fbpx
Þriðjudagur 19.ágúst 2025
Fréttir

Góðar líkur á stórum skjálfta í Brennisteinsfjöllum í nánustu framtíð

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. ágúst 2025 13:35

Mynd: Veðurstofa Íslands.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jarðskjálfti 3,2 að stærð varð í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesskaga í gær. Vísindamenn á Veðurstofu Íslands segja hins vegar góðar líkur á að á svæðinu verði allt að tvöfalt stærri skjálfti í nánustu framtíð en um 13 kílómetrar eru frá Brennisteinsfjöllum til Hafnarfjarðar.

Í nýrri tilkynningu frá Veðurstofunni um jarðhræringar á Reykjanesskaga segir að jarðskjálftinn í Brennisteinsfjöllum í gær hafi orðið laust eftir klukkan 18 og fundist á höfuðborgarsvæðinu. Brennisteinsfjöll séu virkt jarðskjálftasvæði. Síðan umbrotin hófust á Reykjanesskaga eða frá 2020 hafi orðið vart við aukna jarðskjálftavirkni á þessu svæði og sé það til marks um aukna söfnun spennu í jarðskorpunni.

Segir enn fremur í tilkynningunni að hafa beri í huga að sterkir jarðskjálftar verði endurtekið á þessu svæði, en þó með löngu millibili, og alls óvíst hvenær þeir verði næst. Síðast hafi þeir orðið 6,4 árið 1929 og 6,1 árið 1968. Síðan þá hafi byggingarstaðlar styrkst stöðugt með sífellt meiri kröfum til jarðskjálftahönnunar húsa. Þótt skjálftar af slíkum stærðum myndu hafa veruleg áhrif, svo sem grjóthruni í bröttum hlíðum og hreyfa við innanstokksmunum, sé sjaldgæft að fólk slasist í jarðskjálftum hér á landi, og sé það oftast vegna lausamuna.

Á jarðskjálftasvæðum sé því gott að hafa reglulega í huga hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir hægt sé að gera til að minnka líkur á tjóni, huga að lausamunum svo sem að þungir hlutir séu ekki staðsettir yfir rúmum o.s.frv., ásamt því að rifja upp leiðbeiningar um viðbrögð í jarðskjálftum.

Byggist upp

Í umfjöllun RÚV er haft eftir Benedikt Halldórssyni jarðeðlisfræðingi hjá Veðurstofu Íslands að ljóst sé að spenna sé að byggjast upp í Brennisteinsfjöllum og fólk verði að vera viðbúið því að þar verði skjálfti í nánustu af þessari stærðargráðu sem mun þá án efa finnast vel fyrir ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Benedikt segir þó óvíst hvenær skjálftinn ríði yfir en miðað við forsöguna verði stór skjálfti á svæðinu á um hálfrar aldar fresti en eins og áður segir var síðasti stóri skjálfti þar 1968. Benedikt segir að stóri skjálftinn verði að öllum líkindum í mesta lagi svipað stór og stærsti skjálftinn sem mælst hefur í Brennisteinsfjöllum, 6,4. „Eða eitthvað svoleiðis,“eins og Benedikt orðar það.

Tilkynningu Veðurstofunnar í heild er hægt að lesa hér en þar er einnig greint frá landsigi í Krýsuvík vegna jarðhræringa síðustu ára á Reykjanesskaga og því að kvikusöfnun sé hafin í Svartsengi og hafi náð svipuðum hraða og fyrir síðasta eldgos á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kærði ákvörðun um að fá ekki ökuréttindi aftur eftir að hafa verið sviptur ævilangt fyrir áratug

Kærði ákvörðun um að fá ekki ökuréttindi aftur eftir að hafa verið sviptur ævilangt fyrir áratug
Fréttir
Í gær

Meintur níðingur á Múlaborg var undir sérstöku eftirliti – Tilkynnt um „sérkennilegt háttalag“ í kringum börn

Meintur níðingur á Múlaborg var undir sérstöku eftirliti – Tilkynnt um „sérkennilegt háttalag“ í kringum börn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður sem hagaði sér undarlega í sundi handtekinn

Maður sem hagaði sér undarlega í sundi handtekinn