Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst og fyrrverandi alþingismaður lýsir yfir furðu sinni á þeim athugasemdum sem heyrst hafa frá nemendum Háskólans á Akureyri og bæjarráði Akureyrar vegna fyrirhugaðrar sameiningar skólanna tveggja. Hafa þessir aðilar lýst yfir áhyggjum sem snúa ekki síst að því að nafn síðarnefnda skólans verði lagt niður en einnig að dregið verði úr vægi staðnáms við nýjan skóla. Ólína segir þetta bera vott um þröngsýni það gangi ekki upp að halda í gömlu nöfnin ef skólarnir eigi að sameinast.
Fulltrúar nemenda við Háskólann á Akureyri mættu á síðasta fund bæjarráðs sem tóku undir áhyggjur þeirra með bókun allra fulltrúa í ráðinu, sem birt er í opinberri fundargerð fundarins.
Í bókuninni segir að uppbygging Háskólans á Akureyri sé ein mikilvægasta byggðaaðgerð sem ráðist hafi verið í hér á landi og skipti sköpum fyrir menntunarstig á Norðurlandi og þar af leiðandi atvinnulíf og samfélagið allt. Það skipti mjög miklu máli að bæjarstjórn, þingheimur og samfélagið taki mark á þeim djúpstæðu áhyggjum sem nemendur við skólann hafi lýst yfir vegna fyrirhugaðrar sameiningar við Háskólann á Bifröst. Þær áhyggjur þurfi að ræða á opinberum vettvangi.
Bæjarráð Akureyrar segir fjölmarga kosti geta fylgt sameiningunni. Sé það hins vegar rétt að um sé að ræða ófrávíkjanlega kröfu að verði af sameininingu eigi nýr háskóli að fá nýtt nafn, þá sé ekki annað hægt að ætla en að í raun sé verið að leggja niður Háskólann á Akureyri, sem sjálfstæða menntastofnun. Það sé óásættanlegt. Nafn skólans sé ekki aðeins vörumerki heldur staðfesting á því hvar skólinn sé staðsettur, því samfélagslega hlutverki sem hann gegni í nærumhverfinu til lengri tíma sem og að val um staðnám skipti ekki síður máli en sveigjanlegt nám.
Bæjarráð óskar í lok bókunarinnar eftir fundi með menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra og rektor Háskólans á Akureyri.
Ólína segir í pistli á Facebook að hana hafi rekið í rogastans við að lesa bókunina og upp sé kominn hindrun á veginum til sameiningar skólanna tveggja. Hún segir fulltrúa í bæjarráði Akureyrar sýna þröngsýni og að nýr háskóli geti orðið afar öflugur á allri landsbyggðinni ekki bara Norðurlandi:
„Það vekur furðu að verða vitni að annarri eins þröngsýni hjá þverpólitísku sveitarstjórnarvaldi sem samanstendur af öllum stjórnmálaflokkum. Hér stendur hið pólitíska vald svæðisins frammi fyrir stærsta möguleika sem opnast hefur um áratugaskeið í háskólamálum á Íslandi – möguleika á öflugum háskóla sem sótt gæti fram ekki aðeins á Norðurlandi, heldur landbyggðinni allri og langt út fyrir landsteina, háskóla sem yrði annar stærsti háskóli landsins með höfuðstöðvar á Akureyri og starfsstöðvar á Vesturlandi, á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Háskóli sem gæti sérhæft sig í fjarnámi og sótt á áður óþekkt mið ásamt því að efla staðkennslu og styrkja stöðu sína í höfuðstað Norðurlands.“
Ólína segir að það segi sig einfaldlega sjálft að þegar tvær sjálfstæðar stofnanir hyggi á sameiningu, geti ekki önnur þeirra krafist þess að halda vörumerki sínu. Annaðhvort leggi þær báðar af nöfn sín eða hvorug. Vissulega hafi Háskólinn á Akureyri fest sig í sessi sem háskólastofnun á Norðurlandi en Háskólinn á Bifröst sé sterkt og sjálfstætt vörumerki fyrir Vesturland. Báðir skólar hafi mikið fram að færa.
Viðræður hafa staðið yfir um sameiningu skólanna og Ólína segir í pistlinum að náðst hafi samkomulag fyrir ári síðan um hvaða forsendur verði að liggja til grundvallar sameiningu. Ein megin forsendan sem þá hafi verið samþykkt sé sú að um sé að ræða nýjan háskóla sem bera muni nýtt nafn og hafa höfuðstöðvar á Akureyri en starfsstöðvar á Vesturlandi og víðar.
Ólína segir það vekja furðu að bæjarráð Akureyrar skuli nú, ári síðar, þegar svo virtist sem sameiningarviðræður næðu fram að ganga, vilja rjúfa þessa sátt og hleypa þar með viðræðunum í uppnám. Þetta sé illskiljanlegt:
„Einsýni bæjarráðsins á nafn skólans – en ekki þá framför og möguleika sem opnast geta – ber satt að segja ekki vott um framsýni né framfarahyggju, verð ég að segja. Að bæjarráðið með stuðningi stúdenta fyrir norðan skuli lýsa „djúpstæðum áhyggjum“ af því framfaraskrefi sem stefnt er að, er eiginlega óskiljanlegt. Undir hitt get ég tekið að þessi umræða þarf að fara fram „á opinberum vettvangi“ eins og segir í ályktuninni – því þegar loft verður innistaðið er yfirleitt gott ráð að opna glugga.“