Margdæmdur barnaníðingur frá Lousiana-fylki í Bandaríkjunum hefur verið dæmdur til fangelsisvistar sem og geldingar eftir að hafa játað á sig tilraun til að nauðga sjö ára stúlku. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs samþykkti hinn 37 ára gamli Thomas Allen McCartney þennan óvenjulega dóm sem hluta af samkomulagi við saksóknara.
Verða eistu McCartney fjarlægð með skurðaðgerð, til að stöðva framleiðslu kynhormóna, en auk þess mun níðingurinn afplána 40 ára fangelsisdóm fyrir brot sín.
Atvikið sem leiddi til dómsins átti sér stað í febrúar 2023 þegar móðir greip McCartney glóðvolgan við að misnota dóttur sína. Hann beitti skotvopni til að flýja af vettvangi og hvarf yfir fylkismörk, en var síðar handtekinn á hóteli í Houston í Texas og framseldur aftur til Louisiana.
McCartney var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni árið 2006 og fjórum árum síðar hlaut hann dóm fyrir að nauðga 12 ára barni.
Louisiana varð á síðasta ári fyrsta fylkið í Bandaríkjunum þar sem dómarar geta fyrirskipað skurðaðgerð á kynfærum þeirra sem dæmdir eru fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Lögin voru undirrituð af Repúblikananum Jeff Landry ríkisstjóra og tóku gildi 1. ágúst 2024.
Stuðningsmenn laganna telja að þau muni draga úr kynferðisbrotum gegn börnum, en andstæðingar hafa lýst ákvæðinu sem grimmilegri refsingu sem brjóti í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna.