Nýlega kom upp atvik á Landspítalanum þegar látinn sjúklingur lá á sjúkrastofu í nokkurn tíma án þess að lík hans væri flutt í líkhús spítalans eins og gert er við slíkar aðstæður. Samkvæmt heimildum DV átti þetta sér stað að nóttu til og var hinn látni ekki fluttur af sjúkrastofunni í líkhúsið fyrr en um morguninn nokkrum klukkutímum síðar. Tafirnar á flutningi líks hins látna sjúklings munu ekki vera einsdæmi en þó hefur DV ekki upplýsingar um önnur atvik þar sem töfin hefur verið jafn löng. Landspítalinn staðfestir að umrætt atvik hafi átt sér stað en segir að komið hafi verið í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig og hinum látna hafi verið sýnd fyllsta virðing á meðan hann lá á sjúkrastofunni. Munu tafir á líkflutningum tengjast skipulagsbreytingum á spítalanum meðal annars vegna tilkomu nýs Landspítala.
Samkvæmt heimildum DV snúast skipulagsbreytingarnar á Landspítalanum um að vaktmenn á spítalanum vinna ekki lengur á næturvöktum en meðal verkefna þeirra er að flytja látna sjúklinga í líkhús spítalans. Voru þessar aðgerðir kynntar með þeim hætti að þær væru hugsaðar meðal annars í sparnaðarskyni. Að sögn heimildarmanna DV voru eftir þessar breytingar líkflutningar sem og önnur verkefni vaktmanna sem upp komu á nóttunni látin að miklu leyti bíða til morguns. Munu starfsmenn öryggisþjónustu spítalans, sem eru á vakt allan sólarhringinn, hafa átt að taka líkflutninga að sér á nóttunni en heimildarmenn DV segja það hafa gengið treglega.
Heimildarmenn DV segja að þessar breytingar og afleiðingar þeirra hafi í raun þýtt að látist sjúklingar að nóttu til á spítalanum hafi þeir verið látnir liggja í rúmum sínum fram á morgun þegar vaktmenn mæti til vinnu og geti flutt þá í líkhúsið. Áðurnefnt atvik þar sem sjúklingur lá látinn á sjúkrastofu yfir nóttina, eftir andlátið, mun samkvæmt heimildum DV hafa átt sér stað með þeim hætti að viðkomandi lá látinn á sjúkrastofu, sem hann hafði deilt með öðrum, innan um lifandi sjúklinga.
Samkvæmt heimildum DV var reynt, eftir að athugasemdum var komið á framfæri, að koma í veg fyrir að svona ástand skapaðist, með því að ráða nýjan starfsmann á næturvaktir til að aðstoða við líkflutninga, en heimildarmenn DV spyrja þá hver sparnaðurinn sé af þessum aðgerðum eftir allt saman eftir að bæta hafi þurft við starfsfólki til að líkflutningar tefðust ekki úr hófi fram á nóttunni.
DV sendi Landspítalanum ítarlega fyrirspurn vegna þessara mála. Spurt var í fyrsta lagi hvort þessar lýsingar væru réttar og hvort ráðist hafi verið í þessar skipulagsbreytingar í sparnaðarskyni og ef svo væri hversu mikill sparnaður sé reiknað með að náist fram með þeim.
DV óskaði einnig eftir staðfestingu frá Landspítalanum á því að nýleg dæmi væru um að látnir sjúklingar hafi legið í rúmum sínum yfir nótt á stofum með jafnvel öðrum sjúklingum. Einnig var spurt að ef svo væri hvort Landspítalinn telji það forsvaranlegt gagnvart hinum sjúklingunum sem enn lifa og aðstandendum þeirra eða hinum látnu og þeirra aðstandendum. Spurt var hvort spítalinn telji að með þessu hafi verið gætt nægilega að reisn hinna látnu sjúklinga og þeim sýnd tilhlýðileg virðing. Spurt var, í ljósi þess hvað gerist fyrir lík, hvort spítalinn telji þetta óhætt út frá heilsufarslegum og umhverfislegum sjónarmiðum að láta látinn einstakling liggja í nokkra klukkutíma í stofuhita, í námunda við aðra, áður en viðkomandi er fluttur í kæli í líkhúsinu.
Spurt var að lokum hvort sérstakur starfsmaður hafi verið ráðinn til að aðstoða við líkflutninga á nóttunni eftir þessar nýlegu skipulagsbreytingar og ef svo væri hvort það skjóti ekki skökku við og dragi úr mögulegum sparnaði með því að láta eins og áður segir vaktmenn hætta að vinna á næturvöktum.
Í skriflegu svari Landspítalans er staðfest að áðurnefnt atvik þar sem látinn einstaklingur lá látinn í nokkra klukkutíma á sjúkrastofu áður en lík hans var loks sótt hafi átt sér stað. Spítalinn nefnir þó engar tímasetningar og svarar ekki beint öllum liðum fyrirspurnar DV. Fullyrt er í svari spítalans að séð hafi verið til þess að hinum látna hafi verið sýnd tilhlýðileg virðing á meðan hann lá látinn á sjúkrastofunni og gengið hafi verið frá líki hans á stofunni eins og best hafi verið á kosið. Fram kemur í svarinu að umræddar skipulagsbreytingar tengist flutningum yfir í nýja Landspítalann sem er í byggingu og að séð hafi verið til þess að svona miklar tafir verði ekki á líkflutningum á spítalanum og það hafi verið meðal annars gert með fjölgun starfsmanna. Svar Landspítalans við fyrirspurn Landspítalans fer hér á eftir í heild sinni:
„Við undirbúning á stoðþjónustu á nýjum spítala hefur verið lögð áhersla á að samræma verkferla milli húsa og tryggja hagkvæma nýtingu mannafla og búnaðar. Næturvaktir vaktmanna voru lagðar niður bæði til að ná fram þessari samræmingu og í hagræðingarskyni. Flest verkefni voru færð yfir á dag- og kvöldvaktir, en verkefni sem krefjast viðbragða á nóttunni, þar á meðal líkflutningar, voru færð alfarið til öryggisþjónustu sem sinnir þegar næturvöktum. Áður voru líkflutningar sameiginlegt verkefni öryggisþjónustu og vaktmanna. Breytingin hefur verið lengi í undirbúningi og er hluti af því að tryggja hagkvæmni án þess að draga úr öryggi eða þjónustu.
Við breytinguna kom upp tilvik þar sem ekki tókst að flytja látinn einstakling strax eftir að beiðni barst. Í slíkum tilvikum hefur það þó alltaf verið forgangsmál að sinna flutningi um leið og það var framkvæmanlegt með hliðsjón af öryggi á staðnum. Á meðan hefur látinn einstaklingur verið lagður til og búið um hann af virðingu og með tilliti til annarra á stofunni. Landspítalinn leggur ríka áherslu á að öllum sjúklingum, bæði þeim sem lifa og hinum látnu, sé sýnd virðing og reisn, og að aðstandendur fái þá þjónustu og umönnun sem þeir eiga rétt á. Við höfum þegar gert úrbætur í verkferlum til að tryggja að flutningur fari fram eins fljótt og auðið er, allan sólarhringinn.
Tímabundið hefur verið aukið við mönnun öryggisþjónustu á nóttunni til að aðstoða við líkflutninga og önnur verkefni á meðan verið er að slípa verklag og tryggja samfellu í þjónustu. Þetta er liður í að tryggja að breytingarnar hafi ekki neikvæð áhrif á gæði eða hraða viðbragða. Aðlögunartímabilið getur haft tímabundin áhrif á áætlaðan sparnað, en til lengri tíma mun nýja skipulagið reynast betur og tryggja bæði hagkvæmni og öryggi.“