Eins og svo margir ákvað hin ástralska Lyndal Bubke að taka vinsælt og aðgengilegt DNA-próf til þess að forvitnast um uppruna sinn. Bubke hafði ríkari ástæður en margir enda hafði hún verið getin með gjafasæði á frjósemisstofu í Queensland og þyrsti hana því að vita hvort að hún ætti einhverja ættingja sem hún vissi ekki af.
Þegar niðurstöðurnar bárust nokkru síðar þá fékk hún þau ánægjulegu tíðindi, að er henni fannst, að hún ætti hvorki meira né minna en 11 hálfsystkini sem öll höfðu verið getin með sæðisgjöf frá sama manni. En fljótlega bárust fleiri upplýsingar og þá fóru að renna tvær grímur á Lyndal Bubke.
Nú hefur komið í ljós að hún á að minnsta kosti 77 hálfsystkini og er talið að þau gætu verið mun fleiri, sennilega á bilinu til 250 til 350 talsins. Talið er að líffræðilegur faðir hennar hafi gefið sæði að minnsta kosti 325 sinnum á fimma ára tímabili og það aðeins á einni frjósemisstofu. Hugsanlega gaf hann sæði á fleiri stöðum.
Mál Bubke hefur vakið mikla athygli en hún krefst nú breytinga á landslögum þannig að takmark verði sett á fjölda barna sem má verða til úr sæðisgjöf eins gjafa og komið verði á fót miðlægum gagnagrunni yfir slíkar gjafir.
Á þeim tíma sem Bubke fæddist var sæðisgjafinn nafnlaus. Lög voru hert árið 2005 í Ástralíu þannig að börn gátu fengið upplýsingar um uppruna sinn en enginn miðlægur gagnagrunnur er til staðar heldur geyma hverjar kliníkur sínar eigin pappírsgögn, sem í mörgum tilvikum er horfin eða glötuð.
Fjölmiðlar ytra hafa rætt við önnur hálfsystkini Bubke sem mörg hver lýsa yfir áhyggjum sínum af málinu. Gabe, hálfbróðir hennar, sagði til að mynda að hann hugsaði mikil um hættuna um að lenda óafvitandi í ástarsambandi við nákominn ættingja.
„Ég verð að spyrja strax á fyrsta stefnumóti: „Veistu hvaðan þú kemur? Eru foreldrar þínir í raun foreldrar þínir?“,“ segir hann áhyggjufullur.
Málið þykir svipa til máls hollenska tónlistarmannsins Jonathan Jacob Meijer, sem blekkti hundruði kvenna og sæðisbanka og feðraði að lágmarki 550 börn um allan heim og sennilega mun fleiri. Máli hans var gerð skil í vinsælli heimildarmynd á Netflix árið 2024 sem bar heitið The Man with 1000 Kids.