The Wall Street Journal skýrir frá þessu og segir að Trump hafi ákveðið á laugardaginn að Úkraína fái 3.500 ERAM-flugskeyti (Extended-Range Attack Munition).
Þessi flugskeyti draga allt að 450 kílómetra. Blaðið hefur eftir tveimur embættismönnum að 3.500 flugskeyti verði send til Úkraínu og verði væntanlega komin þangað eftir um sex vikur.
Flugskeytin kosta 730 milljónir evra og munu Evrópuríki greiða fyrir þau og gefa Úkraínu.
Áætlunin um að láta Úkraínu þessi flugskeyti í té kom fram á valdatíma Joe Biden en henni var ekki hrundið í framkvæmd áður en hann lét af embætti.
Trump er sagður hafa horft nýjum augum á þessa áætlun eftir fundinn með Vladímír Pútín í Alaska fyrr í mánuðinum og með fjölda evrópskra leiðtoga í kjölfarið.