fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Fréttir

Ræða hvort birting á tekjum sé hnýsni eða verðmætar upplýsingar – „Líka hugsað á vissan hátt þannig að þetta kemur í veg fyrir gróusögur“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 26. ágúst 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er sá árstími sem tekjur fólks eru opinberaðar í skrám skattstjóra, og tekjublöð fjölmiðla eru gefin út með fréttum um tekjuhæstu Íslendingana í kjölfarið.

Félagarnir Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson ræða þessi mál í Hluthafaspjalli sínu, en á sínum tíma var reynt að stöðva útgáfu Tekjublaðs Frjálsrar verslunar. Gaukur Jörundsson, þáverandi umboðsmaður Alþingis, lagðist yfir málið á sínum tíma eftir umkvartanir og Fjármálaráðuneytið gaf út reglugerð um að það væri bannað að reikna upp úr álagningarskrám.

Jón var ritstjóri Frjálsrar verslunar í 25 ár og Sigurður var ritstjóri Viðskiptablaðsins, sem hafði til margra ára horn í síðu Frjálsrar verslunar fyrir að gefa út upplýsingar um tekjur fólks. Síðan  keypti útgáfa Viðskiptablaðsins Frjálsa verslun og þá heyrðist annað hljóð í horni.

„Landsmenn eru að velta fyrir sér tekju- og eignastöðu fólks af því að Tekjublaðið, og Heimildin var að koma í dag með svokallaðan hákarlalista sinn, þá draga þeir fjármagnstekjur inn í þetta. Það hefur svona verið árviss viðburður að það komi út blöð sem sýna tekjur fólka, einhvern svona þverskurð af samfélaginu og við Jón höfum gaman af að rifja upp hlutverk okkar í samtímasögunni,“ segir Sigurður.

„Við Jón vorum náttúrlega alltaf að keppa á sínum tíma en nú er þetta orðið sameiginlegt félag og það er svolítið merkilegt að undir hatti þessa sameiginlega félags er gefið út þetta tekjublað en á sínum tíma þá umræða inni á Viðskiptablaðinu sem var andsnúin því að gefa út tekjublað.“

Löngu hættur sem ritstjóri en fær enn skilaboð um að leiðrétta 

Jón rifjar upp að hann var ritstjóri Frjálsrar verslunar í 25 ár og segist hann síðustu daga hafa fengið fjölda tölvupósta og skilaboða á Messenger um hvort hann vilji ekki endurskoða eitthvað í umfjöllun blaðsins í ár.

„Ég sit enn uppi með þetta vegna þess að fólk heldur að ég sé ennþá ritstjóri, ímynd mín er sú að ég sé ritstjóri enn þá,“ segir Jón en leiðir hans og blaðsins skildu árið 2017 þegar það fór yfir til Viðskiptablaðsins. Segir hann að Viðskiptablaðið og eigandi þess Árni Pétur Jónsson hafi ítrekað verið á móti umfjöllun Frjálsrar verslunar um peninga. Það hafi þó breyst.

„Menn fylgja peningunum, því þetta var auðvitað það blað sem seldist auðvitað langmest og var mikill hasar í kringum. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að Óðinn, sem er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu, hann er hins vegar að gagnrýna útgáfuna á þessum upplýsingum.“

Jón segist ítrekað hafa farið í gegnum umræðuna um af hverju á að gefa út tekjublað og upplýsingar um tekjur Íslendinga. Fer hann í sagnfræðina og segir að á áttunda áratugnum hafi verið sett lög um að álagningarskrár skuli birtast almenningi til sýnis í hálfan mánuð.

