Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sakfellt ónefndan mann fyrir að hafa árið 2021 veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni og fimm öðrum einstaklingum og hótað því að skjóta þau og sjálfan sig. Sótti maðurinn í kjölfarið kindabyssu og skotfæri og virtist með því gera sig líklegan til að standa við hótanirnar. Fólkinu tókst hins vegar að afvopna manninn áður en lögreglan kom á vettvang.
Segir í dómi héraðsdóms að byssan og skotfærin hafi verið í vörslu mannsins og hann hafi geymt þau inni í búri en þá er væntanlega átt við rými sem á sveitabæjum hefur löngum verið kallað búr en þar er jafnan geymd matvara sem þarfnast ekki kælingar. Maðurinn hafði hins vegar ekki skotvopnaleyfi. Fram kemur að maðurinn hafi ekki látið af háttsemi sinni þar til hann var afvopnaður og tekinn í tök þar til lögreglan kom á staðinn.
Meðferð málsins virðist hafa tekið nokkurn tíma fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra en það var þingfest í mars síðastliðnum en nýr dómari tók við því nú í þessum mánuði. Maðurinn mætti um 10 dögum síðar fyrir dóminn og játaði brot sitt skýlaust. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refisverða háttsemi.
Í dómnum kemur fram að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til játningarinnar og þess að maðurinn hafi verið í andlegu ójafnvægi þegar hann framdi verknaðinn. Einnig var horft til þess að ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en þremur og hálfu ári eftir að atvikið átti sér stað. Manninum var á móti metið það til refsiauka að brot hans beindist að manneskju sem var honum nákomin, sem að mati dómsins jók á grófleika verknaðarins.
Í ljósi alls þessa þótti við hæfi að dæma manninn í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og þar að auki var kindabyssan gerð upptæk.