Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur kallað eftir því að hinn umdeildi milljarðamæringur George Soros verði ákærður, ásamt syni sínum, en í færslu á samfélagsmiðli Trump Truth Social sakar forsetinn Soros um stuðning við róttæka mótmælendur sem vilji rústa Bandaríkjunum.
Soros hefur í gegnum tíðina verið bendlaður við meint samsæri af ýmsum toga. Því hefur meðal annars haldið fram af samsæriskenningasmiðum að Soros sé lykilstjórnandi samsæris um að koma heiminum undir eina alheimsstjórn. Soros er 95 ára gamall og fæddur og uppalinn í Ungverjalandi en flutti til Bretlands um miðja 20. öld en hefur búið í Bandaríkjunum síðan 1956 og varð bandarískur ríkisborgari 1961. Hann hefur löngum stutt með fjárframlögum við stjórnmálamenn úr röðum Demókrata og hallast í frjálslyndisátt í stjórnmálum og beitt sér fyrir málefnum í þeim anda. Með afskiptum sínum af stjórnmálum hefur hann bakað sér reiði margra hægri manna sem saka hann um að vera lykilmaður í ýmis konar samsæri um að breyta gangi bæði bandarísks samfélags og alls heimsins. Samsæriskenningar sem beinst hafa að Soros hafa verið gagnrýndar meðal annars á þeim grundvelli að hann hafi verið valinn sem skotmark af þeirri ástæðu einni að hann sé af gyðingaættum.
Trump segir í færslunni að ákæra eigi Soros og son hans, sem hann nefnir ekki á nafn, en Soros á fjóra syni. Líklega er þó um að ræða Alexander næstyngsta soninn en hann hefur beitt sér í þágu málefna eins og t.d. mannréttinda, umhverfisverndar, réttinda kvenna og einnig réttinda fólks í Bandaríkjunum af rómönskum uppruna. Alexander tók árið 2023 við af föður sínum í forystu stofnunar fjölskyldunnar Open Society Foundation. Stofnunin hefur stutt fjárhagslega við starf ýmissa samtaka þar á meðal hópa sem staðið hafa fyrir mótmælum eftir að lögreglumenn hafa orðið svörtum einstaklingum að bana.
Trump krefst þess í færslunni að Soros-feðgar verði ákærðir á grundvelli laga sem sett voru fyrst í Bandaríkjunum árið 1970 til að bregðast sérstaklega við skipulagðri glæpastarfsemi og þá ekki síst sívaxandi áhrifum mafíunnar. Lögin eru iðulega auðkennd með skammstöfuninni RICO ( e. The Racketeer Influenced and Corrupt Organizations Act).
Eins og svo oft áður, þegar hann hefur varpað fram ásökunum á hendur nafngreindum einstaklingum, vísaði Trump ekki til neinna sannana í færslunni. Hann segir feðgana styðja á bak við mótmæli sem fram hafa farið víða um Bandaríkin meðal annars gegn fjöldahandtökum innflytjendaeftirlitsins ICE og því að hermenn hafi verið sendir út á götur höfuðborgarinnar Washington. Trump segir mótmælin ofbeldisfull og kallar Soros-feðga brjálæðinga sem verði ekki leyft lengur að tæta Bandaríkin í sundur. Forsetinn segir George Soros og brjálæðinga honum tengdum hafa valdið miklu tjóni. Það eigi einnig við um vini Soros á vesturströnd Bandaríkjanna sem Trump nefnir ekki en tekur fram að lokum að fylgst sé með þeim.
Gagnrýnendur forsetans segja þetta útspil nýjasta þáttinn í því að hann misbeiti dómsmálaráðuneytinu og öðrum löggæslustofnunum Bandaríkjanna til að ná sér niður á andstæðingum sínum og gagnrýnendum. Skemmst er að minnast að alríkislögreglan FBI framkvæmdi nýlega húsleit á heimili John Bolton fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa Trump, en síðar kastaðist í kekki á milli þeirra. Chris Christie fyrrum ríkisstjóri New Jersey var eitt sinn stuðningsmaður Trump en svo varð vík milli vinna og forsetinn hefur kallað eftir rannsókn á störfum Christie og þá einkum með vísan til máls frá árunum 2013-2014 þar sem starfsmaður Christie, sem þá var ríkisstjóri, tók þátt í að skapa ítrekað umferðarteppur til að klekkja á bæjarstjóra, í bænum Fort Lee, sem var uppsigað við Christie.
Stuðningsmenn forsetans hafa fagnað færslu hans um Soros-feðga.
Trump segist aldrei hafa fyrirskipað Pam Bondi dómsmálaráðherra eða öðrum yfirmönnum löggæslumála að rannsaka nokkurn mann. Gagnrýnendur benda hins vegar á að Bondi hafi ávallt lagt sig fram í störfum sínum við að þóknast Trump og ógni þar með sjálfstæði dómsmálaráðuneytisins frá forsetaembættinu sem lengi hefur verið lögð áhersla á í Bandaríkjunum, þótt það hafi reyndar gengið misvel að framfylgja því í tíð fyrri forseta.