„Síðan gerist það að Helgi Magnússon, sem þá var ritstjóri Frjálsrar verslunar árið 1989 byrjar á því að tína og taka þetta saman. Og auðvitað var alltaf fullt af fólki sem fór inn á skatt og var með penna og var að skoða vini sína og hvað hinir og þessir höfðu, nágrannar og svona. Og þá var þetta hugsað kannski þannig að þú værir að hnýsast um náungann. Heyrðu hann Siggi hann á tvo jeppa og hann lifir í höllinni sinni, en borgar vinnukonuútsvar. Síðan gerist það að þetta urðu mjög vinsæl blöð. Þetta var þá bara hluti af öðru blaði í Frjálsri verslun.“

Leitað til Umboðsmanns Alþingis um að stöðva útgáfu tekjublaðsins

Árið 1992 þegar Jón var ritstjóri Frjálsrar verslunar segir hann engan hasar hafa verið við vinnu blaðsins, nema þegar það kom út. Árið 1995 hafi ákveðnir aðilar leitað til umboðsmanns Alþingis, Gauks Jörundssonar. „Þeir segja: „Heyrðu, við viljum að Alþingi fari yfir þessi mál og við viljum láta stöðva útgáfu þessara upplýsinga. Og umboðsmaðurinn tekur þetta fyrir, fer yfir málið og gefur sér góðan tíma með það og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki hægt að stöðva þetta. Skattalög taki almennum lögum fram á meðan að þessar, og hann segir sérstaklega að á meðan að þessar álagningarskrár liggja frammi. Og þetta verður mikill hasar í kringum 1994, þannig að það gafst ekki tími til að gefa blaðið út. Blaðið var hins vegar selt haustið 1995 til Talnakönnunar eða Benedikts Jóhannessonar sem þá var aðaleigandi Talnakönnunar.“

Vorið 1996 var síðan ákveðið að gefa blaðið út sem sérblað. „Það var bara ákveðið að taka þetta með trukki og búið að velja öll nöfn og kennitölur og við vissum svona sirka hvað þarna væri í gangi. Og það er bara allt í einu vinnum við þetta bara á nokkrum dögum. Það vakti mikla athygli þessi svakalegi hraði að vera bara tilbúinn með tölurnar daginn eftir að þær voru birtar hjá 3-4000 manns.

Ég held ég hafi verið spurður alla tíð í þessi 25 ár hvað réttlætir þetta? Og það eru alveg tvær skiptar skoðanir um þetta. Það eru annars vegar þeir sem segja að þetta sé bara hnýsni, að hið opinbera sé að leggja fram skýrslu um hvað hverjir eiga og þess háttar. Og þetta stenst ekki út frá persónuvernd. En Alþingi hefur sett lög og Alþingi hefur lagt áherslu á það að þetta komi almenningi fyrir sjónir, þessar upplýsingar. Fyrst Alþingi gerir ráð fyrir því að þetta komi almenningi fyrir sjónir, þá er ekkert óeðlilegt við það að einkaaðilar séu bara að miðla þessum upplýsingum bara eins og hverjum öðrum upplýsingum sem hið opinbera er að leggja fram eða vill láta birta.“

Litu á upplýsingarnar sem vinnuplagg og fóru að flokka í starfsgreinar

Segir Jón að hann og þeir sem með honum unnu hafi litið á upplýsingarnar sem vinnumarkaðsplagg og besta plaggið um vinnumarkaðinn, hvernig kaupin gerast á eyrinni, og hvað hver og einn er að fá í laun. Þeir hafi því farið að búa til alls kyns starfsgreinaflokka og hafa þá sem flesta.

„Þannig að flokkarnir væru farnir að skipta máli. Eru flugumferðarstjórar eða flugstjórar eða næstráðendur, eru markaðsstjórar allt í einu að verða hærri heldur en forstjórarnir og eru bankamenn orðnir hærri heldur en forstjórar. Þannig þetta var svona svokallað vinnumarkaðsplagg. Þetta er líka hugsað á vissan hátt þannig að þetta kemur í veg fyrir gróusögur. Í staðinn fyrir að það sé alltaf verið að tala um hvað hinir og þessir hafi, þá sjá menn það bara svart á hvítu hvað viðkomandi er með.“

Bendir Jón á að í Svíþjóð, Noregi og Danmörku liggi þessar upplýsingar hverjum sem er til reiðu allt árið þannig að ekki er um að ræða etthvað séríslenskt fyrirbæri. Hægt sé að fletta upp einstaklingi og sjá hvar hann býr, hvað húsið er metið á, fasteignamat og hvað viðkomandi er með í tekjur.

Upplýsingar um forstjóra liggja fyrir í ársskýrslum

Segir Jón að í þætti líkt og Hluthafaspjallinu skipti það máli að ræða um forstjóra, hvernig viðkomandi forstjóri sé, hvers konar eiginleika hann hafi, hvort hann vinsæll og hvort hann ætli að hætta. Stjórnunarkostnaður og þar sem laun forstjóra séu sett í ársskýrslur fyrirtækja. Segir Jón það eðlilegar og nauðsynlegar upplýsingar.

„Það er mjög nauðsynleg upplýsingagjöf. Við sjáum það til dæmis núna varðandi Marel að forstjóri Marel fékk um 300 milljónir í sérstakan kaupauka vegna sameiningarinnar. Þetta eru miklir bónusar og það er alltaf spurning hvað er við hæfi,“ segir Sigurður.

Ræða þeir að það rugli stundum myndina þegar bónusar eru teknir inn í og eins ef einstaklingar eru að taka út séreignasparnað líkt og framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar gerði.

„Það er enginn að segja að þetta séu vinnutekjur. Við tókum það margoft fram, maðurinn hafði þetta í tekjur, hvort sem hann var að leysa út séreignarsparnað sinn eða ekki, þá hafði hann þetta í tekjur á síðasta ári. Og hann er framkvæmdastjóri Landsbjargar,“ segir Jón.

Sjá einnig: Fréttir af háum launum framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar villandi

Tekjuupplýsingar verðmætar fyrir hluthafa

Nefnir hann einnig að þegar 40 þúsund manns eiga hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum þá megi halda líka fram að tekjuupplýsingar verði enn verðmætari. Hluthafar hafi áhuga á þessum upplýsingum, en ekki bara skatturinn.

Lögðu áherslu á að birta tekjuupplýsingar athugasemdalaust

Jón spyr hvort það teljist hnýsni ef fólk les fréttir um tekjur fólks. Sigurður tekur undir og segir að þó þeir hafi sinnt viðskiptafréttum þá sýni það sig að fólk hefur áhuga á fréttum um fólk. Hver fjölmiðill verði þó að setja sér mörk hvað hann vill fara langt í umfjöllun sinni.

„Við lögðum áherslu á að birta upplýsingarnar athugasemdalaust. Við vorum ekki að fara að skrifa hvað þessi og hinn sé búinn að gera og gera einhverjar athugasemdir og reyna að búa eitthvað til,“ segir Jón.

„Ég sé að til dæmis Heimildin, þar eru gríðarlegar svona móraliseringar. Þar er vitnað í gráðugt fólk í sögunni. Það er mikil móralisering,“ segir Sigurður. Jón bendir á að Óðinn pistlahöfundur Viðskiptablaðsins hafi gagnrýnt eigendur Heimildarinnar og talað um sjálftöku. „Það var augljóst að hann var að stríða þeim.“

„Já við þekkjum nú svona ertni á milli fjölmiðla. Við vorum nú aldrei neitt í því,“ tekur Sigurður undir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Flóttafólk sem stofnaði veitingastað í Keflavík verður fyrir árásum á netinu – „Þetta hefur mikil áhrif á okkur“

Flóttafólk sem stofnaði veitingastað í Keflavík verður fyrir árásum á netinu – „Þetta hefur mikil áhrif á okkur“
Fréttir
Í gær

Halla bendir á svívirðilegt óréttlæti – „Nýta sér skólana og fá sorpþjónustu eins og almennt launafólk, en leggja ekkert af mörkum“

Halla bendir á svívirðilegt óréttlæti – „Nýta sér skólana og fá sorpþjónustu eins og almennt launafólk, en leggja ekkert af mörkum“