestur og málin flóknust vona ég að þið berið gæfu til að setja starfinu innan þingsins skynsamlegan ramma sem tryggir í senn málfrelsi og framgang lýðræðisins. Hugsanlega er tímabært að hugleiða breytingar á þingskapalögum, jafnvel á stjórnarskránni. Það má og á ekki að vera keppikefli háttvirts Alþingis
að halda áfram að setja met í málþófi. En um leið ber því skylda til að vera vettvangur fyrir heilbrigða og gagnrýna umræðu.“
Sagði Halla það efla traust innan íslensks samfélags að hlúa að trausti á þinginu og virðingu þess. Sagði hún Ísland eiga bjarta framtíð svo lengi sem hér ríki truast