fbpx
Þriðjudagur 09.september 2025
Fréttir

Glæpamaður sem lifði á kerfinu rekinn úr landi

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. september 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest brottvísun litháísks ríkisborgara úr landi. Maðurinn hefur hlotið refsidóma fyrir fjölda afbrota og ítrekað komist í kast við lögin meðan hann hefur dvalið á landinu. Atvinnuþátttaka hans hefur einnig verið takmörkuð en maðurinn var í vinnu í nokkra mánuði eftir að hann kom fyrst til landsins en hefur reitt sig á félagslega aðstoð síðasta eina og hálfa árið.

Þar sem maðurinn hafði dvalarrétt hér á landi sem borgari EES-ríkis þurfti í málinu að horfa sérstaklega til ákvæða laga sem heimila brottvísun ríkisborgara þeirra ríkja frá Íslandi.

Maðurinn skráði dvöl sína á landinu í júní 2023. Hann hlaut tvo refsidóma fyrst 2024 og svo 2025 vegna ítrekaðra brota gegn almennum hegingarlögum, fíkniefnalögum og umferðarlögum.

Í febrúar á þessu ári var, með ákvörðun Útlendingastofnunar, manninum vísað frá landinu, með vísan til brotaferils hans, og var bannað að koma aftur til Íslands næstu sjö árin. Fram kom að auk dóms væru fjöldi mála til meðferðar hjá lögreglu vegna brota hans. Einnig kom fram að atvinnuþátttaka hans hafi verið takmörkuð og hann þegið félagslega aðstoð. Sagði Útlendingastofnun í ákvörðun sinni að maðurinn ætti bersýnilega í verulegum erfiðleikum við að standa á eigin fótum og aðlagast íslensku samfélagi. Nokkrum dögum fyrir brotvísunina var maðurinn úrskurðaur í gæsluvarðhald vegna síbrota.

Maðurinn kærði síðan brottvísunina til kærunefndar útlendingamála. Í greinargerð hans var því haldið fram að skilyrði laga fyrir brottvísun hans væru ekki uppfyllt í málinu þar sem framferði hans hafi ekki falið í sér nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þá taldi maðurinn brottvísun ósanngjarna ráðstöfun og að brot hans væru ekki nógu alvarleg til að verðskulda slíkt.

Ekkert skjól í Litháen

Maðurinn vildi meina að hann hefði aðlagast íslensku samfélagi. Hann hefði engin tengsl við Litháen enda hefði hann aldrei búið þar, talaði ekki tungumálið og ætti engin skyldmenni þar.

Þess ber að geta að síðari refsidóminn hlaut maðurinn eftir að ákvörðun hafði verið tekin um brottvísun og hann kært hana.

Í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála segir að þegar maðurinn hlaut refsidóm árið 2024 hafi það verið fyrir tvö þjófnaðarbrot, þrenn eignaspjöll, tvö húsbrot, þrjá nytjastuldi, vörslu fíkniefna, akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án ökuréttinda. Meðal þess sem maðurinn stal voru 12 kveikjuláslyklar, eftir innbrot á bifreiðaverkstæði, og buxur og seðlaveski sem hann stal af gistiheimili. Eignaspjöllin lutu aðallega að skemmdum á bifreiðum og gluggum á húsum, samhliða húsbrotum. Fyrir þessi brot hlaut maðurinn fjögurra mánaða fangelsi, þar af 45 daga skilorðsbundna.

Seinni refsidóminn hlaut maðurinn fyrir fimm þjófnaðarbrot, fimm gripdeildarbrot, fjögur fjársvikabrot, vörslu fíkniefna í tvö skipti og tvö umferðarlagabrot, þar af einn fíkniefnaakstur. Maðurinn stal frá bæði fyrirtækjum og af heimilum. Meðal þess sem hann stal voru fartölvur, farsímar, heyrnartól, kortaveski, skór og annar fatnaður og áfengisflöskur af veitingastað.

Óvelkominn svefn

Í umsögnum lögreglu var vísað til fjölda ólokinna mála vegna ítrekaðra brota mannsins. Einnig kom fram í umsögnunum að maðurinn hafi ítrekað lagst til svefns í annarlegu ástandi í húsnæði eða bifreiðum, þar sem hann væri óvelkominn. Maðurinn hefði dvalið stutt á landinu og framið mikinn fjölda brota af miklum ásetningi. Taldi lögregla hann vera yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.

Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá því í júní og fram í september 2024. Hann sætti aftur gæsluvarðhaldi frá febrúar 2025 til júní 2025 en þá hóf hann afplánun dóms síns. Afplánun á að ljúka í febrúar 2026.

Í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála segir að tíðni brota mannsins hafi farið vaxandi og verðmæti einstakra auðgunarbrota hækkandi. Hann hafi m.a. ásamt öðrum brotist inn á heimili fólks og stolið munum sem sé til marks um virðingarleysi hans gagnvart friðhelgi og eignum borgara samfélagsins. Maðurinn hafi jafnframt oftar en einu sinni ekið undir áhrifum fíkniefna sem feli í sér skeytingarleysi og hættu gegn lífi og velferð annarra.

Með vísan til dómanna yfir manninum, umsagna lögreglu og brotaferils mannsins tekur nefndin undir að framferði hans feli í sér raunverulega og yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Því sé skilyrðum laga fyrir brottvísun hans fullnægt.

Lifði á kerfinu

Maðurinn skráði dvöl sína á landinu í júní 2023 en lögregla hafði fyrst afskipti af honum í febrúar 2024. Nefndin segir því liggja fyrir að brotaferill mannsins hafi byrjað skömmu eftir komu hans til landsins en gögn málsins gefi til kynna skeytingarleysi hans gagnvart lögum hér á landi. Málsástæður mannsins um að hann hafi engin tengsl við Litháen eða tali tungumálið hafi takmarkað vægi enda sé hann litháískur ríkisborgari.

Nefndin segir enn fremur að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi maðurinn verið í stöðugri vinnu frá júní 2023 og fram til apríl 2024. Frá maí 2024 hafi hann eingöngu þegið greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði og frá félagsþjónustu Kópavogs. Hafi maðurinn því ekki haldist í stöðugri vinnu hér á landi og sé lítil atvinnuþátttaka hans til marks um takmarkaða félagslega og menningarlega aðlögun. Þvert á móti bendi brotaferill mannsins til þess að hann hafi reynt að sjá sér farborða með ítrekuðum auðgunarbrotum.

Brottvísun og endurkomubann mannsins var því staðfest. Hann hefur heimild til að skjóta ákvörðuninni til dómstóla en það frestar brottvísuninni ekki sjálfkrafa. Maðurinn getur gert kröfu um frestun en hvort hann hafi gert það eða skotið málinu til dómstóla liggur ekki fyrir á þessari stund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Öllum íbúum Gasaborgar skipað að hafa sig á brott án tafar

Öllum íbúum Gasaborgar skipað að hafa sig á brott án tafar
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Flugumferðarstjórar fá ekki lengur að horfa á fótbolta eftir alvarlegt atvik í fyrra

Flugumferðarstjórar fá ekki lengur að horfa á fótbolta eftir alvarlegt atvik í fyrra
Fréttir
Í gær

Sár og svekktur út í félag hjúkrunarfræðinga: „Þessi afstaða er ekki bara röng, hún er beinlínis hættuleg“

Sár og svekktur út í félag hjúkrunarfræðinga: „Þessi afstaða er ekki bara röng, hún er beinlínis hættuleg“
Fréttir
Í gær

Minnst fimm látnir eftir hryðjuverkárás í Jerúsalem í morgun – Árásarmennirnir felldir

Minnst fimm látnir eftir hryðjuverkárás í Jerúsalem í morgun – Árásarmennirnir felldir
Fréttir
Í gær

Tímavélin: Poppers – Stórhættulegur æðavíkkari sem varð vinsælt partídóp í níunni

Tímavélin: Poppers – Stórhættulegur æðavíkkari sem varð vinsælt partídóp í níunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjóða ferðamönnum að skrifa undir heit gegn hvala og lundaáti – „Markaðurinn myndi hrynja“

Bjóða ferðamönnum að skrifa undir heit gegn hvala og lundaáti – „Markaðurinn myndi hrynja“